Hálfur desember

Hálfur desember. Meðalhiti í Reykjavík fyrri hluta desember er +0,2 stig, -0,9 stigum undir meðallagi sömu daga 1991 til 2020 og -0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Hitinn raðast nú í 14. hlýjasta sæti aldarinnar (af 23). Á þeim tíma var fyrri hluti desember hlýjastur árið 2016, meðalhiti þá +6,3 stig, kaldastur var hann 2011, meðalhiti þá -3,4 stig. Á langa listanum er hiti nú í 82. sæti (af 150). Hlýjast var 2016, en kaldast 1893, meðalhiti þá -5,9 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta desember -4,4 stig er það -4,2 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020 og -3,3 stig neðan meðallags síðustu tíu ára. Við eigum daglegar hitamælingar á Akureyri aftur til 1936. Á þeim tíma hefur fyrri hluti desember aðeins þrisvar verið kaldari en nú. Það var 1950, 1936 og 2011.

Hita er nokkuð misskipt milli landshluta. Að tiltölu hefur verið hlýjast á Suðausturlandi. Þar raðast hitinn í 14.hlýjasta sæti aldarinnar, en á Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og á Miðhálendinu er fyrri hluti mánaðarins sá næstkaldasti á öldinni.

Miðað við síðustu tíu ár hefur verið hlýjast á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, hiti +0,9 stigum ofan meðallags, en kaldast hefur verið á Sauðárkróksflugvelli þar sem hiti hefur verið -4,8 stig undir tíuárameðaltalinu.

Úrkoma hefur nokkuð rétt úr kútnum um landið sunnanvert síðustu daga. Hún hefur nú mælst 33,4 mm í Reykjavík og er það um þrír-fjórðu hlutar meðallags. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 14,1 mm og er það um 40 prósent meðaltals. Á Dalatanga er úrkoman um þriðjungur meðallags.

Sólskinsstundir hafa mælst 22,1 í Reykjavík og er það um 15 stundum fleiri en í meðalári og það næstmesta frá upphafi mælinga (fleiri stundir mældust sömu daga í fyrra). Á Akureyri hafa stundirnar mælst 1,1 (sem er reyndar ofan meðallags), en alveg sólarlaust er við mælistöðina á Akureyri frá u.þ.b. 8. desember þar til um 4.janúar.

Langtímaveðurspár hafa verið sérlega óvissar undanfarna daga. Veðurkerfi þau sem eiga að ráða veðri hér í næstu viku hafa verið ýmist í ökkla eða eyra og hita- og vindafari hér á landi spáð út og suður. Enn óvissari hafa spár fyrir Skandinavíu verið. Lægðum jafnvel spáð metdjúpum - og sömuleiðis hafa metsterkar hæðir sést í þeim. Það sem líklega veldur allmiklum hluta þessarar óvissu er veðurkerfi sem nú er að verða til suður í Mexíkóflóa.

w-blogg161223a

Hér má sjá spá um stöðuna á hádegi í dag. Kerfið er að verða til. Eftir að það skilar sér úr Flóanum ættu spár að ná mun betri tökum á því og verða áreiðanlegri. Lægðin á að fara til norðausturs með austurströnd Norður-Ameríku og vera komin hingað seint á þriðjudag eða miðvikudag - en hreinast ekki alveg austur af fyrr en á fimmtudag eða föstudag. En enn er óvissa mikil eins og áður sagði. 

 


Bloggfærslur 16. desember 2023

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.1.): 39
  • Sl. sólarhring: 709
  • Sl. viku: 3788
  • Frá upphafi: 2428619

Annað

  • Innlit í dag: 31
  • Innlit sl. viku: 3380
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband