Af árinu 1858

Árið 1858 þótti heldur óhagstætt, sérstaklega vorið og hluti haustsins. Sumarið var votviðrasamt og erfitt nyrðra, sennilega skárra syðra. Fjárkláðinn var erfiður. Ársmeðalhiti var þó ekki langt frá langtímameðaltölum, 3,3 stig í Stykkishólmi, nákvæmlega í meðallagi næstu tíu ára á undan. Mælt var í Reykjavík allt árið og meðalhiti þar 4,6 stig. Áætlaður meðalhiti á Akureyri er 2,3 stig. Fremur hlýtt var í febrúar og nóvember, hiti nærri meðallagi í janúar, ágúst og desember, en kalt í öðrum mánuðum, maí kaldastur að tiltölu. Þá gerði afarslæmt hret sem náði hámarki um og eftir miðjan mánuð. Varla er hægt að trúa hitamælingum frá Ofanleiti í Vestmannaeyjum þennan mánuð, en þær segja frost hafa verið þar í morgunsárið dag eftir dag á þessum tíma - en mikið var kveinað undan þessu hreti á öllu landinu, sagt hið versta á þessum tíma í áratugi. 

ar_1858t

Í Stykkishólmi voru mjög kaldir dagar 14 (sjá viðhengi), 21.maí kaldastur að tiltölu.

Úrkoma í Stykkishólmi mældist 810 mm, vel ofan meðallags. Mjög úrkomusamt var í janúar og ágúst, en þurrt í nóvember. 

ar_1858p 

Loftþrýstingur var sérlega lágur í september og desember, en fremur hár í nóvember og mars. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi 9.janúar, 948,9 hPa, en hæstur á sama stað 17.október, 1034,4 hPa. Þrýstifar var órólegt í október - en aftur á móti rólegt í nóvember.

Fjárskaðahríðin mikla í október (sjá nánar í pistlum hér að neðan) virðist vera minnisstæðasti veðurviðburður ársins. Mikil hláka kom í kjölfarið og fylgdu henni skriðuföll nyrðra.

Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar.   

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Þíðviðri og milt veður hélst til þrettánda. Þá gjörði storku og hagleysi fyrir fé. Gengu svo köföld og smáblotar til þorra. Um Pálsmessu hláka góð, en 5 daga fyrir kyndilmessu harka mikil, svo mildara, en 4. febr. hríð ytra og enn kafaldasamt í miðþorra 9. febr. Aftur þítt og góðviðri stöðugt til miðgóu, 6.-9 mars norðanhríð allmikil og harðviðri; eftir það fjúkasamt með hægu frosti og aftur viku fyrir páska hríð og harka á eftir.

Norðri segir 31.janúar

Lítið frést með þeim fáu sem komið hafa og fréttirnar þær sem eru heldur bágar, nema hvað tíðarfarið snertir, sem hefur víðast hvar á landi verið hið æskilegasta það sem af er vetri, þó höfum vér fréttir að hart og illviðrasamt hefur verið úti í Siglufirði og þeim héruðum, er þar næst liggja, enda er þar vetrarríki mikið venjulega.

Þjóðólfur segir 27.mars:

Næstliðna Kyndilmessu (2.febrúar) fórst hákarlaskip vestur í Bolungarvík með 6 mönnum og týndust þeir allir. [Þann 14.mars] varð úti í Borgarfirði, i leið frá Reykholtsdal að heimili sínu Stafholtsey, maður á besta aldri, Jón Sveinsson að nafni. Hafís. Í bréfi úr Húnavatnssýslu, 16.[mars] segir: „Hafísinn er farinn að nálgast".

Í viðaukablaði Þjóðólfs 22.maí er dálítil grein um loftvogir og mikilvægi þeirra eftir Jón Hjaltalín (við sleppum auglýsingunni í lokin). Höfundur tekur nokkuð stórt upp í sig:

Um Loftþyngdarmæli eða veðurvita, til að sjá fyrir veður og til að varna slysförum í sjóferðum. Þegar mannskaðar verða í veiðistöðum hér á landi, þá kemur það oftast af því, að menn eigi hafa getað séð fyrir háskaleg og voveifleg veður, er oft detta á upp úr logni eða hægveðursmollum og þoku. Slík veður má oftast eða nærfellt alltént sjá fyrir á loftþyngdarmælinum, ef menn þekkja reglurnar fyrir brúkun hans, en þær eru eigi örðugri en svo, að hver eftirtektasamur og greindur maður hæglega gæti numið þær, og þarf eigi meira en stutta æfingu til að komast niður í þeim. Ég þykist sannfærður um, að það væri hin þarfasta eign fyrir hverja veiðistöðu, að eiga sér loftþyngdarmæli með uppskrifuðum eða prentuðum reglum fyrir brúkun hans, og með því hann er þarflegur öllum formönnum, þá finnst mér, að formennirnir í hverri veiðistöðu ætti að skjóta saman, til að kaupa sér þetta þarflega verkfæri, og koma sér svo saman um, að hafa það á einhverjum þeim stað, þar allir gæti haft gagn af því. Ég þykist sannfærður um, að kostnaðurinn fyrir hverja veiðistöðu yrði sáralítill, jafnvel þó menn í hverri veiðistöðu hefði eina tvo slíka loftþyngdarmælira, þar nú má fá þá góða og áreiðanlega í Kaupmannahöfn, fyrir 8 eða 10 rdl. Hver sá, sem vanur er loftþyngdarmælinum, getur af honum séð, hvernig breytingin verði á veðrinu, einkum hvað storma og hægviðri snertir, og mætti þetta oft verða að miklu gagni fyrir sjómenn, sem með þessum hætti oft geta séð stórviðri fyrir, löngu áður þau á detta, og þar að auki fengið hugmynd um hvað lengi óveðrið mundi vara. ... Reykjavík, 22. febrúar 1858. Jón Hjaltalín.

Séra Þorleifur í Hvammi segir í lok mars: „Hér hafa verið, einstakir veðurblíðudagar með köflum, svo heimilisnjóli var hér í einstöku stað farinn að votta sig til útsprungu, snjóar og svell að kalla þrotnir í byggðinni, en í endirinn á þessum mánuði sést breytingin“. og í lok apríl: „Í þessum mánuði voru öll svell leyst og skaflar hér heima, en allt aftur svellrunnið í enda þessa mánaðar“.

Brandsstaðaannáll [vor]:

Eftir páska, 4. apríl, stillt og gott vorveður og auð jörð, því aldrei gjörði fannir miklar og hross höfðu sífellt snöp til sveita, en ei til heiða og hálsa. Á sumarmálum var grænkað í hlaðvarpa. 27. apríl skipti um með snjógangi og frostum, þó aftur þíðviðri 6.-12. maí, en gróður sást þó ei utan lítið móti sólu í halllendi. Þaðan fram yfir hvítasunnu [23.maí] stöðug harka og landnorðanstormur, þó lengst auð jörð.

Norðri segir frá 31.maí. Athyglisverð er spurningin í lokin. Hún bendir til þess að höfundi hafi ekki þótt nýliðnir vetur harðir.

Af hákarlaveiðunum hér við Eyjafjörð höfum vér þær fréttir, að þær ganga í ár allmisjafnt, en þó flestum allvel. Hefur einkum gæftaleysi og ís tálmað veiðinni en oftast verið nógur hákarl fyrir þegar gefið hefir til að liggja Þó að veturinn hafi hér um Norðurland verið ágæta góður, þá hafa þó kuldarnir og hretin í vor orðið mönnum svo heyfrek, að fjöldi manna er hér heylaus, enda er það mjög haft á orði, að heyin þau í fyrra hafi reynst mjög létt og ódrjúg til gjafa. Hvernig mundi oss ganga Íslendingum, ef vér fengjum mjög harðan vetur?

Þjóðólfur segir 5.júní:

Allstaðar að fréttast þungar afleiðingar þessa einstaklega kalda og gróðurlausa vors; og vart mun jafn illt vor hafa gengið hér yfir land síðan 1835; fjárhöld víða ill bæði sunnan- og norðanlands, en betri fyrir vestan, og fellir nokkur sumstaðar, einkum á gemlingum, kveður talsvert að því í sumum sveitum i Skaftafells-, Mýra- og Rangárvallasýslu; hrossafellir talsverður í Rangárvallasýslu í þeim sveitunum sem votlendar eru, en ekki þar sem þurrlent er, t.d. á Landinu og Rangárvöllum. Víða hafa þrotið hey handa kúm í téðum sýslum, einnig í Flóanum, þar sem þó sauðféð var fellt að mestu í haust, og þær víða orðnar nytlausar og skemmdar.

Á Hvanneyri við Siglufjörð er getið um hafís: 8.mars: Rak inn hafísjaka fáeina. 10. mars: Mikill hafís úti fyrir. 2. apríl: Fullt af hafís. 31.maí: Hafís úti fyrir allan þennan og næstliðinn mánuð.

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Eftir hátíð 26. maí batnaði veður, en þó var kalsasamt fram yfir fardaga, en úr því góð tíð og gróður, nokkuð útsynningasamt. Nægur gróður á fráfærum, sem voru 27. júní. Aldrei stórrignt nema 18. júní. Gott og nokkuð skúrasamt um lestatíma. Varð mikill grasvöxtur. Sláttur byrjaði í miðjum júlí. Þann 17. var þerrir góður, en úr því þokur og votviðri, þó flæsa nokkur 22.-24. júlí, svo þurrka mátti að mestu það til var, en síðan stöðug votviðri, þó ei stórrigning utan 5. ágúst, en aldrei regnlaus dagur og án sudda til 13. ágúst. Var þá óvíða taða innkomin og hjá flestum ónýting orðin meiri og minni. Kom þá viku þurrviðri og nægur þerrir að hirða það laust var orðið. Aftur kom rigningarkafli 19.-27. ágúst og ennþá vikutíma að mestu þurrt og flæsudagar hér til dalanna. Þriðji rigningakaflinn byrjaði 5. sept. Þann 13. rigndi ákaflega, svo mjög flóði um jörð. 16.-20. sept. flæsudagar, svo nokkrir hirtu hey, en göngurnar tálmuðu flestum austan Blöndu. Gengu nú enn rigningar 21. sept, og 27. fannkoma, er að nokkru tók upp neðra og í lágsveitum, svo 29. hirtu festir hey sín, en hjá öllum á hálendi og til afdala varð hey úti meira og minna. Töðufall varð í mesta máta, en almennt skemmdist hún mjög frá mjólkurgæðum. Heyskapur á þurrlendi varð mikill, því gras spratt fram í miðjan ágúst, en fáir fengu óskemmt hey, en mörgum vannst illa að verki, varð mjög tafsamt og almennt urðu miklar slægjur eftir. ...

Þann 4.júlí segir athugunarmaður á Hvanneyri í Siglufirði að gengið hafi í snjóhríð með kvöldinu. 

Norðri segir þann 31.júlí:

Síðan að batna tóku vorharðindin var tíðarfarið lengi hér hið æskilegasta, svo að grasvöxtur á túnum var hér norðanlands víðast hvar orðinn í góðu meðallagi frá sláttarbyrjun. En þurrkar hafa enn ekki verið góðir á töðum manna, því nú í seinni hluta júlímánaðar hafa suma daga verið miklar rigningar með kulda og snjó ofan í mið fjöll. Hákarlaaflinn hefur hér verið góður að öllu samtöldu, en misjafnt hefur hann gefist eins og að undanförnu. Fiskiafli hefur verið nokkur hér út á Eyjafirði, en þó með minna móti, en hér inni einlægt mjög lítið um afla. Hvalreka höfum vér enga frétt þó að vorið væri svo ísamikið nema ef telja skyldi tvítugan hval sem rak á Langanesströndum.

Norðri segir 15.september:

Heyskapartíðin hefur verið hin örðugasta allstaðar þar sem vér höfum til spurt sökum rigninga og óstöðugleika á þurrki, svo að töður allar hafa víða ekki náðst inn fyrr en seinast í ágústmánuði, og allvíða mjög skemmdar.

Þjóðólfur segir af fjárkaupaferðum sunnanmanna í pistli þann 11.október:

Hreppamönnum og Skeiðamönnum, er fóru norður yfir fjöll til fjárkaupa, eins og fyrr er getið, gekk ferðin vel og greiðlega. og náðu aftur heimabyggðum með féð áður en hann skall á með þetta mikla gaddíhlaup er nú er búið að standa á aðra viku, með kafaldsbyljum á fjöllum.

Í Þjóðólfi 29.mars 1859 má lesa skýrslu um fjárkaup Skeiðamanna í Skagafirði 1858. Þar segir m.a.:

Þann 25. september lögðum við af stað heimleiðis úr Skagafirði; en þó þá væri kominn talsverð ófærð af snjó þar fremst í byggðinni og við alla leið á fjöllunum fengum frost og snjógang, gekk okkur þó svo vel, að við þann 30.s.m. náðum til byggða í Árnessýslu.

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

Til allra útkjálka varð hey skemmt og ónýtt allmikið. Líka varð það undir snjó, því 30. sept. kom vikuhríð með ofsaveðri lengst og stórfenni ásamt hörku, svo haglítið varð og lömb tekin á gjöf, en lítið varð af því til framdala, því daglega var beitt fé og krafsjörð var góð. Haustverk stönsuðu og kýr alteknar inn 27. sept. Sjórinn varaði, utan í vestursýslunni, hvar hann lítill kom, þar til 18. okt., að smáþiðnaði með suðvestanátt, en blautlent þótti þá yfir jörð að fara. Ekki tók upp til heiða og liðu hross víða hungur og sjálfheldu, því ófærur voru kvikar undir fönninni. Góðviðrið varaði viku, en 24. okt. kom enn hríðarkast. 29.-31. hláka mikil og féllu víða skriður. Þiðnaði þá að mestu jörð og snjór af fjöllum. Þó varð gaddur og svellalög eftir á lágheiðum. Í nóvember stillt og frostalítið, oftar þurrviðri. Með desember fjúkasamt, en frostlítið. 8. des. kom aftur góðviðri stöðugt og smáþíður. 20.-23. des. landnorðan mjög hvasst og hríð ytra, en frostlítið, svo um jólin gott veður og auð jörð.

Norðri segir af illri tíð þann 31.október:

Bágt var vorið hið næstliðna, og bág var heyskapartíðin, en þó tók út yfir, þegar hausta tók. Í enda septembermánaðar tók veðri hér um svæði að bregða; komu þá um mánaðamótin fjarskamiklar hríðar og fannfergjur, og urðu víða stórskaðar á sauðfénaði manna, því hinar seinni göngur voru ekki afstaðnar þegar ótíðin byrjaði, og flest fé laust eins og vant er að vera um þann tíma árs. Víða fennti fé, einkum um Þingeyjarsýslu t.a m. í Höfðahverfi og Bárðardal og við Mývatn, en þó urðu þessir fjárskaðar hvergi eins stórkostlegir og í Múlasýslum, enda voru veðrin hvergi eins grimm og þar eftir því sem sem vér höfum til spurt. Þegar póstur fór af stað að austan varð hann samferða þeim er ráku úrtíningsfé frá Héraði upp úr Reyðarfirði, Gjörði þá snjóhríðina svo grimma og ófærð svo mikla, að rekstrarmenn máttu ganga þar frá 15 hestum og 500 fjár og komust með illan leik aftur til byggða. Hefur það fé að líkindum allt tapast, og sumir hestarnir voru dauðir, þegar seinustu fréttir bárust, en nokkrum varð náð. Mikinn fjölda fjár hefur og fennt víða þar á uppsveitum. Í Fjörðum eystra var og hin mesta óáran; þau litlu hey er náðst höfðu, voru svo mygluð og hrakin, að engu voru nýt, og víða var enn hey úti undir snjó. Sumstaðar brunnu töður, sem rífa varð inn hálfþurrar, til stórskemmda. ótíðin í haust bannaði mönnum og allvíða að fækka fé sínu með því að láta það í kaupstað, því enginn gat komist yfir jörðina sökum ófærðar og illviðra, og sumir Bárðdælingar, sem komnir voru með skurðarfé inn í Fnjóskadal og ætluðu hingað í sláturtíðinni, urðu að skera það niður þar í dalnum, því þeir komust hvorki fram né aftur með það. Eftir miðju þessa mánaðar tók veðráttan smátt og smátt að breytast til batnaðar, og nú um mánaðamótin komu asahlákur og hvass og hlýr sunnanþeyr. Tók hér upp mestallan snjó í byggð en fjarskalegur vöxtur hljóp í ár og læki, og urðu víða mikil skriðuföll, eins og mest verður á vordag. Hér á Brekku í Kaupangssveit hljóp skriða á tún, og tók þar hús, sem fimmtán lömb voru í, og heyið allt með, og gjörði þar að auki stórskemmdir á túni og engjum.

Þann 20.febrúar 1859 segir Norðri nánar frá hausthretinu eystra:

Haustáfellið 1858 eins og það var víðast í Fljótsdalshéraði og norðurfjörðunum. Mánudaginn [27.september] næstan fyrir Mikaelsmessu gjörði á hafaustan bleytusnjóveður og kom æði lausafönn á fjöll. Næsta dag var bjartviðri en heiðríkjan mjög hvít eða gulleit. Á Mikaelsmessu [29.september] var nöpur kuldagola á hafaustan. En nóttina eftir brast á hið mesta fárviðri, með bleytusnjáfalli og svo miklu hvassviðri á norðaustan, að menn muna hér varla jafnhvasst veður af þeirri átt. Hélst þetta veður og dró sjaldan úr 6 daga, og var aldrei fært á fjöllum og oftast illfært bæja á milli. Sjöunda daginn var hið versta dimmviðri á norðan með þvílíkri veðurhæð og snjókonu að slíkt kemur sjaldan á vetri. Eftir þetta vægði veðrunum og voru þó oftast vond alla næstu viku.

Það var tvennt í þessu áfelli sem gjörði það mikilfenglegra en önnur, er menn muna hér svo snemma á hausti, veðurhæðin og hversu það var langvinnt og hvíldarlaust. Sjávargangur varð meiri í þessum veðrum en menn muna áður, þar sem stormur stóð á land; og svo mikil fannfergja kom á fjöllin, að sjaldan hefur sést meira eftir meðalvetur, en í byggðum skelfdi af öllu og þykkur snjór víðast á sléttu. Allar skepnur voru teknar í hús, hestar og sauðfé í sumum sveitum það sem bjargað varð. Þó gjörði eigi jarðbönn nema sumstaðar; því framan af veðrunum var krapaveður svo lamdi af þúfum á láglendi, einkum nærri sjó þar sem veður stóð af hafi. En þegar frysti, reif af hæðum þar sem eigi var brætt yfir.

Í þessu grimma áfelli urðu stórkostlegir fjárskaðar í sumum sveitum og allstaðar nokkrir. Var sumt féð eftir í fjöllunum, því óvíða var búið að ganga nema eina göngu og víða með óreglu, en flest fennti þó í byggð. Hefi ég sannfrétt af skýrslum merkra manna, að í sumum sveitum fórust frá 5—900 fjár, t.a.m. í Eiðaþinghá hér um bil 500, í Vallahrepp 750, í Fellum 900. Og annarstaðar vantaði og fennti frá 2 hundruðum til 500. Sumir bændur misstu yfir 100 fjár og sumstaðar fennti hesta til dauðs. Þegar áfellið dundi á, áttu sumir úti heyleifar, því oft hafði verið bágt með þurrka áður, margir áttu ókastað ofan á seinustu hey og ógjört utan að sumum, en fjárhús lágu niðri óbyggð, og gat enginn starfað neitt að mannvirkjum sínum fyrr en batinn kom eftir veturnætur. Fáir voru farnir í kaupstað, þegar veðrin byrjuðu, og sluppu fæstir heim undan þeim. Hinir, sem veðrin duttu á, urðu að sitja í kaupstöðum eða kringum þá nærri hálfan mánuð eða lengur; því engum var fært á fjöll. Á Seyðisfirði tepptust 30 kaupstaðarmanna með 109 hesta nærri hálfan mánuð, og brutust seinast með hestana berbakaða yfir fjallið og mátti þó heita ófært. Varð síðan aldrei komið hesti í kaupstað fyrr en hjarnaði eftir veturnætur og ónýttist mestöll haustverslun, en búendur stóðu margir í voða af kornmatarleysi.

Fyrir þessa miklu fjárskaða og vandræðin að koma nokkurri kind eða vöru í kaupstað, en skuldir almennt heimtaðar, varð enginn kostur að safna töluverðri hjálp handa Húnvetningum þetta sinn [væntanlega vegna fjárkláðans þar] þó að búendur hefðu besta vilja, gátu þeir engan veginn látið af hendi rakna nema lítið, ellegar ekkert. Skrifað á Austurlandi 20. desember 1858. S.G. [Líklega Sigurður Gunnarsson á Hallormsstað].

Neðanmáls segir SG: Annað óvanalega mikið áfelli kom hér í vor eð var. Það byrjaði nóttina eftir uppstigningardag [13.maí] og hélst fram yfir hvítasunnu [23.maí] með mikilli snjókomu, ísingaraustri og hafstormum, svo hestar og gamlir sauðir urðu jafnan að vera í húsum. Svarf þetta áfelli mjög að öllum skepnum. En það lagðist undarlega misjafnt í, varð lítið inn til dala, nema harðviðri, og snjórinn líka minni út við sjóinn, því þar át heldur af.

Norðri segir 24.desember frá miklum skriðuhlaupum í Kolbeinsdal í Skagafirði:

Það var að morgni hins 31. október 1858, sem var annar sunnudagur í vetri — þá miklu asahlákuna gjörði hér, sem fyrst vann þar á snjókyngjuna, er hlóð niður í byrjun mánaðarins, að bóndinn Jóhann Hallsson á Skriðulandi í Kolbeinsdal kom út, ný staðinn af rekkju; sá hann þá fyrst, að stór skriða tók sig upp í fjallinu langt fyrir norðan bæinn og stefndi á nokkur hross hans; hörfuðu þá sum þeirra undan, en tvö stóðu kyrr, og klauf skriðan sig þar, svo þau sakaði ekki; hljóp hann þegar á stað og hlaut að vaða yfir forarflóa, þar grundirnar sökum skriðuhlaupanna, voru orðnar ófærar, náði hann þessum tveimur hrossum, og að vörmu spori fylltist eyðan, þar sem þau staðið höfðu; reið hann þegar heimleiðis með hin tömdu, en þá féll stór skriða norðan til á túnið. Þegar heim kom, rak hann ærnar út úr fjárhúsunum suður á vallarhornið neðsta, sem varðist um daginn skriðunum. Í sama bili tók sig upp afarmikil skriða sunnan bæjarins, stefndi hún nálægt þremur hrossum sem þar voru; flýtti hann sér þangað og rak hrossin frá; en í sama vetfangi náði rennslið úr skriðunni hælunum á fararskjóta hans; sneri hann þá aftur til bæjarins; hljóp þá fram skriða, sem stefndi á sjálfan bæinn, voru þá börnin og fólkið klætt, og komið út úr bænum suður fyrir hlaðið; færði hann það allt í fjárhús suður og niður á vallargarðinn. Þessi skriða tók helftina af ærhúsaheyinu, skyldi eftir tvö stór björg í tóftinni og hið þriðja í tóftardyrunum, og hratt heyinu sem eftir var ásamt veggnum fram á húsin. Sama skriðan klauf sig um fjósið, sleit upp tvær hurðir og hálffyllti það með aur og leðju, svo með öllu var óaðgengilegt, að ná þaðan nautgripunum. Bóndinn hafði nú snúið inn í bæinn, að ná mjólk handa börnum sínum, því enginn hafði nokkurs neytt; en þegar hann var á leiðinni aftur til hússins, sem fólkið var flúið í, sá hann hvar einhver hin stærsta skriðan tók sig upp í fjallinu, og stefndi á það húsið og fleiri hús er stóðu á túninu; kallaði hann þá, að menn skyldu forða sér lengra suður á grundina, er þó ekki hefði komið að haldi, ef skriðan hefði haldið áfram stefnu sinni; tók hún fyrst tvö hús, sem ofar stóðu með heyinu og 45 sauðkindum sem inni voru, og tvö hesthús með heyinu, sem við þau var, en hallaði sér síðan til norðurs og náði sjálfum bænum; umturnaði hún í einu vetfangi baðstofu nýbyggðri, smiðju sem stóð langt frá, búri, eldhúsi og bæjargöngum; sneri þá Jóhann aftur heimleiðis, og sá þá, að fyrir neðan stóran kálgarð er stóð fram undan bænum, flutu nokkur sængurföt sem hann náði. Fólkið hafði nú leitað sér skýlis sunnan- og norðanvert við grundirnar í litlu grjótbyrgi því bæði var stormur og rigning. Bóndinn fór nú þegar að ná hestum, sem hann var búinn að tína saman, og reyna Kolbeinsdalsá, sem nú var í svo ægilegum vexti, að engum mundi hafa til hugar komið yfir hana að fara, nema í ítrustu dauðans neyð sem hér var þá á ferðum; gat hann náð reiðtygjum úr útiskemmu, sem uppi stóð að hálfu leyti, og tók nú að flytja fólkið yfir ána (er var 11 að öllu með honum sjálfum, þar af 8 börn yngri og eldri), sem með guðs hjálp lukkaðist, þó ólíklegt væri fyrir manna sjónum. Geta má þess, að fyrir því að skriðurnar hlupu beggja megin bæjarins, var ekki hælis að leita þeim megin í dalnum; en á Fjalli sem er næsti bær hinu megin, (hvar manneskjur þær sem fyrst komust yfir ána höfðu leitað sér hælis), tóku skriður að hlaupa fram, þegar áleið daginn, og um kvöldið hljóp ein þeirra, býsna breið ofan á túnið milli fjóss og bæjar, svo konan þar flúði um aftaninn með 5 yngstu börnin að Brekkukoti í Hjaltadal en bóndinn hafðist við heima með elsta sveininn; hér voru því engin önnur úrræði fyrir Jóhann, en að leita Hjaltadalsins og komst hann með allar manneskjurnar lífs og heilar að Víðirnesi sama kvöldið, en þá var Víðirnessáin ófær, svo ekki varð komist til Hóla. Daginn eftir fór Jóhann ásamt fleirum mönnum yfir til Skriðulands að leita nautgripanna; fjósið stóð að sönnu, en næstum því grafið í aurbleytu svo brjóta varð stafninn, til þess gripunum yrði náð; stóðu kýrnar 4 talsins í kvið í aurbleytunni náðust samt óskemmdar ásamt tveimur vetrungs-kvígum og nauti, sem þá höfðu hvorki fengið fóður né vatn í þrjú mál, en það hafði hlíft töðuheyinu, að það var fyrir ofan, svo skriðan hafði þar klofist. Þannig týndist með öllu matur sá, sem í búrinu var, ásamt öllum búsgögnum; úr eldhúsinu fundust að sönnu tveir pottar, en skinn, 2 kistur og með þeim það sem til var af grjónum, rúg, kaffi, sykri o.fl. týndist gjörsamlega, með smiðjunni fórust reipi og reiðskapur allur, orf, ljáir, hrífur, hestajárn, kláfar, krókar og ýmislegt annað, auk áður talinna húsa, svo skaði sá allur sem varð, bæði á dauðu og lifandi nemur ærið miklu, ef metinn yrði, þó þyngst fyrir fjölskyldumann að sviptast hagkvæmu jarðnæði og standa uppi húsvilltur, hver eftirköst, jafnvel húsbruni ekki hefur, nema í bráð. Þessi atburður er ritaður eftir frásögn Jóhanns sjálfs og konu hans, samt margra sjónarvitna, sem bæði störfuðu að leitinni í skriðunum, samt hey- og nautgripaflutningi til Hóla, hvar hjónin ásamt flestum börnunum og barnfóstrunni munu njóta skýlis í vetur. Staddur á Hólum 29.[nóvember] 1858. Th. Thómasson.

Síðan að vér gátum seinast um tíðarfar, hefur það enn mátt heita gott einlægt, þó að jarðskarpt hafi verið í sumum sveitum á jólaföstunni.

Þjóðólfur segir óvenjuleg tíðindi í frétt 15.janúar 1859:

Um miðja jólaföstu, þegar landsynnings- og skrugguveðrin gengu hér syðra, sló eldingum niður hér og hvar austur um Landeyjar, er getið um að skemmdir hafi orðið af á húsum á Kálfstöðum; tveir menn voru þar á ferð austan yfir Affall, milli Skipagerðis og Arnarhóls í Útlandeyjum, er mælt að þriðji maðurinn hafi ætlað að slást í ferð með þeim þann dag, en farist fyrir; eldingin laust þessa tvo menn svo, þar sem þeir voru þarna á reið, að annar maðurinn beið bana þegar í stað, — það var Þorsteinn bóndi Ólafsson á Steinmóðarbæ, ungur og efnilegur maður, — og báðir hestarnir, en hinn maðurinn féll í rot og meiddist, en er þó nú sagður kominn á skrið, og talið að hann muni verða jafngóður.

Norðri segir af slysförum í pistli 27.desember (lítillega stytt hér):

Fimmtudaginn þann 18.[desember] reri skip til fiskjar frá Reykjum á Reykjaströnd; á því voru 5 menn, formaður hét Gísli Andrésson, bóndi á Reykjum, ... Þessir menn voru komnir fram á sjó fyrir dag, hvessti þá bráðum veðrið á austanlandnorðan, svo þegar varð bráða-rok, sneru þeir þá aftur, og ætluðu að sigla sniðhallt undan inn fyrir svo kallaðan Reykjadisk, og í sína réttu lending, en þar eð útsýni var óglöggt, urðu þeir of norðarlega og nærri Stólnum, ætluðu því að nauðbeita innmeð; skipaði formaður að taka til ára, og róa inn fyrir Diskinn, var þá Jóhannes settur til að passa seglið, sem þó var álitinn lítill sjómaður, og þá annars hugar af hræðslu. Hélt hann nú af öllum mætti í seglið, án þess að slaka til eftir þörfum. Hvolfdi þá undir þeim skipinu og komust þrír strax á kjöl, formaður, Jón og Björn, tók þá Jón og Björn af kjölnum aftur, en Björn var syndur. Greip hann því til sunds og komst nauðuglega til lands, vegna brims og stórsjóa. Frá skipinu og til lands er mælt að væri hér um bil 100 faðmar. Þegar nú Björn var kominn í land, sá hann að formaður var enn á kjölnum, fór hann þá af skinnklæðum sínum, sem mjög voru full af sjó, og ætlaði að leggja til sunds fram að skipinu, og reyna að bjarga formanni sínum, en í því bili kom kvika á skipið og sleit formanninn af kjölnum, og kom hann ei upp síðan. Það er mælt, að við þetta manntjón hafi 12 börn orðið föðurlaus.

Norðri segir enn af slysförum í frétt þann 31.desember:

Á Berufjarðarströnd austur fórst bátur með 2 bændum og nokkru seinna annar bátur í Hamarsfirði þar sunnar með 4 karlmönnum og einni konu. Þessir bændur voru: Sigurður Markússon frá Melrakkanesi, Hávarður Guðmundsson á Þvottá, og 2 bændur sunnan úr Lóni. Alls hafa farist í sjó eystra næstliðið sumar og haust 23 menn, og er það mikill hnekkir; þar sem fólksfæðin er svo mikil.

Norðri sagði 20.febrúar 1859 nánar frá fleiri slysum eystra á árinu 1858:

[Þann 1. september] fóru 2 bændur frá Steinaborg á Berufjarðarströnd yfir á Djúpavogsverslunarstað, Guðmundur Ásmundsson og Oddur Jónsson; sneru þeir svo heimleiðis aftur og sigldu snarpan austanvind allt þar til þeir voru komnir meir en miðfjarbar; herti þá svo veðrið að með öllu varð ófært, og sáu menn það seinast til, að báturinn sökk undir seglunum; höfðu þeir til varúðar hlaðið bátinn með grjóti. Bændur þessir voru ungir menn og efnilegir, vel stilltir, mestu dugnaðar- - og greiðamenn, var því að þeim mikill söknuður. Öndverðlega á næstliðnu sumri lagði út frá Djúpavog þiljuskip, Lúðvík að nafni, og ætlaði til hákarlaveiða ásamt 2 öðrum þiljuskipum. Skömmu þar eftir skellti á ofsa austanveðri, hrakti þá annað skipið til Vestmanneyja, en hitt náði höfn í Papós í Lóni, en til Lúðvíks hefur ekki frést síðan, og mun það mega telja víst, að hann hafi farist. Á skipi þessu voru 6 menn, allir ungir og efnilegir, ... 

Þjóðólfur segir 29.mars 1859 frá slysförum seint á árinu 1858:

[Þann 23.desember] varð maður úti fyrir utan Haugstaði á Jökuldal í Norður-Múlasýslu, hann var úr Hróarstungu. — Annar maður varð úti í Austfjörðum um sama leyti eða nokkru fyrr. — Um jólin varð maður úti í Hallormsstaðaheiði, úr „Skógum“. — Nýársnótt drukknaði maður í Lagarfljóti niðrum ís, Hann var frá Eiðum. — Kona á Axarfjarbarheiði fór að gæta fjár, er hana lengdi eftir vinnukonu sinni er hún hafði sent til fjárins, það var skömmu fyrir jólin; konan varð úti og fannst síðan örend skammt frá fjárhúsunum, bóndinn var ekki heima, en sagan segir að að hann hafi komið heim um kvöldið, þetta hið sama, mjög drukkinn, og því hafi eigi orðið úr að fara að gæta konunnar. 

Norðri ritaði eftirmæli ársins 1858 og birti þann 20.febrúar 1859:

Eftirmæli ársins 1858. Árið 1858 er nú um garð gengið, og þó að engar stórsóttir hafi gengið á því, og engin aftaks harðindi verið, þá megum vér Íslendingar eflaust telja það með hinum lakari árum að mörgu leyti, og það hefur orðið alþýðu manna og mörgum öðrum ærið þungt og notalítið. Veturinn frá nýári var reyndar í betra lagi, en vorið hið versta og grimmasta, er vér og margir aðrir munum allt fram yfir miðju júnímánaðar. Umskiptin sem þá urðu og staklegt blíðviðri í þrjár vikur gjörðu nú samt það að verkum að grasvöxtur varð nógur og enda sem í betri árum víðast hvar. En þá varð líka heyskapartíminn svo afleitlega bágur sökum óþurrka, að töður náðust sumstaðar ekki fyrr en í lok ágústmánaðar og víðast hvar svo hraktar, að þær voru lítill og lélegur vetrarforði, og sumstaðar brunnu þær til stórskemmda. Eins gekk útheysskapurinn, að heyið hraktist til skemmda og lá víða undir snjó þegar haustáfellið byrjaði. Þetta áfelli, sem var jafneinstakt í sinni röð, eins og vorharðindin og sumaróþurrkarnir, byrjaði um mánaðamótin september og október og varaði langt fram í októbermánuð. Gjörði þetta áfelli því meiri skaða sem fé var víða enn óhýst og seinni göngur ekki afstaðnar. Fennti því fjölda fjár einkum í Þingeyjar- og Múlasýslum, og hross jafnvel sumstaðar hér norðan- og austanlands, og þegar að hlánaði, varð leysingin svo ógurleg, að varla eru dæmi til, að þvílíkir skaðar hafi orðið af skriðuhlaupum í nokkrum vorleysingum, og höfum vér tilfært einstök dæmi um það í blaði voru. þá að því veturinn hefði verið hinn besti flaut það af vorharðindunum, að fénaður gekk illa undan og að margir komust í heyþrot; líka féll sumstaðar hið sjúka fé sunnanlands í vorhörkunum; og allt fé varð næsta rýrt til frálags að haustinu, og mjög mörlaust, en hrakningar á því í haust um og eftir göngur fjarskalegir, svo enn minni arður varð sökum þess af fé því er slátrað var, og lífsfé allt hrakið, illa búið undir vetur, fóður ónóg og stórskemmd, mygluð og varla neinni skepnu gefandi. Málnyta bænda var í sumar rýr sökum rigninganna og kúabúin ónýt í vetur vegna skemmda á töðum.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1858. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kuldavísar

Nú er upplagt að koma að smáatriði um öfgar í hitafari (þó við verðum svosem ekki mjög mikið vör við slíkt nú). Evrópureiknimiðstöðin gefur tvisvar á dag út öfgavísa svonefnda - fyrir hita, úrkomu og vind (og e.t.v. eitthvað fleira). Við höfum fjallað um þá áður hér á hungurdiskum og endurtökum ekki - nema að tvær mismunandi gerðir vísa eru birtar, það sem við höfum hér annars vegar kallað útgildavísi og hins vegar halavísi. Sá síðarnefndi er sérlega gagnlegur þegar fengist er við úrkomu.

Myndin hér að neðan sýnir þessa vísa fyrir hita, sú fyrri sýnir daginn í dag (fimmtudag 3.desember), en hin á við laugardag 5.desember. 

w-blogg031220a

Heildregnu línurnar sýna halavísinn (við skiptum okkur ekki af honum hér) - en litirnir sýna útgildavísinn. Dekkri fjólublái liturinn sýnir óvenjulegan kulda - miðað er við um 20 ára tíma - og hálfan mánuð á þessum tíma árs. Við sjáum að kuldinn í dag er ekkert óvenjulegur yfir landinu - en er það yfir sjónum vestan við land. 

Síðari myndin á við laugardag.

w-blogg031220b

Hér vantar dekkri fjólubláa litinn að vísu alveg (kuldinn ekki eins óvenjulegur) - en nú er kaldast að tiltölu yfir landinu (nema á bletti í Rangárvallasýslu). 

Aðalatriðið er hér að átta sig á því að til þess að óvenjukalt geti orðið yfir sjó þarf mikið og samfellt aðstreymi af köldu lofti. Sjórinn er fljótur að hita upp loft sem liggur nokkurn veginn kyrrt yfir honum - alla vega nægilega mikið til þess að komast út úr öllu mjög óvenjulegu. - En það er samt hlýrra yfir sjónum heldur en yfir landi - líka á fyrra kortinu. Á landi hagar þannig til að ekki er aðeins kalt á þessum árstíma þegar kalt loft streymir að - landið getur sjálft „búið til“ kulda í hægviðri - sé veður bjart. Kaldir dagar eru því miklu fleiri yfir landi heldur en yfir sjó á þessum árstíma - kuldinn í dag er þess vegna alls ekki óvenjulegur yfir landinu - eins og fyrra kortið sýnir greinilega. Hann er það hins vegar yfir sjónum.

Á laugardaginn á vindur að hafa gengið niður - þá fær kalda loftið (sem kom reyndar að norðan) að kólna frekar yfir landinu - og fjólublár litur útgildavísisins kemst að. Sjórinn hefur hins vegar séð til þess að koma hitanum upp í eitthvað venjulegra heldur en er í dag - og mjög hefur dregið úr því sem í dag er óvenjulegt.

Þessir útgildavísar (allir saman) eru ákaflega gagnlegir, en það þarf aðeins að hugsa sig um til að hafa af þeim full not. 

Hvers vegna er ekki blár litur yfir Rangárvallasýslu neðanverðri á kortinu sem gildir á laugardaginn? Það er líklega vegna þess að þar er spáð skýjuðu veðri - og jafnvel úrkomu. Skýin slá á kólnun af völdum útgeislunar - og auk þess blæs vindur e.t.v. af hafi á þessum slóðum. Þetta er þó smáatriði í spánni - og mjög óvíst sem slíkt. 


Bloggfærslur 3. desember 2020

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 181
  • Sl. sólarhring: 414
  • Sl. viku: 2006
  • Frá upphafi: 2350742

Annað

  • Innlit í dag: 164
  • Innlit sl. viku: 1792
  • Gestir í dag: 162
  • IP-tölur í dag: 161

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband