Strandveður

Ritstjóri hungurdiska flettir í gömlu dóti og rekst á sérprent úr riti sem þýska sjóveðurstofan í Hamborg (Seewetteramt) gaf út 1951 [Klima und Wetter der Fischergebiete Island - Veðurfar og veður á fiskimiðum við Ísland). Sérprentið ber yfirskriftina „Wetterlage bei Strandungen an der Südostküste Islands“ - eða Veðurlag við skipströnd við suðausturströnd Íslands. Þar fjallar Martin Rodewald (1904-1987 og var mjög þekktur veðurfræðingur á sinni tíð) um efnið. 

Greinin hefst á stuttri frásögn hans um eigin reynslu undan ströndinni í maí 1926 í hægri suðaustanátt og þoku - og þau óþægindi sem því fylgdu, vitandi af ströndinni skammt undan og það sem loksins sást var flak sem þar lá. Það var það fyrsta sem Martin Rodewald sá af Íslandi. Í greininni er síðan tafla yfir 12 þýsk „strönd“ á þessum slóðum, það fyrsta 1898 en það síðasta 1949. Hann vekur athygli á því að veður var í flestum tilvikum ekki sérlega vont, engin fárviðri alla vega. Strekkingsvindur, upp í 7 vindstig, en oftast minna. Vindátt oftast af austri, en skyggni slæmt.

Skanni_20210208

Kortið sýnir „meðalveðurlag“ í 10 af þessum 12 ströndum, tvö eru víst talin lítt veðurtengd. Athygli er vakin á því að þetta víkur nokkuð frá meðalþrýstingi í desember - þrýstivindur er mun suðlægari en venjulega. Háþrýstingur meiri en oftast er yfir Skandinavíu - og Íslandslægðin svonefnda í fremur vestlægri stöðu. Það þýðir væntanlega að skyggni er verra en algengt er. Sömuleiðis bendir hann á að vindátt á strandstað víkur mjög frá þrýstivindáttinni (fylgir ströndinni eða stefnir jafnvel út frá landi) - en er suðlæg þar fyrir ofan. Við þekkjum þetta veðurlag vel. 

Fjölmargir þýskir togararar stunduðu veiðar við Ísland og flotanum fylgdu gjarnan eftirlits- og aðstoðarskip. Veðurskeyti þeirra komu oft að góðum notum á Veðurstofunni þegar veður voru válynd og hafa vafalítið bjargað einhverjum mannslífum - ekki aðeins þýskum. Sum nöfnin urðu kunnugleg, t.d. Poseidon og Meerkatze - og fleiri. Við, gamlir veðurfréttanaglar, hugsum til þeirra af hlýhug (þó eitthvað hafi verið kvartað undan þeim á landhelgisbaráttuárunum). En þessi gamli veðurfréttaheimur er löngu horfinn. Þó spám hafi fleygt fram er samt margs sem sakna má. 


Bloggfærslur 8. febrúar 2021

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 384
  • Sl. viku: 1582
  • Frá upphafi: 2350209

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1455
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband