Skemmtideild evrópureiknimiðstöðarinnar með nýtt atriði

Vikulangar spár (og þaðan af lengri) eru oftast vitlausar og það fer í taugarnar á mörgum að þær skuli yfirleitt vera til umræðu á netinu. Jú, óheppilegt er að flíka slíku - en stundum má samt nota þær til að skemmta sér. Hér á hungurdiskum tölum við um sýningar skemmtideildarinnar í þessu samhengi. Allar reiknimiðstöðvar eiga sínar skemmtideildir. 

Atriði dagsins er tengt kuldapolli í norðurhöfum - kannski sameiginlegum dansi þeirra félaga Stóra-Bola og Síberíu-Blesa. 

w-blogg070320b

Hér er klippa úr norðurhvelsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á miðnætti næstkomandi föstudagskvöld, 13.mars - eftir 7 daga. Ísland er neðst á myndinni, en norðurskaut rétt ofan við myndarmiðju. Heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins. Lægðin sem örin bendir á er fádæmaöflug - (en ekki til enn nema í iðrum tölvunnar). Miðjuhæðin er 4550 metrar - alveg við met (alla vega síðustu 40 árin rúm). 

Rétt að taka fram að bandaríska veðurstofan er öllu hógværari - er þó með sömu lægð en lægst fer 500 hPa-flöturinn í 4610 metra. Það er sérlega lágt líka - en ekki alveg jafn krassandi. 

Við sjáum vel á myndinni að meginkuldinn (fjólubláu litirnir) hringa sig ekki utan um háloftalægðina - heldur liggja til hliðar við hana. Það þýðir að þetta er ekki stöðugt ástand - þarna er líka óvenjuöflug lægð við sjávarmál - sjálfsagt nærri lágþrýstimeti marsmánaðar yfir Norðuríshafi. 

Þó kalt veður verði ríkjandi næstu daga hér á landi (sé að marka spár) er samt vonandi að þessi ruðningur í norðurhöfum (hver sem hann verður) láti okkur alveg í friði - við megum varla við slíkum ofsóknum til viðbótar á erfiðum vetri. 


Falleg vetrarmynd

Myndin hér að neðan er ættuð af vef Veðurstofunnar - og tekin í dag (fimmtudag 5.mars 2020) kl. 13:50.

w-blogg050320a

Landið alhvítt að kalla. Óregluleg klakkakerfi fyrir sunnan land og austan - gamalt skilasvæði að trosna fyrir norðan - og teygir sig inn á land, - fáein korn náðu meira að segja til höfuðborgarsvæðisins undir kvöld. Éljagörðum úti af Vestfjörðum er haldið í skefjum af hitahvörfum - líkön tala um að þau séu í um 1500 metra hæð. Bjart að mestu yfir kalda sjónum - en hafísröndin við Grænland ósköp aumingjaleg. 


Bloggfærslur 6. mars 2020

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg130925-ak-a
  • w-blogg130925a
  • w-blogg130925b
  • Slide8
  • Slide7

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.9.): 454
  • Sl. sólarhring: 464
  • Sl. viku: 1929
  • Frá upphafi: 2498449

Annað

  • Innlit í dag: 407
  • Innlit sl. viku: 1743
  • Gestir í dag: 390
  • IP-tölur í dag: 383

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband