Knútsbylur - 7. janúar 1886

Í samantektarpistli um veður á árinu 1886 sem birtist hér á hungurdiskum fyrir allnokkru er minnst á mikið illviðri sem gerði á landinu á „Knútsdag“, 7. janúar 1886. Bylur þessi varð mörgum eftirminnilegur og Halldór Pálsson frá Nesi í Loðmundarfirði tók saman um hann heila bók þar sem safnað er saman ýmsum fróðleik um veðrið og afleiðingar þess - staðreyndir og munnmæli. Þessi bók [Knútsbylur] kom út 1965 og vakti sem vonlegt var athygli ungra veðurnörda.

Þó bókin sé ítarleg var þar ekkert fjallað um eðli veðursins - hvers konar veður þetta var. Fyrir um 35 árum eða svo leit ritstjóri hungurdiska á málið - fór yfir helstu veðurathuganir og komst að einhvers konar niðurstöðu. Ekkert varð þó úr frekari umfjöllun. Í áðurnefndu yfirliti um árið 1886 segir hann hins vegar: „Þann 7.janúar (Knútsdag] gerði fárviðri um landið austanvert og er það síðan kennt við daginn og kallað knútsbylur. Verða því vonandi gerð betri skil síðar hér á hungurdiskum“. Margri umfjöllun hefur ritstjórinn lofað - og ekki staðið við - en hér er þó gerð tilraun til að krafsa í þá freðnu jörð. Skaðar í veðrinu verða þó ekki tíundaðir hér - heldur er vísað í áðurnefndan pistil - og auðvitað bók Halldórs Pálssonar. Rifjum þó upp setningu úr Fréttum frá Íslandi (1886):

[Sjöunda] „janúar var mesta afspyrnurok á Austurlandi; fauk þá nýsmíðuð kirkja á Kálfafellsstað í Suðursveit af grunni og brotnaði, menn týndust, fiskhús fuku, fjárhús rauf, skútur rak upp og um 1000 fjár fórst þar“. 

Norðan- og norðaustanveður hér á landi eru af ýmsum toga. Þegar ritstjórinn fór að kanna málið komst hann fljótt að því að veðrið var skylt páskahretunum miklu 1963 og 1917 og þar með háloftalægðardragi sem kom úr vestri eða norðvestri handan yfir Grænland. Þó varla væri vafi á þessu voru árið 1987 litlir möguleikar á að staðfesta að svo væri. Þetta var löngu fyrir tíma háloftaathugana. Nú er hins vegar farið að reyna að greina veður langt aftur í tímann á aflfræðilegan hátt í reiknilíkönum. Þó mikil óvissa fylgi slíkum reikningum gefa þeir þó mjög oft góðar vísbendingar um eðli veðra 140 til 150 ár aftur í tímann - og í undantekningatilvikum jafnvel enn lengra. Bandaríska veðurstofan hefur verið í fararbroddi slíkra reikninga fyrir 19.öld og hefur þrisvar birt niðurstöður sem ná til veðurs á árinu 1886. Svo vill til að niðurstaðan varðandi Knútsbyl er heldur síðri í þriðju heldur en annarri tilraun. Gögn úr þeirri annarri (kallast c20v2) eru því notuð hér.

Slide4

Hér má sjá ágiskun líkansins á hæð 500 hPa-flatarins um miðnætti aðfaranótt 7. janúar 1886. Gríðarmikil hæð er austur af Nýfundnalandi og norðan og norðaustan við hana er vindstrengur úr norðvestri - þvert yfir Grænland - ekki ósvipað og var í áðurnefndum páskahretum. Munurinn er helst sá að bylgjan fer hraðar hjá heldur en í hretunum tveimur. Við nánari athugun kemur í ljós að reikningarnir gera of lítið úr veðrinu. Ástæður geta verið ýmsar. Við verðum að hafa í huga að engar háloftaathuganir er að hafa, aðeins fáeinar stöðvar eru á Vestur-Grænlandi (engin á austurströndinni) og engar stöðvar í öllu norðanverðu Kanada. Takmarkaðar upplýsingar eru því um útbreiðslu og afl kalda loftsins. Svipað má segja um hæðina hlýju - styrkur hennar gæti hæglega verið vanmetinn líka. Engar athuganir er þar að hafa á stóru svæði. 

Slide6

Veðurkortið síðdegis á þrettándanum (6. janúar) er heldur sakleysislegt við Ísland (ekki ósvipað kortum dagana á undan páskahretunum). Dálítil lægð er á Grænlandshafi en mikil hæð suðvestur í hafi. Sé þrýstingur á kortinu við Ísland borinn saman við raunveruleikann - þann sem mældur var á stöðvunum þennan dag eru villur ekki miklar. Þó var vindur á stöðvunum um kvöldið of mikill til þess að þetta geti verið alveg rétt greining. Ákveðin norðaustanátt var í Grímsey bæði kl. 14 og 21. Logn var í Stykkishólmi kl.14, en kl.21 var vindur þar af vestri, talinn 4 vindstig þess tíma. Athugunarmaður í Hólminum, Árni Thorlacius (eða kannski Ólafur sonur hans), var nokkuð örlátur á vindstigin. Fimm vindstig kvarðans voru talin stormur (9 vindstig á Beaufort) og fjögur áttu að vera 7-8 vindstig. Líklegra er að vindur í Hólminum hefði að okkar máli mælst 10-13 m/s fremur en 14-20. En sama er það - jafnþrýstilínur á þessu korti gefa ekki tilefni til 10-13 m/s af vestri. Vestanátt var sömuleiðis í Vestmannaeyjum. 

Um landið sunnan- og vestanvert hlánaði aðeins þann 6. en hiti féll síðan mjög ört. 

knutsbylur- hiti-i rvk

Svo vill til að við eigum upplýsingar um hita á klukkustundar fresti þessa daga í Reykjavík - úr hitamælaskýli sem stóð í garði Schierbeck landlæknis nærri Austurvelli. Við sjáum að það rétt svo hlánaði að kvöldi þess 6., en strax upp úr miðnætti hrapaði hitinn og um hádegi þann 7. (Knútsdag) var komið -10 stiga frost. Enn kaldara varð daginn eftir, en síðan linaði aftur þann 9. Ekki vitum við hvernig vindáttum var háttað í Reykjavík þessa nótt. 

Í Reykjavík var sömuleiðis loftþrýstiriti, af honum sjáum við hvernig þrýstingur breyttist í þessu veðri. Það hjálpar okkur líka.

Slide2

Með því að bera saman ritið og þrýsting sem lesinn var af kvikasilfursloftvog finnum við að ferillinn liggur um 16 mm of hátt á blaðinu (sú lega er málamiðlun til að mjög lágur þrýstingur týnist ekki út af blaðinu, neðsta lína þess er 724 mm (= 965 hPa). Þrýstingur féll síðdegis þann 6. - samtals um 17 mm (23 hPa), en um miðnætti hætti hann að falla og skömmu síðar hrapaði hitinn. Miðja háloftadragsins var þó ekki farin yfir - hún gerði það væntanlega ekki fyrr en þrýstingurinn fór að rísa ákveðið um kl.5 um nóttina. Blási vindur á annað borð samfara svona miklu hitafalli - og rísi þrýstingur ekki á sama tíma - má heita ávísun á eitthvað illt í efni (ekki endilega á sama stað). 

Við getum notað þetta þrýstirit til stuðnings til að búa til rit fyrir aðrar stöðvar. Teigarhorn og Stykkishólm. Ritstjórinn gerði það fyrir meir en 39 árum og sýnir næsta mynd riss hans frá þeim tíma - sett inn á hefðbundið þrýstiritablað.

Slide3

Bláa línan er einfaldlega sú sama og Reykjavíkurþrýstiritið sýnir. Græna línan á að sýna þrýsting í Stykkishólmi, en sú fjólubláa þrýsting á Teigarhorni. Á þessum stöðvum var mælt þrisvar á dag á þessum árum. Á Teigarhorni er þrýstifallið miklu meira heldur en á hinum stöðvunum, í kringum 40 hPa. Kl.8 um morguninn er þrýstimunur á Reykjavík og Stykkishólmi um 9 hPa, það gefur tilefni til vinds á bilinu 15-25 m/s. Munurinn á Stykkishólmi og Teigarhorni er mestur um morguninn, um 38 hPa. Í Stykkishólmi voru þá talin norðaustan 5 vindstig (ef við reiknum með ofmati gætum við talað um 15-18 m/s). Slíkur vindur þýðir að ítrasta þrýstispönn yfir landinu (munur á hæsta og lægsta þrýstingi) hefur verið meiri, e.t.v. yfir 40 hPa. Slíkur munur er óvenjulegur - aðeins örfá dæmi sem við eigum á skrá og ekkert í norðanátt. Höfum þó í huga að ekki hefur miklum tíma verið eytt hér í að fara yfir þrýstiathuganirnar. Vel má vera að slík yfirferð myndi draga eitthvað úr hámarkstölunni - en þó ekki svo að veðrið komist úr flokki þeirra óvenjulegu. Í páskahretinu 1917 var mesti þrýstimunur um 37 hPa og 32 hPa í hretinu 1963. 

Veðurathuganir voru gerðar á nokkrum stöðvum á landinu á þessum tíma. Af þeim athugunum er ljóst að veðrið var talsvert verra á Austurlandi heldur en vestanlands og á Norðurlandi. Sömuleiðis stóð það ekki mjög lengi - nokkru styttra heldur en veðrin í páskahretunum sem áður er á minnst. Lægðin sneri ekki upp á sig eins og páskakerfin bæði, heldur fór hún nokkuð greitt til austurs. Veðurathugunarmaður í Þórshöfn í Færeyjum telur allt að því fárviðri daginn eftir - þegar lægðin fór þar hjá - það var óvenjulegt á þeim bæ. 

Þrír athugunarmenn segja eitthvað um veðrið - tveir þeirra á dönsku. Myndin sýnir skrif þeirra.

Slide1

Í lauslegri þýðingu segir Jón á Skeggjastöðum: „Þann 7. blés að morgni hægur vestsuðvestan kaldi, en rétt fyrir morgunathugun snerist vindur og nú hófst ofsafengið (gressilegt) óveður af austnorðaustri. Þetta veður hefur vafalítið ólmast um land allt, á mismunandi tíma dags; og á fjölmörgum stöðum valdið miklum slysum, eyðilagt hús og drepið fólk og fénað“. 

Þorsteinn Jónsson í Vestmannaeyjum segir (í lauslegri þýðingu): „Nóttina milli 6. og 7., frá kl. 3 til kl. 7  ólmaðist hér fárviðrislíkur stormur af vestri sem eyðilagði hitamæla nr. 8 og 9, eins og frá er greint í bréfi sem er lagt með mánaðarskýrslunni.“ Þetta bréf eigum við ekki. 

Kl.9 um morguninn mælir Þorsteinn -8,5 stiga frost - á þann eina mæli sem óskaddaður var eftir nóttina (ekki hinn venjulegi mælir - og mælingin því óvissari en vant er). Jafnframt telur hann vind af vestri 5-6 vindstig. Líklega er það 25-30 m/s. Að saman fari svo lágur hiti og svo mikill vindur í vestanátt í Vestmannaeyjum hlýtur að vera nánast - ef ekki alveg - einstakt. 

Jón Jónsson í Papey segir að þar hafi verið ofviðri frá kl.11 f.h. til 7 síðdegis. Vindstyrkur 6 (fárviðri) af norðri. Ólafur Jónsson á Teigarhorni segir fárviðri um kvöldið af norðnorðaustri. Kl.8 um morguninn voru þar 3 vindstig (um 10 m/s) af norðaustri - rétt við lægðarmiðjuna. 

Slide7

Hér má sjá tillögu bandarísku endurgreiningarinnar um hæð 1000 hPa-flatarins um hádegi þann 7.janúar 1886 (40 m samsvara 5 hPa). Þrýstispönnin er hér í kringum 25 hPa. Vindátt er rétt. Lægðin er um 974 hPa í miðju, um 10 hPa grynnri heldur en hin raunverulega. Þrátt fyrir allt má telja að endurgreiningunni hafi tekist mjög vel upp í þessu tilviki. Í þriðju endurgreiningunni er lægðarmiðjan 6-7 hPa grynnri, en ámóta staðsett og vindur yfir Íslandi heldur minni. 

Eins og áður sagði urðu miklir skaðar í veðrinu sem er í með þeim verstu í sínum flokki, þó það stæði ekki lengi. Vafalítið skall það yfir Austurland á mjög vondum tíma dags. Í öðrum landshlutum hafa menn alls ekki hleypt fé út til beitar - nema í neyð því þar skall veðrið á um nóttina eða undir morgun. 

Halldór Pálsson ritaði þrjár bækur til viðbótar um Skaðaveður áranna 1886 til 1901. Megináhersla er á Austurland - en margt er einnig tínt til úr öðrum landshlutum.  


Smávegis af desember

Eins og fram hefur komið var tíð hagstæð í desember síðastliðnum (2021). Meðalvindhraði var með minnsta móti og snjólétt var lengst af. 

w-blogg100122a

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) - af henni ráðum við ríkjandi vindáttir í veðrahvolfinu. Daufar strikalínur sýna þykktina, og þykktarvik eru sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og af litunum má sjá að hún hefur verið um 30 metrum meiri en að meðallagi (1981 til 2010) og hiti því um 1,5 stigi ofan meðallags. Afbrigðilega hlýtt var yfir Vestur-Grænlandi og voru þau hlýindi stundum nefnd í fréttum. Þessi miklu hlýindi stugguðu við kuldanum sem venjulega er á þessum slóðum og ýttu meginkuldapollum til vesturs. Mikil neikvæð hæðar- og þykktarvik voru yfir Kanada vestanverðu - en aftur á móti var óvenjumikil hæð - jafnvel meiri en hér, yfir Aljúteyjasvæðinu - og olli þessi kerfisröskun miklum öfgum í veðurlagi í vestanverðri N-Ameríku og á Kyrrahafi norðanverðu. Vel sloppið hins vegar hjá okkur. 

Þó hringrásin í veðrahvolfinu hafi verið okkur hagstæð að þessu sinni er samt varla hægt að segja að hún hafi verið sérlega afbrigðileg. Ef við leitum finnum við skylda desembermánuði í fortíðinni, síðast árið 2018. Líkust virðist hringrásin þó hafa verið í desember 1937 (þó við séum þá komin aftur í tíma ákveðinnar óvissu í reikningum).

w-blogg100122b

Hér þarf að hafa í huga að viðmiðunartímabil vikanna er annað (1901 til 2000). Þó sama jafnþykktarlínan liggi um Ísland og nú (5280 metrar) eru vikin á kortinu frá 1937 meiri - eða um +2,5 stig. Það hefur hlýnað umtalsvert á síðustu áratugum miðað við aldarmeðaltalið. 

Desember 1937 fékk góða dóma í Veðráttunni tímariti Veðurstofunnar. Þar segir: „Tíðarfarið var hagstætt og óvenju milt. Jörð varð víða alauð síðari hluta mánaðarins“.

Guðmundur Baldvinsson veðurathugunarmaður á Hamraendum í Dalasýslu segir um desember 1937: „Desembermánuður hefur verið óvenju góður, hlýindi og fremur úrkomulítið. Um miðjan mánuð gjörði töluvert frost, en það hélst aðeins stuttan tíma. Enn er töluverður gróður frá liðnu sumri. Þetta er sá besti desember sem fullaldra menn þykjast muna“.

Austur á Héraði segir Jón Jónsson athugunarmaður á Nefbjarnarstöðum stuttlega: „Óvenjulega hæg og mild tíð að undanteknum 16. til 17. Má því telja tíðarfar í mánuðinum hið ágætasta“.

Það má taka eftir því að Veðráttan segir um hafís: „Þ. 1. sást ísbreiða nálægt Horni. Þ. 7. voru hafísjakar út af Dýrafirði, og þ. 13. um 3 sjóm. N af Blakk á skipaleið“. [Blakkur eða Blakknes er sunnan Patreksfjarðar]. Talsverður hafís kom að landinu skamma stund vorið eftir (1938) - upphaf þess skeiðs sem ritstjóri hungurdiska hefur stundum freistast til að kalla óformlega „hafísárin litlu“. Hámark þeirra var 1944. 

Við þökkum BP fyrir kortagerðina. 


Bloggfærslur 10. janúar 2022

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 50
  • Sl. sólarhring: 54
  • Sl. viku: 541
  • Frá upphafi: 2343303

Annað

  • Innlit í dag: 46
  • Innlit sl. viku: 492
  • Gestir í dag: 39
  • IP-tölur í dag: 35

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband