Enn hagstætt - að mestu

Hér hefur nú í tvígang verið minnst á hina hagstæðu háloftahæð (eða hrygg) fyrir norðaustan land. Hann hefur nú haldið frá okkur lægðum að mestu í rétt rúmar þrjár vikur. Að vísu hefur veðrið ekki verið alveg jafngott um allt land allan tímann - en slíkt væri enn óvenjulegra. Þessar rúmu þrjár vikur hefur stöðug austanátt verið ríkjandi á landinu, kannski ekki alveg nægilega lengi til að teljast óvenjulegt samt. Óvenjulegheitin byrja ekki fyrr en í kringum 5 vikurnar. 

Eins og spár eru í augnablikinu virðist þessari austanáttarsamfellu eiga að linna upp úr helgi - kannski þegar á sunnudag. Hvort vestanáttin sem þá er sögð taka við hefur erindi sem erfiði er auðvitað of snemmt að meta - spár bregðast oft á styttri tíma en fjórum til fimm dögum.

w-blogg151123a

Spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir síðdegis á föstudag, 17. nóvember. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - af þeim ráðum við vindátt og styrk í miðju veðrahvolfi. Litir sýna þykktina, hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Hæðarhryggurinn hóflegi er þarna enn (strikalína nærri Íslandi). Mikil lægð er sunnan við land - hún á að fara austur til Bretlands án þess að hafa mikil áhrif hér á landi. Allmikið lægðardrag er vestan við Grænland - og er það sem sagt er muni valda breytingu - á að senda lægð norðaustur um Grænlandshaf og Grænlandssund á þriðjudag og miðvikudag í næstu viku - og þar með sópa hæðarhryggnum loks út af borðinu. 

Góðviðrið undanfarna daga hefur auðvitað komið sér mjög vel. Illviðri hefði enn þyngt viðbragðaróðurinn á Suðurnesjum - nóg er samt við að eiga. Við vonum svo sannarlega að umskipti í veðrinu verði ekki verulega illkynja. 

Síðastliðið sumar reyndi ritstjóri hungurdiska að grafast fyrir um uppruna orðróms um að góðviðri fylgi jafnan eldgosum og/eða jarðskjálftum - og ritaði um það stuttan pistil á fjasbókarsíðu sína. Þótt sumir lesendur hungurdiska hafi séð þann pistil áður hafa ábyggilega ekki allir gert það. Því skal hann endurtekinn hér að neðan - myndin sem sýnir tilvitnunina birtist einnig í sama pistli. Þeir sem hafa áður séð þetta þurfa að sjálfsögðu ekki að lesa meir.

„Ég heyri alloft (og sé) talað um eitthvað sem kallað er „jarðskjálfta- eða eldgosaveður“. Eftir þessari „þjóðtrú“ er um að ræða mikil hægviðri - jafnvel hita líka. Þegar farið er að grafast fyrir um rætur þessarar trúar kemur í ljós að hún er ævagömul - og reyndar að utan komin, allt frá rómverjum eða grikkjum hinum fornu. Í þeirra bókum er þessu haldið fram - og síðan tuggið aftur og aftur allar miðaldir - og jafnvel inn í huga íslendinga - dæmi meira að segja nefnd.

Sé farið í saumana koma saman tilvitnanir í „Náttúrusögu“ rómverjans Plíníusar eldri. Hann fórst í Vesúvíusargosinu í ágúst árið 79, en hafði áður skrifað gríðarmikið um náttúru- og landafræði.

pliniusartilvitnun-facebook-a

Í 81. kafla annarrar bókar verksins og næstu köflum á eftir segir af jarðskjálftum. Getið er þeirrar hugmyndar Babýlóníumanna að gangur himintungla valdi skjálftunum. - Síðan er sagt frá tveimur frægum grískum jarðskjálftaspám, annars vegar leist Anaximander frá Míletos ekki á ástandið í Spörtu, varaði menn þar við yfirvofandi skjálfta og skriðu, en hins vegar spáði Pýþagóras skjálfta eftir að hafa litið á vatn úr brunni.

Þetta er athyglisverður lestur - nokkuð skrýtinn samt og við hraðan yfirlestur finnst manni flest vera vitleysa ein. Byggt er á hugmynd grikkja (frægust hjá Aristótelesi) að jarðskjálftar séu vindgangur í jörð. - Og fljótlega er minnst á að jarðskjálftar eigi sér aldrei stað nema þegar sjór er hægur og himinn svo kyrr að fuglar geti ekki svifið - vegna þess (skilji ég rétt) að sá andi sem ber þá venjulega hafi lokast inni í jörðinni og valdi þar síðan vindgangi (skjálfta). Skjálftarnir hætti þegar jarðvindarnir hafi fengið greiða útrás - séu skjálftar fleiri en einn haldi þeir áfram í 40 daga eða meira - eins til tveggja ára jarðskjálftahrinur séu jafnvel þekktar.

Ekki er allt dellukennt sem kemur á eftir. Sagt er frá mismunandi skjálftum og fjölbreyttum afleiðingum þeirra. Þess er getið að borgir þar sem mikið er um neðanjarðarmannvirki, skemmist síður í skjálftum heldur en þær sem slíkt er ekki. Bogagöng eyðileggist síður heldur en annað, og svo framvegis. Jarðskjálftar boði oft eitthvað meira - Rómaborg hafi aldrei skolfið án þess að skjálftinn væri fyrirboði.

Nútímatölfræði sýnir ekkert samhengi milli veðurs og jarðskjálfta. Hugmyndir Plíníusar um mismundandi tíðni jarðskjálfta eftir tíma dags og árstíma eru einnig vafasamar - en við skulum þó geta þess að þeir stóru skjálftar sem við þekkjum hér á landi hafa ekki raðast jafnt á árið. Eru menn í alvöru að klóra sér í höfðinu yfir því.

Þess má geta í framhjáhlaupi að í 77. kafla sömu bókar er hin fræga tilvitnun í Pytheas frá Marseilles um eyjuna Thule. Þar er verið að fjalla um mismunandi lengd sólargangs (lengsta dags ársins) eftir breiddarstigum. Bókin er aðgengileg á netinu (víðar en á einum stað - en aðallega í þeirri útgáfu sem myndin vísar í)“.


Bloggfærslur 15. nóvember 2023

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg070125hb
  • w-blogg070125ha
  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.1.): 47
  • Sl. sólarhring: 593
  • Sl. viku: 3802
  • Frá upphafi: 2429224

Annað

  • Innlit í dag: 40
  • Innlit sl. viku: 3319
  • Gestir í dag: 40
  • IP-tölur í dag: 39

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband