Litið á nokkur veðurkort - þriðjudag 29.október

Við lítum nú á fáein veðurkort sem öll sýna stöðuna síðdegis á morgun, þriðjudaginn 29.október 2024. Þetta er ekki sérlega merkileg staða - en þó má nota hana til að benda á notagildi kortanna. Þessi pistill er fyrst og fremst skrifaður með uppeldisleg sjónarmið í huga - þeir sem ekki taka slíku þurfa auðvitað ekki að lesa lengra. Finna má mikið úrval spákorta á vefnum - og kannski er það orðið eitt aðalvandamál veðurfræðinga nú til dags að velja sér kort til skoðunar - fer það eftir stöðu hvers dags hversu gagnleg hver gerð er. Það úrval sem við bjóðum upp á í dag er þannig aðeins lítill hluti þess sem hægt er að velja um. Enn erfiðara er að einnig er úr fjölmörgum mismunandi líkönum að velja. Þau eru engan veginn sammála, aðalatriðin kannski þau sömu fyrsta sólarhringinn, en smáatriðin ekki og eftir því sem spár ná yfir fleiri daga verður fjölbreytni þess veðurs sem boðið er upp á meiri og meiri. 

Sú spá sem við lítum hér á er í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar og er byggð á greiningu á miðnætti síðastliðnu - þetta er því 42 stunda spá sem gildir kl.18 á morgun. Önnur spá - með sömu kortum er væntanleg nú undir kvöld. Einhver munur verður á þessum tveimur spárunum, en aðalatriðin ættu samt að verða þau sömu. 

Slide1

(i) Þetta kort sýnir hæð 300 hPa-flatarins og vind í honum síðdegis á morgun. Jafnhæðarlínur eru heildregnar. Flöturinn er í um 9 km hæð yfir jörð. Hefðbundnar vindörvar sýna vindstefnu og styrk, en litir merkja þau svæði þar sem vindurinn er mestur. Dekksti blái liturinn sýnir vindhraða meiri en 80 m/s. Við sjáum hér bút úr heimskautaröstinni svonefndu sem hlykkjast í kringum norðurhvel - oftast þó í bútum. Það svæði þar sem vindurinn er mestur köllum við rastarkjarna - við getum líka notað hugtakið skotvindur (rastarinnar). Ritstjóri hungurdiska hefur þá sérvisku að vilja ekki nota orðið skotvindur um heimskautaröstina sjálfa - heldur aðeins þá hluta hennar sem líta út eins og sést á myndinni. Kannski bananalaga, oftast snýr kryppan til norðurs, en önnur kryppulega sést líka. Vindhraði í heimskautaröstinni er gjarnan mestur nærri veðrahvörfunum, á mörkum veðrahvolfs og heiðhvolfs. Svo vill til að í þessu tilviki gætir vindsins í röstinni lítt við jörðu. Það stafar af því að niðri í veðrahvolfi jafnar mikill hitamunur hann upp. Kalt loft liggur í neðri lögum - vestan og norðan rastar. 

Slide2

Það sjáum við að nokkru á næsta korti. (ii) Það sýnir hæð 500 hPa-flatarins, vindstefnu og styrk, en litirnir sýna hita í fletinu. Ekki er alveg jafnhvasst í þessum fleti (í rúmlega 5 km hæð) og er uppi í 300 hPa, en nóg samt, 50 til 60 m/s þar sem mest er. Dreifing hitans kemur fram sem mislitir borðar, þeir eru örmjóir við suðurströnd Íslands og sýnir það hitabrattann, mörgum stigum hlýrra er rétt sunnan við land heldur en yfir landinu. Þegar komið er norður á landið er hitamunur ekki teljandi á stóru svæði. Í rauninni er þetta loft ekki sérlega kalt, það eru frekar hlýindin suður af sem eru mikil. Ef við gætum svipt röstinni burt og látið hitadreifinguna eina um að búa til vindinn myndu þrýstilínur verða mjög þéttar þar sem jafnhitalínurnar eru þéttastar - og vindur blása að austnorðaustri. Þessi austnorðaustanátt - sem ekki sést - dugar að mestur til að jafna út ofsafengna vestsuðvestanátt háloftarastarinnar - þannig að vindur á landinu er ekki mikill.

Slide3

Við förum nú niður í 925 hPa. (iii) Það er um það bil fjallahæð, um 700 metrar í þessu tilviki. Það er dálítill vindstrengur sunnan við landið - vestsuðvestanátt rastarinnar rétt nær til jarðar, en mjög skert. Örsmá lægð er norðan við land - á leið til Noregs. 

Slide4

Hér erum við komin niður að sjávarmáli. (iv) Yfir landinu er hálfgerð áttleysa, en ákveðnari vestanátt (tengd háloftaröstinni) sunnan við land. Grænu litirnir sýna úrkomu, hún er nokkuð ákveðin á landinu suðvestanverðu. Inni í úrkomusvæðunum má sjá litla þríhyrninga, þeir gefa til kynna að úrkoman sé af klakkauppruna, skúradembur. Einnig má sjá tákn fyrir snjókorn inni yfir landi (hærra yfir sjávarmáli). Það kemur nokkuð á óvart hversu stór hluti úrkomunnar er klakkakyns, venjulega er úrkoma það síður undir háloftaröst í hæðarsveigju. En hér er líkanið að segja okkur að einhver óstöðugleiki liggur í veðrahvolfinu. Til að greina ástæðu hans nánar þyrftum við helst að fá að sjá svokallað þversnið - en slík eru ekki á lager sem stendur. Við látum því nægja að trúa þessu bara.

Slide5

Á þessu korti (v) má enn sjá jafnþrýstilínur sjávarmálskortsins (heildregnar), en aðrar upplýsingar eru úr 700 hPa-fletinum, í um 3 km hæð. Þar eru vindörvar, vindur undir háloftaröstinni er um 25 m/s úr vestsuðvestri. Litir sýna lóðréttar hreyfingar, þær eru mældar í Pa/s (Pasköl á sekúndu) - talan 1 er ekki mjög fjarri 0,1 m/s. Bláu litirnir sýna uppstreymi, en þeir brúnu niðurstreymi. Landið vekur bylgjur, hreyfingin er upp yfir Suðvesturlandi, en síðan til skiptis upp og niður. Ákafinn er mestur áveðurs, þar sem dekksti blái liturinn sýnir svæði þar sem uppstreymið er meira en 2 Pa/s - samsvarar um 0,2 m/s. Það meir en nægir til að kæla loftið (þegar loft lyftist til lægri þrýstings kólnar það) og þar með þétta rakann sé loftið mettað. Úrkoma fellur. Á niðurstreymissvæðunum verður skýjarof (í þessari hæð). 

Slide6

(vi) Hér erum við komin upp í 400 hPa, kringum 7 km hæð, jafnhæðarlínur eru heildregnar. Brúnu litirnir sýna svonefnt iðumætti. Iðumætti segir okkur frá því hversu þétt mættishitafletir liggja. Þeir liggja mun gisnara í veðrahvolfinu heldur en uppi í heiðhvolfi. Hiti fellur að meðaltali um 0,6 stig á hverja 100 metra í veðrahvolfi, alloft um allt að 1 stig á 100 metra, en stundum minna. Stöku sinnum hækkar hiti með hæð. Þá tölum við um hitahvörf. Hegðun hitafalls með hæð greinir að heiðhvolf og veðrahvolf. Í heiðhvolfi fellur hiti nær ekkert með hæð (alla vega mjög lítið miðað við veðrahvolfið). Veðrahvörfin liggja mishátt og ná stundum niður í 400 hPa (og stöku sinnum enn neðar). Komi fram svæði með miklu iðumætti í 400 hPa bendir það til þess að þar komi loft úr heiðhvolfi við sögu. Á kortinu sjáum við borða af slíku lofti liggja suðvestan úr hafi, yfir Ísland og alveg austur til Noregs. Þetta er einmitt í jaðri rastarinnar - á norðvesturhlið hennar. Röstin dregur loft niður vinstra megin við rastarkjarnann. Suðvestan við Grænland má sjá lítinn hnút með miklu iðumætti. Hann berst til Íslands og kemur hér við sögu á fimmtudag (sé að marka spár) og á þá að hreinsa frá - vindur að snúast til norðurs í bili. 

Slide7

Eru nú flestir farnir að þreytast (en engin miskunn er sýnd). (vii). Hér má enn sjá sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur). Litirnir sýna hins vegar svonefndan stöðugleikastuðul. Grænu svæðin gefa mjög stöðugt loft til kynna, en brúnir litir óstöðugt. Brúni borðinn sýnir að loftið við Ísland er nokkuð óstöðugt og ber nokkuð saman við hin lágu veðrahvörf á fyrri mynd. Skýrir kannski úrkomuna sem við vorum að velta vöngum yfir. 

Slide8

Nú (viii) förum við upp í 100 hPa-flötinn, hann er í um 16 km hæð. Litir sýna hita. Hér er hlýrra fyrir norðan land heldur en fyrir sunnan. Einmitt einkenni rastarinnar. Hún dregur loft niður fyrir norðan og vestan - það hlýnar í niðurstreyminu. Við getum því (óbeint) séð legu rastarinnar á þessu korti, jafnvel þótt miðja hennar sé ekki greinileg sé litið á vindhraðan einan. 

Slide9

Og uppi í 30 hPa (ix), í um 23 km hæð ná áhrif rastarinnar ekki. Á þessum árstíma kólnar þar hægt og bítandi - heimskautanótt vetrarins dreifir smám saman úr sér og sólin hættir að hita ósonið (og fleira). Ákveðin hringrás er hér að verða til í kringum heimskautið, vindhraði þó ekki nema um 25 m/s, en þetta er upphaf skammdegisrastarinnar sem mjög er í tísku þessi árin. Hún hringar sig í kringum skammdegissveipinn (stratospheric polar vortex) sem sumir segja að ráði miklu um vetrarveðráttu á meginlöndunum (ekki þó fullt samkomulag um það). En ótrúlegar umræður skapast þó á hverjum vetri um stöðu sveipsins og uppbrot hans og rastarinnar. En haustið er ekki nægilega langt framgengið til þess að samband sé komið á á milli heimskautarastar og skammdegissveips - enda er skammdegisröstin ekki búin að ná máli - og heimskautaröstin varla heldur. 

Slide10

Síðasta kortið ætti að vera föstum lesendum hungurdiska kunnugt. Það sýnir hæð 500 hPa-flatarins á norðurhveli ásamt þykktinni (litir). Jafnhæðarlínurnar eru mjög þéttar sunnan Íslands (röstin). Fjarlægðin frá bylgjudalnum við Nýfundaland til næsta bylgjudals austan við er óþægilega löng - getur varla haldist það í marga daga. Kryppumyndun er því líkleg - jafnvel síðar í vikunni. Leiðinlegur kuldapollur er við Spán (þar eru appelsínuviðvaranir í gildi) - og mikil hlýindi víða í Bandaríkjunum. 

Við megum gjarnan taka eftir því að á norðurslóðum eru engir afgerandi kuldapollar, tiltölulega jafn kuldi á öllu bláa svæðinu og jafnhæðarlínur inni í því ekki þéttar. Þetta er ekki óvenjulegt ástand á þessum tíma árs. Kuldapollarnir stóru ættu að fara að sýna sig þegar kemur fram í nóvember og síðan ná fullum þroska á jólaföstunni. Þangað til tölum við enn um haustveðráttu. 


Bloggfærslur 28. október 2024

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg081124d
  • w-blogg081124a
  • w-blogg071124a
  • w-blogg031124c
  • w-blogg031124b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.11.): 12
  • Sl. sólarhring: 313
  • Sl. viku: 1624
  • Frá upphafi: 2408638

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 1463
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband