Frosin vatnsleiðsla og rafmagnsleysi (bernskuminning)

Fyrstu ár byggðar í Borgarnesi treystu íbúarnir á brunnavatn. Nokkrir brunnar voru í bænum, misgóðir og misvatnsgæfir. Einn þeirra var t.d. í kjallara hússins sem langafi og langamma ritstjóra hungurdiska byggðu. Ekki var það sérlega góður brunnur - en dugði að einhverju leyti. Ekki var mjög langt í næsta brunn - sá var nærri þeim stað sem Gunnlaugsgata mætir nú  Skúlagötu. Þar var mikið vatn. Einhvern tíma um eða upp úr 1920 hófst mjólkurvinnsla í Nesinu. Þá var lögð vatnsleiðsla frá þessum brunni niður í mjólkursamlag - nutu fáein íbúðarhús á leiðinni þessarar vatnsveitu - alla vega að einhverju leyti. Þar á meðal hús fjölskyldu ritstjórans. 

En það fjölgaði í þorpinu og upp úr 1930 var ljóst að brunnarnir gáfu ekki nægilegt vatn - og alls ekki til iðnaðarnota. Þá var farið að huga að vatnsveitu - ýmsir möguleikar komu til greina. Eftir ítarlega skoðun varð ofan á að hönnuð var vatnsveita sunnan úr Hafnarfjalli þar sem nú heitir Eystra-Seleyrargil (eða Innra-). Þó var svo þröngt í búi á kreppuárunum rétt fyrir stríð að ekki varð úr framkvæmdum. 

Ísland var hernumið í maí 1940. Borgarnes var á þessum árum samgöngumiðstöð - vegur fyrir Hvalfjörð var illur og seinfarin. Flutningar á varningi - bæði til héraðsins og úr því (svosem mjólk og aðrar landbúnaðarafurðir) fóru fram með skipum, reglubundnar siglingar voru um Faxaflóa og komu flóabátarnir þar við. Ingólfur, Suðurland, Laxfoss og loks Akraborg - og ýmis afleysingaskip. 

Bretar höfðu því augastað á Borgarnesi og komu þar með mikið herlið síðla sumars og um haustið 1940. Áður höfðu náðst samningar um að þeir útveguðu (og greiddu) efni í vatnsveitu yfir fjörðinn - svipað og áætlað hafði verið. Þó var, vegna stríðsins, ekki hægt að fá fyrirhugaða stærð af rörum og leiðslan því mjórri en ætlað hafði verið. En í staðinn var reistur vatnsgeymir á hæsta holti bæjarins. Unnið var að stíflugerð í Seleyrargili um haustið - og um veturinn, vatnsgeymir var steyptur og leiðslur lagðar um þorpið. 

stifla-i-eystra-seleyrargili_juni-2012

Leifar vatnsveitumannvirkja í Eystra-Seleyrargili (myndin tekin í júní 2012). Stíflugarður þveraði gilið - fyrir ofan hann var sand- og malargildra sem vatnið síaðist í gegnum inn í geymi sem stóð neðan við stífluna. Geymirinn jafnaði rennsli og hélt uppi þrýstingi á leiðslunni. Meir en 100 metra hæðarmunur er á geyminum og vatnsgeyminum handan fjarðar í Borgarnesi. Stíflan grófst að nokkru í mikla skriðu sem féll aðeins innar í gilinu í júlí 1966 - en rutt var frá henni aftur og nýttist hún í nokkur ár í viðbót. Í miklum úrkomum varð varð rennsli í gegnum malarsíuna oft það mikið að gróðurleifar og smádýr komust í vatnið. Ekki minnist ritstjórinn þess að það hafi valdið sérstökum hryllingi. 

Vatnsveitan var formlega tekin í notkun í júní 1941. Óhætt er að segja að um framfarabyltingu hafi verið að ræða. Vatnsleiðsla hafði til þessa ekki verið lögð yfir sjó á Íslandi áður. Vegalengdin í sjó - frá Seleyri og yfir í Borgarnes var ekki fjarri 2 km. 

Menn höfðu nokkrar áhyggjur af leiðslunni. Svo er að sjá að aðaláhyggjurnar stöfuðu af ísreki á firðinum. Jakaburður myndi jafnvel slíta leiðsluna í sundur. Minna var talað um hættuna á að vatnið í leiðslunni frysi. - Eitthvað var þó á þann möguleika minnst. Til öryggis voru einn eða tveir brunnar endurnýjaðir þannig að ekki yrði algjör vatnsskortur í mjólkursamlaginu þótt leiðslan brygðist. 

Svo virðist sem litlir hnökrar hafi verið á vatnsflæðinu fyrstu árin. Það var ekki fyrr en árið 1955 að upp komu veruleg vandræði - og síðan aftur árin 1959 og 1960. 

Veðurfar á árinu 1955 var að ýmsu öfugsnúið. Norðlægar- og austlægar áttir með háþrýstingi voru ríkjandi í janúar og febrúar (og reyndar í apríl og maí líka), en sumarið með eilífum suðvestanáttum, illviðrum og rigningum um landið sunnan- og vestanvert, en hlýindum eystra. Um haustið snerist svo aftur til austlægra og norðlægra átta. 

Eitt frægt illviðri gerði í janúar - mest þó á Vestfjörðum og á Vestfjarðamiðum þann 26. Tveir breskir togarar fórust með 42 manna áhöfn og togarinn Egill rauði strandaði við Sléttunes, 5 fórust þar. 

Á baksíðu Tímans 23.janúar eru nokkrar fréttir tengdar veðri - bæði innlendar og erlendar:

Ísinn sprengdur af innsiglingu í Hornafirði. Bátarnir ýta síðan íshroðanum út í strauminn, sem ber hann út um ósinn. ... Hafa sprengidrunurnar því kveðið við hér í kauptúninu án afláts í dag.

Þoka mikil er í Bretlandi og tafði hún eða stöðvaði með öllu umferð bæði á landi og í lofti. Flugvöllurinn í London var opnaður í dag eftir hádegi, en þá hafði hann verið lokaður í 18 tíma vegna þoku. Þrjú skip strönduðu vegna þokunnar og önnur sigldu hvort á annað.

Mestu frost síðan 1918 á Sléttu.

Snjóþyngslin í Skotlandi: Smábændur áttu ekki matarbirgðir nema tvo til þrjá daga.

En svo eru fréttir úr Borgarnesi:

Aldrei eins mikill ís á Borgarfirði síðan 1918. Nokkur hluti íshellunnar brotnaði upp í fyrradag og er ísrek hættulegt smáskipum. Mikið ísrek er nú á Borgarfirði, enda var kominn meiri íshella á fjörðinn í fyrradag en menn muna eftir síðan 1918, frostaveturinn mikla. Fjörðurinn var nú ísi lagður niður undir Borgarnes og auðveldlega hægt að fara yfir ísinn milli Einarsness og Hvanneyrar. Í fyrradag brotnaði íshellan upp á stóru svæði næst Borgarnesi og barst síðan mikið íshröngl og jakar með sjávarföllum og straumi um Borgarfjörð. Gerir þetta siglingar að og frá Borgarnesi bæði erfiðar og hættulegar og alls ekki færar nema járnskipum.

Það var í þessu íshröngli að Eldborgin laskaði skrúfuna í fyrradag svo að skipið varð að halda kyrru fyrir í firðinum þar til birti í gær. Fór það þá til Reykjavíkur. Hafði undizt upp á eitt skrúfublaðið, og fór skipið í dráttarbraut. Losnaði það kl.7 í morgun og fór í áætlunarferð. Mjólkurflutningar geta því ekki farið fram sjóleiðina frá Borgarnesi en bílar óku mjólk út á Akranes í gær. Þaðan er hún flutt á vélbát, sem fenginn hefir verið til að vera í förum milli Akraness og Reykjavikur meðan gert er við Eldborgina. Þessi bátur kemst ekki í Borgarnes meðan fjörðurinn er svo varhugaverður vegna ísreksins.

Borgnesingar sækja nú neyzluvatn sitt í brunna á gamlan móð. Klakastífla í gilinu, þar sem vatnið er tekið í Hafnarfjalli, stíflar vatnsveituna. Borgnesingar hafa ekki vatn nema af skornum skammti þessa dagana. Vatnsveita þorpsins er óstarfhæf, vegna þess að klakastífla kom í gilið, þar sem vatnið er tekið í Hafnarfjalli. Síðast liðna tvo daga hafa menn unnið að því að sprengja þessa klakastíflu, en það hafði ekki tekizt í gær. Vatnsleysið olli Borgnesingum margs konar erfiðleikum. Einkum eru það þó húsmæðurnar, sem sakna vatnsins illa. Í þessu vatnsleysi hefir það komið sér vel, að fáeinir Borgnesingar hafa haldið við gömlu vatnsbólunum, brunnunum, af gamalli tryggð, en þessir brunnar eru nú vatnsból allra þorpsbúa. Það er því algeng sjón þessa dagana að sjá fólk rogast með vatnsfötur um kaupstaðinn og stundum er biðröð við brunnana.

w-blogg201121aa

Heildregnu línurnar sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í janúar 1955 en litirnir hæðarvikið. Þurrar og kaldar norðvestanáttir voru ríkjandi - og í febrúarmánuði líka. Þetta er mjög dæmigerð þurrkastaða um landið sunnan- og vestanvert. Svipuð staða var uppi í febrúar. Það er varla tilviljun að næst þegar mánaðakortið var svipað, í janúar 1959 og í febrúar 1960 voru líka vandræði með vatn í Borgarnesi. 

Nærri mánuði síðar eru enn vandræði með vatnið. Vísir segir frá 17.febrúar (1955):

Frá fréttaritara Vísis. — Í Borgarnesi í gær.
Allvíða í héraðinu er nú farið að bera á vatnsskorti á bæjum og veldur hann sumstaðar allmiklum erfiðleikum. Frost hafa verið að undanförnu og stillur. Vatnsmagn í ám er mjög lítið. Borgnesingar hafa einnig átt við erfiðleika að stríða af völdum vatnsskorts, og þó ræzt furðanlega úr, eftir atvikum. Vatn er leitt hingað úr gili í Hafnarfjalli sunnan fjarðarins og fraus vatnið í pípum á fjarðarbotninum fyrir nokkru, en komst í lag af sjálfu sér, en s.l. fimmtudag fraus aftur. Er nú farið að sækja vatn í tankbílum suður fyrir fjörð. Er það sótt í vatnsleiðsluna úr gilinu, og er tekið úr pípunum skammt frá veginum. Einn bíll hafði áður verið sendur vestur að Langá, en hætt var við að sækja meira vatn þangað, vegna erfiðleika á að ná því. Með því að sækja vatn í tankbílum suður fyrir fjörð mun vera hægt að sjá íbúum kauptúnsins fyrir nægu neyzluvatní. Þá hefur verið unnt að sjá mjólkurbúinu fyrir nægu vatni, og er það því að þakka, að þegar vatnsleiðslan kom til sögunnar var steyptur upp brunnur, til þess að hafa til vara, en úr honum fást um 40 smálestir af ágætu vatni á dag, og er það um bil það, sem mjólkurbúið þarfnast.

Skorradalsvatn er nú þykkum ísi lagt og vatnsmagn minkað mjög í því. Hefur Andakílsvirkjunin því mælzt til þess, að menn notuðu rafmagnið ekki óhóflega, og þeir sem fá rafmagn til næturhitunar grípi til kolahitunar, svo frami þeir geti það, og hafa menn brugðizt vel við þeim tilmælum, og spara auk þess rafmagn eins og hægt er, enda hefur alltaf gengið vel, og raforkan nægt til ljósa og iðnaðar.

Nýi Tíminn segir 24.febrúar:

Borgarnesi í gær. Frá fréttaritara. Vegna langvarandi frosta og úrkomuleysis er hér vatnsskortur og skammtað rafmagn. Vatn er sótt langa leið í tankbíl og ekið um bæinn, því frosið er í vatnsleiðslunni. Auk þess er vatn tekið úr brunnum sem haldið hefur verið við hér og er furðanlegt hve mikið vatn er hér í brunnum bæjarins. Vegna úrkomuleysis og frosta undanfarið hefur vatnið í Andakílsánni minnkað stöðugt og er því rafmagn skammtað hér þannig að ljós eru tekin af frá kl.12 að kvöldi til kl. 6 að morgni.

Síðasta fréttin af vatnsleysinu kom í Tímanum 26. mars - höfðu vandræðin þá staðið í tvo mánuði:

Frá fréttaritara Tímans í Borgarnesi. Eins og skýrt var frá hér í blaðinu fyrir nokkru, þá varð vatnslaust í Borgarnesi í frostunum, sem gengu yfir fyrir um það bil mánuði. Var vatn sótt á bilum, meðan leiðslurnar voru í ólagi. Nú hefir þessu verið komið í lag og kom vatn í síðasta húsið í fyrradag. Kom vatn siðast í hús á Brákarey.

Tveimur árum síðar urðu enn vandræði í Andakílsárvirkjun. Ritstjóri hungurdiska getur ekki heiðarlega haldið því fram að hann muni stöðuna 1955, en minnist hins vegar vandræða veturinn 1956 til 1957. Mikil illviðri gerði í desember 1956 og slitnuðu þá raflínur - miklar spennusveiflur urðu í rafmagni og minnisstæðar týrurnar á ljósaperunum. Sömuleiðis var eðlilegt að hafa olíulampa og kertabirgðir ætíð til taks.  

Vísir segir frá 20.mars 1957:

Vatnsrennslið til Andakílsárvirkjunarinnar fer dagminnkandi. Héraðsbúar sitja í myrkri og kulda og eru rafmagnslausir meir en helming sólarhringsins.Horfir orðið til hreinna vandræða víða í héraðinu þar sem íbúarnir eru háðir rafmagnsnotkun að meira eða minna leyti og treysta á hana. Margir héraðsbúar, einkum þó í kauptúnunum Borgarnesi og Akranesi hafa ekki aðra upphitun heldur en rafmagnskyndingu eða þá olíukyndingu í sambandi við rafmagnsblásara, þannig að ef rafmagnið bilar verða þeir að sitja í kuldanum. Þegar sýnt var hvernig ástandið fer dagversnandi í rafmagnsmálunum þar efra kom gistihúsið í Borgarnesi sér upp mótorstöð til þess að geta haft ljós og hita þegar rafmagnið þraut frá Andakílsárvirkjuninni. Er ekki annað fyrirsjáanlegt en að ýmsir aðrir aðilar verði að taka upp sama ráð. Síðastliðinn sólarhring keyrði um þverbak hvað rafmagnsleysi snerti og var rafmagnið tekið af á tímabilinu kl. 1—5 í gær dag og síðan aftur kl. 9 í gærkveldi og þar til kl. 8.30 í morgun. Að undanförnu hefur rafmagnið oftast verið komið á kl. 6—6.30 á morgnana og orðið hlýtt í húsunum þegar fólkið kom á fætur þar sem rafmagnshitun er notuð.

Í janúar 1959 gengu þrálát frost og mjög þurrt var veðri - ávísun á veituvandræði.

Morgunblaðið segir frá þann 22.janúar 1959:

BORGARNESI, 21. jan. — Kauptúnið er nú vatnslaust. Er þetta í annað skiptið á s.l. fjórum árum, sem slíkt á sér stað hér í Borgarnesi. Vatnið í aðalæðinni er frosið. Eðlilega hefur þetta í för með sér margvíslega örðugleika, og er verið að gera ráðstafanir til þess að geta hleypt sjó á kerfið, svo að hægt verði að skola niður úr hreinlætistækjum á heimilum manna. Vatnsæðin liggur ofan úr Hafnarfjalli. Þar er vatnið tekið úr svonefndu Selseyrargili, sem er í 144 m hæð yfir sjó. Vatnsæðin liggur á botni fjarðarins og er vitað að frosið hefur í æðinni þar sem hún liggur út í sjóinn. Hér í Borgarnesi er 250 tonna vatnsmiðlunargeymir. Í dag var byrjað að dæla £ hann sjó með öflugri brunadælu. Er þetta gert til þess að firra stórvandræðum á heimilum. Hér í þorpinu eru vatnsfrek fyrirtæki, t.d. mjólkursamlagið og hraðfrystihúsið. Verður til þess gripið, að sækja vatn á stórum tankbílum, en til slíkra ráða var gripið, þegar hér var vatnslaust í langvarandi frostum fyrir 4 árum.

Og Vísir nokkrum dögum síðar:

Frá fréttaritara Vísis. Borgarnesi, í morgun. Borgnesingar bíða enn eftir að fá vatn úr vatnsleiðslu sinni, en unnið er af kappi að því að þíða í pípunum. Er því lokið handan fjarðarins, þar sem leiðslan liggur út í fjörðinn. Aðstaða er hinsvegar hin versta að þíða í leiðslunum í firðinum, en tæknilega er talið kleift að þíða úr þeim með rafmagni, sé unnt að komast að þeim á báti með þeim tækjum, er til þarf, en aðstaðan er erfið vegna strauma og mikils ísreks í firðinum. Hreppurinn sér um, að vatn sé sótt handa íbúum kauptúnsins, og hefir það verið sótt suður yfir fjörð í vatnsleiðsluna þar, en vegna slæmrar færðar í morgun var sótt vestur í Langá. Mjólkurbúið hefir mikinn og djúpan brunn, sem var grafinn upp og steyptur um leið og vatnsleiðslan var fullgerð til þess að hafa til vara, og lagðar leiðslur í hann úr stöðinni og tveimur húsum að auki. Mjólkurstöðin hefir haft nægilegt vatn úr brunninum til þess að geta haldið starfseminni áfram. Dælt hefir verið sjó í vatnsleiðslukerfið til þess að hafa rennsli í hreinlætisleiðslum, en sjórinn er vart til annarra nota, þar sem sjórinn í firðinum hér er mjög leirborinn.

Vatnsleysið stóð ekki eins lengi 1959 og það hafði gert 1955. Hlákan var meira afgerandi og reynsla bættist í sarpinn. Vísir segir frá föstudaginn 13.febrúar 1959:

Borgarnesi í morgun. Vatnsleiðsla Borgarnesinga, sem liggur ofan úr Hafnarfjalli og yfir Borgarfjörð þveran, komst loks í lag í byrjun þessarar viku eftir langa bilun. Í frostunum í janúarmánuði fraus í leiðslunum úti á leirunum i sunnanverðum firðinum, og varð Borgarnesþorp þá með öllu vatnslaust í nokkrar vikur. Í langvarandi hlákum að undanförnu losnaði um klakann í leiðslunum og þá kom jafnframt i í ljós að þær höfðu rifnað á nokkru svæði um 800 metra frá landi — þ. e. suðurbakka fjarðarins. Var kafari fenginn frá Vélsmiðjunni Hamri í Beykjavík til þess að annast viðgerðir á leiðslunum og síðastliðinn mánudag voru þær komnar í lag og Borgnesingar búnir að fá vatn að nýju.

Í gær var hvassviðri mikið í Borgarnesi og þá skeði sá atburður í einni vindkviðunni, að bíll, sem stóð uppi á hæð í þorpinu tókst á loft og hvolfdi. Urðu menn að grípa til þess ráðs að binda bílinn niður, þar sem hann var kominn unz lygndi.

w-blogg201121c

Að morgni 15.febrúar gerði óvenjumikið þrumuveður um landið vestanvert. Ritstjóra hungurdiska þótti afleitt að sofa það af sér - en vaknaði við haglélið á eftir því. Eldingu sló niður í Borgarneskirkju - en bygging hennar var þá á lokastigi. Nokkrum dögum síðar (þann 19. brann prestsetrið á Borg á Mýrum). 

Enn urðu vandræði í fjalli og firði árið eftir, snemma í mars 1960, en þá stóð vatnsleysið ekki lengi. 

Morgunblaðið segir frá þann 5.mars 1960:

BORGARNESI, 4. marz. — Vatnslaust varð hér í bænum í gær. Fóru starfsmenn frá hreppnum, þegar er vatnsskortsins varð vart, yfir fjörð til að athuga hvað ylli þessu, en vatnsból okkar er í Hafnarfjalli og liggur leiðslan yfir Borgarfjörðinn. Voru komnir miklir svellbunkar við lindirnar þar. Tókst að höggva rásir í klakann,með þeim árangri, að meira rennsli fékkst. Vonast menn til að vatnið haldi áfram að aukast, sérstaklega þar sem talsvert hefur snjóað í dag og hláka verið síðdegis. Sæmilegt vatnsmagn var yfirleitt í dag, nema í þeim húsum, sem hæst standa, en í þau hefur verið flutt vatn á bílum, bæði í gær og fyrripartinn í dag. Vatn mun vera farið að minnka víða á bæjum upp í héraðinu, vegna langvarandi frosta. Í morgun var hér mikil snjókoma og dimmt él. Komst Akraborg ekki inn, vegna þess að radar skipsins var bilaður. Færð er sæmileg og stóð ekki á mjólkurflutningum í morgun. — H. Jóh.

Veturinn 1959 til 1960 var almennt hagstæður. Slæmt hríðarveður gerði í nóvember og mikil flóð í óvenjulegum hlýindum snemma í febrúar. Þetta var austanáttavetur, rétt eins og 1955.

Fyrstu dagana í mars var nokkuð fjölbreytilegt veður. Við skulum líta á veðurkort sem birtist í Morgunblaðinu 4.mars - og texta með því. Páll Bergþórsson teiknaði kortið. Mikil eftirsjá var að þessum kortum - en þau urðu undir í samkeppni við sjónvarpið haustið 1967.

w-blogg201121d

Þessi krappa lægð fór norður um Austurland um nóttina og morguninn þann 3. Ekki varð teljandi tjón, en blöðin segja frá miklum hrakningum ferðafólks á Fjarðarheiði. Er mesta furða hvað vel slapp til.

w-blogg201121e

Kortið sýnir veðurskeyti kl.9 að morgni 3.mars 1960. Nánast heiðskírt var í Borgarfirði og á Suðurlandsundirlendinu. Hægur vindur um meginhluta landsins, en hið versta veður norðaustanlands með gaddfrosti. 

Árið eftir, 1961 var farið í aðgerðir í vatnsveitumálum, komið var upp aðstöðu til að hita vatnið lítillega. Önnur stífla var reist í Vestara- (Ytra-) Seleyrargili og leiðsla lögð frá henni. Þó vatnsveitan væri ekki alveg án vandræða eftir þetta varð aldrei um langvinnt vatnsleysi að ræða í Borgarnesi. Nokkrum árum síðar voru boraðar veituholur á Seleyri sjálfri - en ef of miklu var dælt varð vatnið fullsalt. Frekari umbætur komu enn síðar. Giljavatnið var lengi notað sem kælivatn á vélar í frystihúsinu þó hætt væri að nota það til neyslu. 

Vatnsveitan var stöðugt inni á heimili ritstjóra hungurdiska því faðir hans var á eilífðarvakt í að fylgjast með henni. Á hverju kvöldi var horft yfir til Seleyrar til að athuga hvort ekki væri örugglega ljós á dæluskúrnum. 

jkrg_hafnarfjall_1974-12-15

Rétt fyrir jól 1974 fórum við feðgar í eftirlitsferð upp að vestari stíflunni (þeirri sem byggð var 1961) - þar var allt í sóma. 

Í viðhenginu eru fáeinar blaðafréttir þar sem sagt er frá lagningu vatnsveitunnar. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 20. nóvember 2021

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040524c
  • w-blogg040524b
  • w-blogg040524a
  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 221
  • Sl. sólarhring: 310
  • Sl. viku: 1307
  • Frá upphafi: 2352266

Annað

  • Innlit í dag: 192
  • Innlit sl. viku: 1178
  • Gestir í dag: 185
  • IP-tölur í dag: 185

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband