Vestanáttarýrðin í háloftunum

Rétt að taka fram í upphafi að hér er um svokallaða nördafærslu að ræða - hinn almenni lesandi ekki líklegur til að hafa mikinn áhuga á textanum. 

Vestanáttarýrð hefur komið við sögu á hungurdiskum áður - vestanáttin sem ríkir í háloftunum yfir Íslandi hefur um langt skeið verið vægari en lengst af á tíma háloftaathugana (þær byrjuðu upp úr síðari heimsstyrjöld).

w-blogg181121a

Myndin sýnir tvenns konar mælingar á vestanáttinni. Annars vegar er fundinn munur á hæð 500 hPa-flatarins við 70°N og 60°N. Flöturinn er að jafnaði hærri sunnan við land heldur en fyrir norðan. Því meiri sem munurinn er því meiri er vestanáttin. Stöku daga getur hann snúist við og austanátt verður ríkjandi. Bláa línan sýnir 60-mánaða keðjumeðaltal þessa hæðarmunar - (vinstri kvarði á myndinni). Tölurnar fengnar úr endurgreiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar til 2010 - en síðan úr daglegum greiningum hennar. Við sjáum töluverðar sveiflur. 60 mánuðir eru fimm ár - samskonar ferill sem gerður er úr 12-mánaðameðaltölum er mun órólegri. 

Mikil umskipti urðu í kringum 1960 - þá lauk miklu vestanáttaskeiði sem staðið hafði í allmörg ár (frá 1953). Næsta hámark vestanáttarinnar kom á áttunda áratugnum - því lauk snögglega haustið 1976. Enn var (minna) hámark kringum 1983 og síðan verulegt hámark á árunum 1989 til 1993. Á þessari öld hefur hallað undan fæti hjá vestanáttinni - sérstaklega frá og með haustinu 2009. 

Nú er það svo að endurgreiningum er ekki alltaf að treysta - sérstaklega ekki fyrir tíma háloftaathugana. Í þessu tilviki er í gögnunum skipt milli greininga einmitt 2010 - þegar vestanáttin virðist detta niður. Til að sannfærast um að þessi skipti eru valda ekki alvarlegri villu í þessu tilviki er litið á vestanþátt vinds yfir Keflavíkurflugvelli - hann er í raun og veru mældur. Rauða línan sýnir 60-mánaða (5-ára) meðaltöl hans.

Í öllum aðalatriðum falla ferlarnir tveir - sá úr greiningu - og sá mældi - saman. Vestanáttin er í raun og veru í „sögulegu“ lámarki. Hvernig ástandið var fyrir 1950 geta endurgreiningar e.t.v. upplýst okkur um - en við látum ekki eftir okkur að sinni að líta á niðurstöður þeirra. 

Nánari athugun sýnir að meginástæða þessarar þróunar er sú að meira hefur hlýnað norðan við land heldur en sunnan við. Spurningin er auðvitað sú hvort þetta sé eitthvað viðvarandi - eða tilviljanakennt. Eins og sjá má á myndinni hafa báðir ferlarnir verið á uppleið síðustu tvö árin. Kannski heldur það ris áfram - og ekki ólíklegt. Síðastliðið sumar var vestanáttin  alla vega „heilbrigðari“ heldur en margir íbúar Suðvesturlands voru ánægðir með. Dragi úr hlýnun fyrir norðan land - en aukist hún sunnan við bætir aftur í vestanáttina - sömuleiðis ef meira kólnar norður undan heldur en fyrir sunnan. Þó langtímareikningar líkana bendi eindregið til þess að meira hlýni fyrir norðan heldur en fyrir sunnan land er ekki víst að einstakir áratugir fylgi slíku mynstri - misvægi getur vel orðið í hlýnun - og staðbundin kólnun getur einnig átt sér stað þótt það hlýni á heimsvísu. 

Við skulum í leiðinni líta á aðra mynd. Hún sýnir einnig 60-mánaða keðjumeðaltöl.

w-blogg181121b

Rauði ferillinn sýnir meðalhita í byggðum landsins (kvarði til hægri). Hlýtt var um 1960, síðan kólnaði mikið (hafísárin). Eftir ívið hlýrri ár frá 1972 kólnaði aftur 1979 og á landsvísu varð álíka kalt og hafði verið á hafísárunum. Þriðja kuldakastið, minna þó kom síðan í kringum 1995. Eftir það hlýnaði verulega - en frá því um miðjan fyrsta áratug þessarar aldar hefur hiti ekki teljandi hækkað.

Bláa línan sýnir þykktina yfir landinu - hún mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Við sjáum að ferlarnir tveir fylgja svipuðum vendingum. Þó má greina mun. Kuldi hafísáranna var meiri á landinu sjálfu heldur en í veðrahvolfinu yfir því. Þannig eru áhrif hafíssins - hann eykur á stöðugleika loftsins - hiti fellur ekki jafnmikið með hæð og annars er. Svo stutt er frá hafísnum til lands að sjórinn nær ekki að fullblanda loftið þegar það streymir yfir hann. 

Kuldakastið um og upp úr 1980 var annars eðlis. Sá kuldi var vestrænn - þá var líka sérlega kalt á Vestur-Grænlandi - leið þessa vestanlofts var hins vegar nægilega löng til þess að varmi sjávar sá til þess rækilega var hrært í. Hiti féll hratt með hæð - betra samhengi þá milli þykktar og hita á landinu. 

Ritstjóra hungurdiska er minnisstætt að þegar farið var að tala af alvöru um yfirvofandi hnattræna hlýnun upp úr 1980 velti hann fyrir sér hvernig þeirrar hlýnunar myndi gæta hér á landi. Um það var talað - einkum þó í kringum 1990 að hlýnunin hér myndi tefjast vegna áhrifa sjávar. Ritstjórinn reiknaði í alvöru með því að sjórinn myndi valda því að stöðugleiki ykist aftur - og við fengjum aftur ámóta misgengi milli þykktar og hita og var á hafísárunum - þrátt fyrir vestanáttir (sem voru mjög sterkar á þessum árum - og sumir sögðu tengjast hinni hnattrænu hlýnun). 

Hlýnunin upp úr aldamótum kom því mjög á óvart. Hún var mun meiri en nokkur hafði búist við. Þykktin jókst (rétt eins og sjá má á bláa ferlinum) - en hitinn hækkaði í réttu hlutfalli. Þetta var vegna þess að sjórinn hlýnaði meira (frá 1997 minnir ritstjórann) en nokkrum hafði dottið í hug að gerast myndi. Hin mikla hræra hélt því áfram. 

Svo virðist sem þykktin hafi á allrasíðustu árum tekið enn eitt skref upp á við - umfram hitann. Hvort þetta er eitthvað til að taka mark á vitum við auðvitað ekki enn. Við vitum ekki hvort nú loksins sé komið að því að hitinn sitji á eftir þykktaraukningunni - eins og ritstjórinn bjóst við á árunum í kringum 1990. 

Viðbúið er að náttúrunni takist enn að koma á óvart - hvernig vitum við ekki. Þó ekkert vit sé í því að taka mark á leitnitölunum sem einhvers konar spá er þó rétt að bera þær saman. Hitaleitnin samsvarar 1,4 stigum á öld frá 1950, þykktarleitnin er um 40 metrar á öld. Seinni talan segir okkur að hitaleitni í neðri hluta veðrahvolfs sé um 2 stig á öld. Kannski er stöðugleiki þrátt fyrir allt að aukast? 


Bloggfærslur 18. nóvember 2021

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040524c
  • w-blogg040524b
  • w-blogg040524a
  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 83
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 1169
  • Frá upphafi: 2352128

Annað

  • Innlit í dag: 76
  • Innlit sl. viku: 1062
  • Gestir í dag: 75
  • IP-tölur í dag: 75

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband