Stutt hugleiðing um dægurhitamet

Þegar þetta er ritað (um kl.17) hafði hiti komist í 24,4 stig á Hallormsstað og Egilsstaðaflugvelli í dag (19. júní). Þetta mun vera hæsti hiti ársins á landinu til þessa - og hæsti hiti sem sjálfvirka stöðvakerfið hefur mælt á þessum almanaksdegi. Eldri tölur eru þó til frá mönnuðum stöðvum. Sú sem skráð er sem met í bókum ritstjórans, 26,3 stig er þó nær örugglega röng, Mældist í Möðrudal 1889. Um þessi gömlu Möðrudalshámörk hefur verið fjallað nokkuð áður hér á hungurdiskum. Næsthæsta talan þann 19. sýnist vera frá Hæli í Hreppum 1996. Þá var mjög góður dagur á Suðurlandi og hiti fór á fjölmörgum stöðvum vel yfir 20 stig þar um slóðir - en ekki nema 11,8 stig í Reykjavík (einn af þeim dögum).

Við lítum nú á mynd - til gamans.

w-blogg190622a

Dægurmetum allra daga ársins var raðað - og talið hversu mörg þeirra voru ofan eða neðan ákveðinna marka. Bláa línan sýnir fjölda neðan marka - en sú rauða fjölda ofan marka. Einn almanaksdag hefur hiti á landinu aldrei orðið hærri heldur en 12,0 stig. Þetta er reyndar hlaupársdagurinn sem ekki fær tækifæri til að setja met nema fjórða hvert ár. Tíu daga aðra hefur hiti aldrei mælst 14 stig eða meira. 

Nítján almanaksdaga hefur hiti mælst 28 stig eða meira og 81 dag ársins hefur hiti einhvern tíma náð 25 stigum. Hátt í 3 mánuði ársins. Hiti hefur náð 20 stigum eða meira 182 daga ársins - vantar aðeins 1 dag eða 2 á upp á helming þess. Nú er helmingurinn í 19,8 stigum. Sams konar yfirlit sem ritstjóri hungurdiska gerði fyrir 9 árum (en birti þá ekki) sagði að helmingaskilin væru í 19,3 stigum. Þau hafa sum sé hækkað um 0,5 stig á undanförnum 9 árum. Hluti hækkunarinnar kann að stafa af almennri hlýnun, en er örugglega að einhverju leyti fjölgun stöðva að þakka. 

Línurit þessarar ættar sveigja gjarnan (nær alltaf) af til endanna. Það er fullkomlega eðlilegt með hlaupársdaginn. En við sjáum samt að hann er ekki einn um að valda sveigjunni. Við gætum velt vöngum yfir sveigjunni á hinum endanum. Eru öll þessi hæstu gildi (sem þó hafa verið viðurkennd) rétt? 

Vegna breytinga á fjölda stöðva er dálítið mál að reikna „væntifjölda“ nýrra landsdægurmeta í algjörlega stöðugu veðurfari. En samt er ekki fjarri lagi að búast við að minnsta kosti 3-4 metum á ári - fleiri, fjölgi stöðvum mjög - og líka fleiri hlýni veðurfar. Miðgildið, sem nú er eins og áður sagði 19,8 stig hækkar því smám saman. Fróðlegt ætti að vera eftir 10 ár (eða 20 til 30) að sjá hver þróunin hefur orðið. En þá verður ritstjóri hungurdiska væntanlega hrokkinn út af borðinu - og spurning hvaða yngri nörd taka við keflinu. En ritstjórinn vonast þó til að geta hreinsað betur til í dægurmetaskránni til að losna við villur eins og þá sem nefnd var hér í upphafi. 


Bloggfærslur 19. júní 2022

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 66
  • Sl. sólarhring: 362
  • Sl. viku: 2075
  • Frá upphafi: 2466764

Annað

  • Innlit í dag: 63
  • Innlit sl. viku: 1922
  • Gestir í dag: 62
  • IP-tölur í dag: 58

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband