Spurning (eiginlega upprunnin í Svíþjóð)

Blogg sænsku veðurstofunnar vakti athygli á því á dögunum að lægsti lágmarkshiti júlímánaðar í Svíþjóð allri hefði verið lægri en lægsta lágmark júnímánaðar. Spurt var hversu oft þetta hefði gerst (það var sjaldan). Sömuleiðis var sjaldgæft að júlílágmarkið væri lægra en það í ágúst - og aldrei hafði það átt sér stað í Svíþjóð að júlílágmarkið hefði verið lægra en bæði júní- og ágústlágmark sama árs.

Þetta vakti forvitni ritstjóra hungurdiska. Eitthvað hefur hann gefið þessu gaum áður - en man ekki hvar eða hvenær. En júnílágmarkið í ár var alla vega lægra en júlílágmarkið hér á landi - þannig að 2020 er ekki á listanum - eins og í Svíþjóð.

Athugunin nær aftur til 1874 - og aðeins er leitað að lágmarkshita á byggðarstöðvum. Ekki að slíkt skipti svo miklu máli í þessu tilviki - nema að á árum áður var í allmörgum tilvikum athugað á hálendinu á sumrin - þá ekki í júní, heldur aðeins júlí og ágúst. Einfaldast er því að sleppa hálendinu alveg. 

Frá 1874 hefur það gerst 10 sinnum að júlílandslágmarkið hefur verið lægra en það í júní. Síðast gerðist það árið 2007, og á þessari öld líka 2003. 

Það er aðeins oftar að júlílágmarkið hefur verið lægra en ágústlágmarkið (kom ritstjóranum kannski dálítið á óvart). Hefur gerst 22 sinnum (við vitum ekki enn hvað gerist 2020). síðast 2006 og 2004. 

Eins og fram kom að ofan heftur það ekki gerst í Svíþjóð að júlílágmarkið hefur verið lægra heldur en bæði júní- og ágústlágmarkið sama ár. Hér á landi vitum við hins vegar um tvö tilvik, 1944 og 1986. 

Sem aukaafurð fannst að það er aðeins eitt sumar (júní, júlí og ágúst) sem hefur verið alveg frostlaust á íslenskum veðurstöðvum (í byggð). Það var 1880. Lægsti hiti þá mældist 0,2 stig. Nær öruggt er að þetta sumar hefði ekki sloppið við frost hefði verið mælt víðar en gert var - þessi árangur er því ómark. 


Hálfur ágúst

Hálfur ágúst. Meðalhiti fyrstu 15 daga ágústmánaðar er +11,1 stig. -0,5 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020 og meðaltals sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn er í 15.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Þessir dagar voru hlýjastir árið 2004, meðalhiti þá +14,0 stig. Kaldastir voru þeir 2013, meðalhiti 10,4 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 68. til 71.sæti (af 146). Hlýjast var 2004, en kaldast 1912, meðalhiti þá aðeins 7,4 stig.

Á Akureyri er meðalhiti dagana fimmtán 13,5 stig, 2,2 stigum ofan meðallags 1991 til 2020, og +2,6 stig ofan meðallags síðustu tíu ára - samt vantar meir en 1 stig upp á met.

Á landsvísu hefur hitanum verið mjög misskipt. Að tiltölu hefur verið kaldast við Breiðafjörð, þar er meðalhitinn í 16.hlýjasta sæti á öldinni, en hlýjast hefur verið á Austurlandi að Glettingi og á Austfjörðum, hiti þar í fjórðahlýajsta sæti aldarinnar.

Á einstökum veðurstöðvum hefur verið að tiltölu hlýjast á Skjaldþingsstöðum, +3,7 stig ofan meðallags síðustu tíu ára. Kaldast að tiltölu hefur verið á Garðskagavita, -1,4 stig neðan meðallags.

Mjög úrkomusamt hefur verið um landið sunnan- og vestanvert. Í Reykjavík hafa 75,1 mm komið í mælinn, meir en tvöföld meðalúrkoma sömu daga og það langmesta á öldinni, en talsvert vantar þó upp á met [109,6 mm, 1984]. Á Akureyri hafa mælst 28 mm, hátt í tvöfalt meðaltal. Allvíða vestan- og norðvestanlands hefur ekki mælst meiri úrkoma þessa daga áður.

Sólskinsstundir eru fáar í Reykjavík, 33,1 - hafa aðeins 7 sinnum mælst færri sömu daga síðustu 100 árin rúm, síðast 1995.


Bloggfærslur 16. ágúst 2020

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 7
  • Sl. sólarhring: 102
  • Sl. viku: 1832
  • Frá upphafi: 2353132

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 1652
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband