Breyting á sólskinsstundamælingum

Um síðastliðin áramót var hætt að mæla sólskinsstundir í Reykjavík með svokölluðum Campbell–Stokes mæli. Sól skín í gegnum glerkúlu og brennir rauf í blað sem þar er komið fyrir. Mælirinn var fundinn um 1853 [um það má lesa á Wikipediu] og frá 1879 var hann endurbættur lítillega. Byrjað var að nota svona mæli á Vífilsstöðum 1911 og má heita að sólskinsstundir hafi verðið mældar á þennan hátt á höfuðborgarsvæðinu síðan. Mælingar lögðust af á Vífilsstöðum 1923 en hófust þá nærri skrifstofu Veðurstofunnar við Skólavörðustíg - og frá 1931 í Landssímahúsinu við Austurvöll. Árið 1946 fluttust mælingarnar í turn Sjómannaskólans og voru þar þar til flutt var á Bústaðaveg að Veðurstofunni 1973. 

Mælingarnar hafa alla tíð verið gerðar á sama hátt; þegar sólin skín brennir hún rönd í pappír sem komið er fyrir aftan við kúlulaga linsu (brennigler). Skipt er um blað einu sinni á sólarhring og lengd randarinnar á blaðinu mæld. Þótt mælingin sé einföld getur ýmislegt truflað hana og ruglað. Fyrst er að telja að hér sem og við aðrar mælingar skiptir samviskusemi athugunarmanns miklu máli. Ef ekki er skipt um blað þannig að fleiri en einn dagur lenda á sama blaði er oft erfitt að aðgreina sólskinsstundir hvers dags um sig. Athugunarmaður verður einnig að sjá til þess að kúlan sé hrein þannig að hún hleypi sólargeislunum í gegn. Mælirinn má heldur ekki skekkjast. Að þessum vandamálum tengdum athugunarmanninum slepptum eru fleiri vandamál.

Hér á landi er aðeins notuð ein kúla á hverjum stað. Þetta veldur því að þegar sólargangur er mjög langur er hætt við að mælirinn skyggi á sjálfan sig þegar sólargangur er lengstur og fyrstu sólargeislar morgunsins og síðustu geislar kvöldsins mælist ekki. Pappírinn, sem notaður hefur verið, hefur, því miður, verið misdökkur og efnið í honum misjafnt í þessi rúmu 80 ár sem mælingarnar hafa staðið. Þetta veldur því að hann brennist misvel og viðbúið að einhverju muni á tímabilum af þeim sökum.Einnig er hægt að lesa misjafnlega af blöðunum, en tilraunir sem gerðar hafa verið á Veðurstofunni benda til þess að sá munur sé óverulegur þegar tekið er saman sólskin heils mánaðar. Allt þetta verður að hafa í huga þegar horft er á niðurstöður mælinga.

Árið 2005 var einnig farið að nota sjálfvirkan mæli og hafa þær mælingar verið gerðar samhliða hinum á þaki Veðurstofuhússins síðan. Lítilsháttar vantar í mæliröð þessa. Samanburður sem Árni Sigurðsson veðurfræðingur gerði fyrir allnokkrum árum á mælunum tveimur bendir til þess að þeir mæli álíka margar sólskinsstundir á ári. Kvöld- og morgunskuggar þeir sem minnst var á hér að ofan valda hins vegar því að á mestu sólardögum mælir sjálfvirki mælirinn lengur heldur en sá eldri - meir um það hér að neðan. Á móti kemur að brennimælinum hættir til að brenna of stór göt í blaðið - sé sólskin „köflótt“ - til dæmis í skúraveðri. 

Ritstjóri hungurdiska gerði á dögunum könnun á þessum mun mælanna frá 2006 til 2020. Aðeins var litið á mánuðina maí til ágúst. 

Myndin hér að neðan sýnir niðurstöðuna:

w-blogg100521

Lóðrétti ásinn sýnir mun á mælunum (í klukkustundum), en sá lárétti sólskinsstundafjölda á sjálfvirka mælinum. Við sjáum að þegar sólskinsstundir eru fáar er munur á mælunum mjög lítill, brennimælirinn hefur ómarktækt betur þegar sólskinsstundirnar eru 5 til 7, en síðan má segja að munurinn fari vaxandi, sérstaklega þegar komið er upp í 14 til 16 stundir. Mesti munurinn er á heiðríkum dögum, 1,5 til 1,8 stundir. 

Þetta ruglar auðvitað innbyrðis samanburð sólskinsmánaða. Fyrstu 14 daga þessa mánaðar, (maí 2021) mældi nýi mælirinn 187,4 stundir - það er það mesta sem mælst hefur áður þessa daga eftir að hann var tekinn í notkun. Næstflestar voru sólskinsstundirnar sömu daga árið 2015. Þá mældust 176,3 stundir á sama mæli, 11,1 færri en nú. En gamli mælirinn mældi ekki nema 166,2 sömu daga, 10,1 færri. Árið 1958 höfðu sömu mánaðardaga mælst 174,7 stundir. Spurningin er nú auðvitað sú hversu margar stundir hafðu þá mælst á nýja mælinn? Það vitum við auðvitað ekki - en ef við leitum aðstoðar myndarinnar við að giska ættu þær að hafa verið 180,1. Það er að segja færri heldur en nú. 

Sólskinsstundamet maímánaðar í Reykjavík er einmitt frá 1958, 330,1 stund. Við vitum ekki en hversu nærri maímánuður 2021 kemst þeirri tölu. Til að ritstjóri hungurdiska geti talað rólega um nýtt met þyrfti nýi mælirinn að komast upp í 340 stundir - 339,4 er ágiskuð tala myndarinnar hér að ofan. Mjög slæmt er að breyta aðferðum við mælingar - ekki síst þeim sem búið er að gera lengi. En við gömlu mennirnir verðum víst að sætta okkur við framrás tímans - og nýi mælirinn er auðvitað að mörgu leyti betri heldur en sá gamli. Því er hins vegar spáð að hann muni bila - og dagar fari að falla úr - þá þarf að fara að skálda í eyður með aðstoð skýjahulu - hvernig á hins vegar að gera það falli skýjahuluathuganir niður líka?


Bloggfærslur 15. maí 2021

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a
  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 61
  • Sl. sólarhring: 240
  • Sl. viku: 1077
  • Frá upphafi: 2351952

Annað

  • Innlit í dag: 59
  • Innlit sl. viku: 979
  • Gestir í dag: 56
  • IP-tölur í dag: 54

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband