Fyrirstaða við Norður-Noreg

Þessa dagana er öflug fyrirstöðuhæð í háloftunum við Norður-Noreg. Þetta er hlass af hlýju lofti sem lokast hefur af norðan við heimskautaröstina og stíflar framrás lægðakerfa á stóru svæði. Fyrirstöðuhæðir af þessu tagi eru oft nokkuð þaulsetnar. Staðsetning hennar veldur því að lægðir stranda nú fyrir sunnan land - komast vart austur um - nema einhverjir angar austur um Miðjarðarhaf. 

w-blogg141122a

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) á mestöllu norðurhveli eins og evrópureiknimiðstöðin spáir að hún verði síðdegis á miðvikudag, 16. nóvember. Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Við sjáum hæðina og hlýindi hennar vel - og hvernig jafnhæðarlínuarnar (og þar með loftið) taka stóran sveig umhverfis hana. Loft sem berst um Atlantshafi úr suðvestri og vestri fer langan sveig í kringum mikið lægðardrag fyrir sunnan land - en það beinir síðan einhverju af því til Íslands í ákveðinni suðaustanátt. 

Lægðirnar fyrir sunnan land eru mjög djúpar - en hafa samt ekki roð í hæðina. Úrkomubakkar þeirra sveigjast í hring og berast hver á fætur öðrum upp að Suðaustur- og Austurlandi. Sé að marka spár er enginn úrkomubakkanna gríðarlega efnismikill - en hins vegar koma þeir hver á fætur öðrum - nánast linnulaust næstu dagana (sé að marka spár). Evrópurekinimiðstöðin nefnir um 30 mm úrkomu á dag alla vikuna - og 10 tii 15 mm daglega alla næstu viku líka. 

Auðvitað mun úrkoman koma í gusum (eins og venjulega) og alls ekki er víst að spár rætist, en þetta er samt dálítið óþægileg staða fyrir landshlutann. 

Ekki er þetta óþekkt í fortíðinni, við gætum auðveldlega rifjað upp nóvember 2002 þegar mánaðarúrkoma á Kollaleiru fór í nærri því þúsund millimetra (971,5 mm), mesta sem mælst hefur í einum mánuði á veðurstöð hér á landi. 

Það er of flókið mál (og óábyrgt) að fara hér út í að ræða hættu á flóðum og skriðuföllum, en má þó rifja upp að skriðuhætta virðist að einhverju leyti fara eftir því hversu „vant“ landið er að taka við úrkomu. Magn sem ekki veldur skriðum á Austfjörðum getur verið mjög hættulegt inn til landsins á Vestur- eða Norðurlandi. Sömuleiðis virðist sem skammtímaúrkomuákefð skipti miklu máli. Þótt ýmisleg vandamál fylgi sjálfvirkum úrkomumælingum (og alls ekki búið að leysa þau öll) gefa þær þó mjög mikilvægar upplýsingar um ákefðina - sem eldri athugunarhættir gera ekki. Rétt er að gefa allri ákefð sem er meiri en 10 til 12 mm á klukkustund alveg sérstakar gætur - sérstaklega standi hún yfir klukkustundum saman. Á stað eins og Reykjavík sem er ekki jafnvanur ákafri úrkomu og þéttbýli austanlands virðast vandræði geta hafist við enn minni ákefð. Ákaft rigndi í Reykjavík í gærkveldi (sunnudagskvöld 13. nóvember). Hæsta klukkustundargildi var 6,7 mm. Í Víðidal nærri Selási var ákefðin mest 9,7 mm. Einhverjar fréttir eru á sveimi um flóðaama í bænum - þótt 10 mm mörkum væri ekki náð. 

Rétt er að gefa ákefðartölum gaum. Áhugasamir geta rifjað upp (eldgamlan) pistil hungurdiska frá 10. maí 2011.

Á kortinu að ofan má einnig sjá að veturinn er smám saman að sækja í sig veðrið - en er hins vegar enn nokkuð fjarri okkur. Við borð liggur að fyrirstöðuhæðin áðurnefnda - og mikill hryggur yfir Alaska klippi kuldasvæðið í sundur. Hluti kuldans á að hörfa til suðurs og gerir nokkuð kuldakast víða um Bandaríkin næstu daga (þar hefur reyndar verið kalt sums staðar upp á síðkastið). Allramestu hlýindin virðast hjá í Vestur-Evrópu, en þar er þó ekki spáð neinum teljandi kuldum næstu dagana (einhverjir munu þó kvarta).    


Bloggfærslur 15. nóvember 2022

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 97
  • Sl. sólarhring: 407
  • Sl. viku: 1922
  • Frá upphafi: 2350658

Annað

  • Innlit í dag: 93
  • Innlit sl. viku: 1721
  • Gestir í dag: 93
  • IP-tölur í dag: 93

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband