Draugalægð gengur aftur?

Á sunnudaginn var (21.janúar) sendi skemmtideild evrópureiknimiðstöðvarinnar frá sér fádæma krassandi spá sem gilda átti á sunnudaginn kemur (28. janúar). Nánast metdjúp lægð átti að verða skammt undan Norðausturlandi (eftir að hafa farið yfir landið úr suðri og suðvestri). Þetta var heldur óvænt - lægðin hafði lítið sem ekkert gert vart við sig í fyrri spám - og hún gufaði síðan algjörlega upp í næstu spárunu á eftir. Ekkert með það - þetta gerist endrum og sinnum í líkönum - og enginn æsir sig yfir því. Bandaríska líkanið gaf ekkert svona til kynna. 

Svo gerist það allt í einu nú síðdegis (fimmtudag 25. janúar) að þessi „sama“ lægð dettur aftur inn í spár - en að þessu sinni hjá bandarísku veðurstofunni. Satt best að segja kemur þetta ritstjóra hungurdiska mjög á óvart, þetta er eins og draugssvipur birtist á þili. 

Við skulum nú bera saman þessa umræddu „skemmtispá“ evrópureiknimiðstöðvarinnar og bandarísku spána frá því nú á hádegi (12). Tökum fram að þetta er fyrir forvitni sakir - .

w-blogg250124a

Býsna afgerandi - en kom og fór - birtist aðeins í þessari spárunu - og hefur ekki sést síðan (í fjóra daga). Lægðin er 928 hPa í miðju, líklega met á þessum stað (líkur á svona lágum þrýstingi eru heldur meiri sunnan við land heldur en fyrir norðan það). 

Síðan er það spá bandarísku veðurstofunnar frá því á hádegi í dag (fimmtudag 25.janúar) - gildir á sama tíma og kortið að ofan.

w-blogg250124b

Lægðin nú 931 hPa í miðju eftir að hafa farið yfir landið austanvert. Býsna líkt fyrra korti og - eins og áður sagði - hefur ekki komið fram í spám frá því á sunnudag. Lægðin gengið aftur - eins og hver annar draugur.

Að lokum lítum við á nýjustu spá evrópureiknimiðstöðvarinnar - sem gangsett er á sama tíma og bandaríska spáin og gildir á sama tíma (síðdegis á sunnudag).

w-blogg250124a

Ákveðin líkindi eru þó með þessu korti og þeim hér að ofan. Það er lægð á svipuðum slóðum - og lægðardrag á Grænlandshafi. Munurinn hins vegar sá að lægðin er 962 hPa í miðju, meir en 30 hPa grynnri - og munar um minna. En reiknimiðstöðin er hins vegar búin að reisa upp lægð á sömu slóðum og afturgangan birtist á. 

Það yrði enn með ólíkindum holdgerðist draugurinn í raun og veru. Það er satt best að segja ekki mjög trúlegt - en við þurfum þó ekki að bíða lengi eftir því hvað gerist - enginn „jarðfræðilegur tímakvarði“ hér á ferð - aðeins nokkur dægur.

[Viðbót (á gildistíma spánna, sunnudag 28.janúar). Svo fór að við sluppum. Lægðin dýpkar nú milli Íslands og Noregs - en er enn spáð niður fyrir 940 hPa og á að valda ofsaveðri í Norður-Noregi á morgun - mánudag]. 


Lægð dagsins

Nú (rétt fyrir miðnætti miðvikudag 24.janúar 2024) nálgast illskeytt lægðarkerfi landið. Við látum Veðurstofuna og aðra til þess bæra aðila alveg um viðvaranir - en lítum á nokkur veðurkort - flest sjaldséð. En allar gerðirnar hafa þó sést á hungurdiskum áður. Kortin gilda öll kl.6 á fimmtudagsmorgni - tíminn sá er þegar liðinn þegar flestir lesendur fletta pistlinum.

Rétt er að senda út fjólubláa viðvörun gagnvart textanum hér að neðan - hann er við það að vera óskiljanlegur (en ekki samt alveg). Og enga spá er hér að finna. 

w-blogg240124ii

Fyrsta kortið er kunnuglegt, litirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum (rúmlega 1 km hæð). Mjög hlý tunga er yfir landinu. Hiti um frostmark í þessari hæð. Jafnþykktarlínur eru heildregnar, þykktin er líka allmikil (hún sýnir hita í neðri hluta veðrahvolfs), við sjáum 5360 metra jafnþykktarlínuna - loftið um 6 stigum hlýrra heldur en að meðaltali. 

Hér á að taka sérstaklega eftir því hversu gisnar jafnþykktarlínurnar eru í hlýju tungunni. Rétt vestan við land (við kuldaskil lægðarinnar) eru jafnþykktarlínurnar hins vegar mjög þéttar - ekki langt í kalda loftið. 

w-blogg240124iib

Næst lítum við á stöðuna í 500 hPa-fletinum í rúmlega 5 km hæð. Jafnhæðarlínur eru mjög þéttar og vindörvar sýna að vindur er meiri en 50 m/s þar sem mest er. Yfir landinu eru jafnhitalínur gisnar, en vestur af eru þær mjög þéttar - alveg í samræmi við þykktarkortið. Þegar vindur er svona hvass í miðju veðrahvolfi og jafnþykktarlínur eru þéttar eru líkur á því að hvassir háloftavindar nái mun neðar en vant er. Ritstjóri hungurdiska talar um að hes heimskautarastarinnar teygi sig í átt til jarðar. Þetta ástand er sérlega varasamt á hálendinu og norðan fjalla og fjallgarða. 

Fyrir vestan land er vindurinn ámóta mikill í 500 hPa, en talsvert minni niður við sjávarmál. Þarna eru jafnþykktarlínur þéttar - þykktarbratti mikill. Þegar best tekst til getur hann nærri því vegið háloftavindinn upp - því dregur fljótt úr vindi þegar „brattasvæðið“ (kuldaskilin) kemur inn á land. 

Reglan er því í aðalatriðum svona:

a) Mikill háloftavindur og lítill þykktarbratti = mikill vindur nærri jörð;

b) Mikill þykktarbratti og mikill háloftavindur = lítill vindur við jörð. Í tilviki b verður þó að taka fram að þykktarbrattinn vegur háloftavindinn best upp þegar bratti þrýstisviðs og þykktar hafa sömu stefnu (kalda loftið sömu megin) og jafnþykktarlínur eru jafnþéttar jafnhæðarlínunum;

c) Mikill þykktarbratti og lítill háloftavindur = mikill vindur nærri jörð. 

w-blogg240124iibb

Kortið að ofan sýnir lóðstreymi, bláu svæðin uppstreymi, en þau brúnu niðurstreymi. Því dekkri sem litirnir eru því ákafari er upp- eða niðurstreymið. Við þykjumst sjá skilakerfi lægðarinnar í bláa litnum. Landið býr til miklar bylgjur upp- og niðurstreymis - yfir því skiptist á ákaft uppstreymi - og niðurstreymi. Hér sjáum við að lægðin á að vera um 958 hPa í miðju. 

w-blogg240124iic

Við getum líka kortlagt svonefnt úrstreymi og andstöðu þess, ístreymi. Blái liturinn sýnir ístreymi á undan lægðinni og skilum hennar í 850 hPa-fletinum. Loft sópast inn að skilunum - lyftist þar (eins og við sáum á fyrra korti) - myndi annars bunkast upp. 

w-blogg240124iid

Á síðasta kortinu erum við komin upp í 400 hPa (í um 7 km hæð). Þar er mikil úrstreymisklessa (rauð) rétt á undan lægðinni - og ástæða dýpkunar lægðarinnar - úrstreyminu verður að mæta með uppstreymi - og enn neðar ístreymi. Gróflega má segja að jafnvægið á milli úrstreymis uppi og ístreymis niðri ráði úrkomumyndun - og þrýstiháttum lægðarinnar - hvort hún dýpkar eða grynnist. Er uppstreymið nægilega afkastamikið til að hafa í við úrstreymið? Getur ístreymið haft við? Úrkomumyndun - (rakaþétting) getur síðan haft afgerandi áhrif á afköstin (hún auðveldar uppstreymið). 

Svipuð lögmál gilda líklega á plötumótum Reykjanesskaga. Hvort kemur þar fyrst - úrstreymi eða ístreymi? - Koma fasabreytingar við sögu á milli úrstreymisins uppi og ístreymisins niðri? - En rétt er að hætta sér ekki lengra í þeim vangaveltum (þær eru bara settar hér sem moli handa þeim sem þrátt fyrir allt hafa komist í gegnum textann hér að ofan - algjörlega án ábyrgðar - eins og allt sem birtist á hungurdiskum.


Bloggfærslur 25. janúar 2024

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.1.): 90
  • Sl. sólarhring: 340
  • Sl. viku: 2857
  • Frá upphafi: 2427409

Annað

  • Innlit í dag: 72
  • Innlit sl. viku: 2560
  • Gestir í dag: 70
  • IP-tölur í dag: 70

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband