Af árinu 1855

Árið 1855 var heldur óhagstætt. Óvenjuharðan frostakafla gerði í febrúar en vorið var skárra. Sumarið var blautt á Suðurlandi, en skárra annars staðar. Haustið var hagstætt. Veðurstöðvum hafði nú fækkað, þó voru nokkuð ítarlegar mælingar á hita- og loftþrýstingi í Stykkishólmi og einnig var mælt allt árið í Hvammi í Dölum og á Hvanneyri í Siglufirði. 

Meðalhiti í Stykkishólmi var 2,6 stig, 0,9 stigum neðan meðallags næstu tíu ára á undan. Áætlaður meðalhiti í Reykjavík er 3,4 stig, en 1,9 á Akureyri. Sérlega kalt var í febrúar og í október. Sömuleiðis var kalt í janúar, mars, maí og ágúst, en aftur á móti óvenjuhlýtt í júlí - en það var eini hlýi mánuður ársins. Svo virðist sem hlýrra hafi verið norðanlands heldur en sunnan í þeim mánuði.

ar_1855t

Nítján dagar ársins voru óvenjukaldir í Stykkishólmi, 7 í febrúar, 4 í mars, 3 í maí, 3 í júní og 2 í október. Kaldast var síðast í febrúar. Sólarhringsmeðalhiti þann 24. var -21,6 stig í Hólminum og lágmarkshiti fjögurra daga í röð neðan við -20°C, mestur -24,5°C þann 24. Meðalhiti var undir -10°C í nærri því hálfan mánuð. Ekki hefur verið lokið við að fara yfir allar hitamælingar á landinu þessa daga en víða var mjög mikið frost. Séra Jón Austmann segir í athugasemdum um febrúarmánuð (sem ekki eru alveg skýrt orðaðar): „Himinblíða 1. til 14. feb. [frost fór í -20 stig um þ.20]. Þar eð termometrið tók eigi nema 20- varð eigi með vissu ágiskað hvað frostið steig hátt, svo tók ég það inní hús er vissi að 2-3° herti frostið eftir það. Þurrt mest allan mánuðinn“. Að frost fari í meir en -20° í Vestmannaeyjum er vægast sagt óvenjulegt. Meðalhiti í Ofanleiti reiknast -6,6 stig í febrúar. Við vitum ekki fyrir víst hversu vel má treysta þessari tölu en hún er mun lægri en öll síðari tíma mánaðameðaltöl hita á stöðvum í Eyjum. Óvenjuleg ísalög voru á fjörðum, t.d. á Breiðafirði og Eyjafirði. Sömuleiðis er getið um óvenjulega ísa á Þjórsá og Hvítá fram eftir. (Sjá fregnirnar hér að neðan). 

ar_1855p

Loftþrýstingur var óvenjuhár í bæði janúar og febrúar. Þá var þrýstiórói einnig með minnsta móti í febrúar og mars. Veður var lengst af stillt, þurrt og bjart. Norðurljósanætur mjög margar í Stykkishólmi. Greinilegt er að miklar fyrirstöðuhæðir hafa haldið sig nærri landinu - en svo fór að lokum að þær fóru vestur fyrir og sérlega kalt loft komst til landsins - trúlega alla leið úr Norður-Íshafi. Mikill hafís var fyrir norðan land þannig að ekki var um neina sjávarhitun lofts að ræða þar til komið var suður fyrir Ísland. Febrúar var líka sérlega kaldur á Bretlandseyjum, sá þriðjikaldasti í meir en 300 ára sögu veðurathugana þar - og frost hljóp í jörð á Norður-Írlandi.

Þrýstingur var einnig vel ofan meðallags í maí, en vel undir því í apríl. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 9.apríl, 968,6 hPa, en hæstur á sama stað þann 28.janúar, 1043,7 hPa. Árið virðist ekki hafa verið sérlega illviðrasamt, þrýstiórói þó með meira móti í september.

Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar. Óvenjumargir virðast hafa orðið úti. Fregnir voru greinilega mjög óljósar af mörgum slysum og óhöppum og ber heimildum ekki alltaf saman.   

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Hagleysi yfir allar sveitir og hross mjög hrökuð orðin og komin flest á gjöf, Var nú miklu lógað af folöldum og gömlum hrossum. Þótti búlaust fólk eiga of margt af þeim, með lítilli fyrirhyggju, utan hvað sumir kostuðu upp á óþarft eldi þeirra, sem fór nú af. 13. jan. kom snöp í lágsveitum, en 21. gerði mikla lognfönn ofan á gaddinn. Skeljaði hana og hélst svo bjargleysið, utan í Tungusveit og yst á Ásum og jarðsældarplássum, þar nokkuð reif af, svo léttir var lengi. Allan þorra var veður stillt og bjart, frosthart og ófærð af brotafönn. 3 fyrstu góudaga milt veður, en 21.-26. febr. mesta grimmdarharka. 27. hlóð enn niður lognfönn svo bæir voru í kafi og ófært með skepnur milli þeirra. Var þá ís kominn að öllu Norðurlandi, hey farin mjög að minnka og útlit fyrir felli, kæmi ei jörð upp fyrir sumar. 8. mars blotaði og komu upp rindar í Hlíðar- og Holtastaðafjalli og brátt voru hross og sauðir rekin þar á. Hjarnaði svo í lágsveitum. Um góulokin lagði ísinn frá landi, þá menn síst væntu þess, án þess veður ræki hann. Um það bil kom snöp mót vestri. 27. mars kom þíða, er varði vikutíma. Kom þá upp jörð í flestum sveitum, svo fé lifði af gjafarlítið.

Þann 14.febrúar segir athugunarmaður á Siglufirði frá hafís svo langt sem tilsjáist. Þar fannst jarðskjálfti 11.mars. 

Norðri fer yfir tíð og slysfarir í pistli þann 14.febrúar (lítillega stytt hér):

Veðuráttufarið var fyrst eftir nýárið svipað því og fyrir það, en eftir þrettándann blotaði, kom þá upp nokkur jörð; þó lagði aftur að með hríðum, svo í sumum sveitum tókst nær því af öll jörð. Það af er þorranum hafa fádæma stillingar og heiðríkjur gengið. Hafís er nú hér mikill úti fyrir. Þessir menn höfum vér heyrt að hafi orðið úti eða dáið voveiflega: 2. des. f.á. varð vinnumaður Kristján Sigfússon frá Höfða á Völlum í Suðurmúlasýslu, á leið úr Eskjufjarðarkaupstað, úti í svo nefndum Tungudal. Annar 17. [desember] á Seyðisfjarðarheiði, hét sá Halldór og var mállaus. Þriðji frá Ytra-Álandi í Þistilfirði, Marteinn Sigurðsson bóndi þar, fimmtudaginn næsta eftir nýár og hefur hann ekki fundist og er haldið að hann muni hafa i stórhríðinni og náttmyrkrinu, er þá var, hrapað þar fram af sjávarhömrum. Maður, Bergvin að nafni, var sendur frá Fossvöllum á Jökuldal norður að Grjótnesi á Sléttu, og þegar hann fór til baka hafði hann seinast verið á ferð með bræðrum 2, Sakkaríasí og Eiríki frá Ormalóni á Sléttu, en var þó skilinn við þá og kominn á undan þeim, en síðan ekki til hans spurst, og eru ýmsar getur um hvarf hans. Tveir menn lentu í snjóflóði í svonefndu Sauðárgili nálægt Gönguskörðum £ Skagafirði, og komst annar þeirra úr því en hinu lést og var þó sá meiri maður fyrir sér. Unglingsmaður frá Skatastöðum £ Skagafirði hefur týnst, og er haldið að hann hafi hrapað þar og lent í hinni svonefndu Jökulsá eða þá, að ískörin hafi bilað undan honum við ána. Maður hafði orðið úti um jólaleytið úr Miðfirði, sem var þá á ferð um Víðidal, og annar er sagt að hafi í [janúar] orðið úti á Vatnsnesi. Tveir menn er sagt að hafi orðið úti á Mýrum, er áttu heima á Búðum eða þar £ grennd, og sýndist þegar fundust sem einhverjum áverka hefðu sætt, og frá þeim horfið nokkuð af því, er þeir áttu að hafa meðferðis. ... Kvenmaður hafði orðið úti í Álftanesi. ... Á jóladagskvöldið lögðu 4 kvenmenn frá Reynistaðarkirkju, er áttu heima þar á næstu bæjum, en þá brast á stórhríð, svo þær villtust, tóku því til bragðs að grafa sig í fönn og lágu þar úti í full 3 dægur. Ein þeirra var allan þann t£ma á flakki og ýmist vann að því, að hlúa að hinum eða þá bjástra eitthvað sér til hita. Loksins þegar hríðina birti upp, fundust þær þá skammt frá bæjum,var þá ein, er gróf sig í snjónum, kalin til stórskemmda, svo að fætur mun missa upp að ökklum, en hinar lítið sem ekkert, og sú sem úti var, alls ekkert. Og er tekið til þess sem vert er, hvílíkur kjarkur hennar, harka og þol sé. Með sendimanni séra Jóns Kristjánssonar á Ystafelli, er hann á jólaföstunni sendi suður í Reykjavík og kom aftur hingað úr þeirri ferð 18. [janúar], fréttist að miklir útsynningar með snjókomu hefðu þá lengi verið syðra og ógæftir miklar, Maður sá, sem héðan var sendur suður fyrir nýárið eftir bréfum og fréttum, et kæmu með Liverpúlsferð póstskipsins, kom hingað aftur 8.[febrúar] og barst með honum sú frétt, meðal annarra, að í hlákunni, sem gjörði eftir þrettándann hefði víða orðið öríst um Suðurland, og hefðu því þar verið góðir hagar allt norður undir Holtavörðuheiði, en úr því mikil fönn og jarðbannir. Allt fram í næstliðinn mánuð fréttist, að eystra suður í Lón og allt vestur að Rangárvallasýslu hefði og verið lítið um haga vegna áfreða og glerungs, nema í Öræfum góð jörð.

Þjóðólfur segir af tíð og slysförum þann 22.febrúar:

Það vill einatt verða hér, að ýmsir menn fara hörðum förum, þegar slík langvinn illviðri og harðindi ganga almennt yfir, eins og hefir verið á þessum vetri; illviðrin og hörkurnar lögðu víðast að um land fyrir og um jólaföstu, og jafnvel fyrr í Múlasýslum; og með þeim stöðugu byljum og fannfergi, sem upp frá því gengu, fram undir miðjan janúar, þá mun sjaldgæft, að jafnfáir menn hafi kalið og orðið úti sem þó hefir orðið, eftir því sem spurst hefir getað. Hingað hafa ekki spurst aðrar harðar farir i þeim illviðrakafla, — Auk stúlkunnar sem varð úti á Álftanesi, en um þær 4 stúlkur, sem gengu frá Reynistaðarkirkju í Skagafirði, á jóladaginn, og áttu allar mikið til samleið, en villtust, og fundust ekki fyrr en á 3. degi, allar með lífi en meira og minna kaldar; þó er haldið, að þrjár þeirra verði jafngóðar að mestu, en ein, — og sú hafði verið langverst útbúin, — var svo skemmd, að læknirinn varð að kubba af henni báða fætur um mjóalegg,og var þó talið tvísýnt, hvort hún myndi lífi halda. Í hlákunni, sem gerði um miðjan janúar, komu víða upp nokkrir hagar, ekki aðeins hér sunnanlands, heldur einnig fyrir norðan og vestan. En bæði nyrðra og vestra tók svo að segja algjörlega fyrir þenna bata, eftir hinn mannskæða byl, sem þar varð hvívetna 1. sunnudag í þorra, (21. janúar); þá varð úti maður milli bæja á Vatnsnesi; og fullhermt er að vestan, að þann sama dag hafi orðið úti: 2 menn á Fróðárheiði, 2 á Kerlingarskarði, 2 á Skálmardalsheiði og einn á Kleifum i Gilsfirði.

Norðri segir af veðri þann 28.febrúar:

Síðari hluta mánaðar þessa hefur veðuráttan verið mjög frostasöm og hörð, einkum næstliðna viku, svo frostið varð 22 gr. á Reaumur [-27,5°C], enda eru nú sögð hafísþök norðan fyrir öllu landi, allt austur á Héraðsflóa. Eyjafjörður er nú gengur út á Kljáströnd að austan, en Hjalteyri að vestan, og er það héðan á 3. viku sjávar [20 til 25 km], en þaðan er stappað fullt með hafís. Um aflabrögð er nú ekki að tala. Víðast eru jarðbannir, og margir í voða með skepnuhöld sín, batni ekki þyí bráðara og betur. ... Unglingspiltur nokkur frá Gunnarstöðum í Langanesströndum hafði verið á leið til Vopnafjarðar, sem eftir 6 dægra útilegu, komst fyrst til byggða; var hann þá mjög kalinn á fótum, er leiddi hann til bana að tæpri viku liðinni.

Norðri segir fréttir af hörkum í pistli þann 8.mars:

Í 6 daga af mánuði þessum, hafa verið sömu gaddhörkurnar og næst er getið á undan 10—25 gr. í Reaumur [-12 til -31°C]. Sagt er nú að ganga megi yfir Eyjafjörð þvert og endilangt, hvar sem vilji. Ferfættu gestirnir frá Grænlandi hafa og látið heyra sönglist sína hér undir landi. Hreindýr hafa venju framar sótt ofan í byggð einkum við Mývatn og ekki allfá þeirra þar lögð að velli, og nokkur orðið bráðdauð fyrir hungurs sakir. 3 höfrungar voru drepnir í vök við Hjalteyri hér á firðinum, um það leyti hafísinn var að reka inn og frjósa saman. 2 hnísur höfðu hlaupið í land í Upsakrók. Nokkrir ern nú farnir að koma fyrir skepnum sínum, og margir eru sagðir á flugstig að skera niður meira og minna af peningi sínum. Fæstir munu birgari en svo af heyjum, að þeir komist lengra með skepnur sínar en í páska [8.apríl] eða sumarmál, ef ekkert svíar þangað til. Þegar á fætur var komið á Hvanneyri í Siglufirði um morguninn 24. janúar brá mönnum heldur en ekki mjög í brún, að sjá kirkjuna þar komna af stæði sínu og í hliðina suðaustur á kirkjugarðinn, sem numdi upp undir gluggana. Presturinn séra Jón Sveinsson hafði verið um nóttina út í Siglunesi, og þótti þá heim kom aðkoma þessi ekki góð, sem ekki var von, og því heldur, sem þá var ekki annað sýnna en hann kæmist ekki hjá, að láta draga kirkjuna þar í sundur. Samt réði hann það af að safna saman mönnum úr sókn sinni, nefnilega þar úr firðinum, utan af Siglunesi, vestan af Úlfsdölum og líka innan frá Hraunum í Fljótum, og urðu þeir yfir 40 saman. Menn þessir komu með mikinn útbúnað, blakkir sumar þríhjólaðar, kapla, akkeri, stórviðu og smærri tré, og skorti þar ekkert af því, er hafa þurfti og heldur ekki góð ráð né dugnað og fylgi. Fyrst fengu þeir reist kirkjuna við og jafnframt komið undir hana stórtrjánum og ekið henni á þeim þar til hún komst að öllu rétt og óskökk á grundvöll sinn og fengu þeir þessu að mestu leyti komið í verk á 2 klukkustundum. Kirkjan hafði ekki framar bifast til en eíntrjáningur og það fáa, sem raskast hafði í gripum, varð komið í samt lag sem áður; og sýnir þetta meðal annars, hve vönduð hún er að smíði, jafnframt sem það lofar meistarann, yfirsmið hennar timburmeistara og stórbónda herra Ólaf Briem á Grund í Eyjafirði. 5 borð höfðu aðeins rifnað til skemmda í vestara, en eitt í austara gafli kirkjunnar, sem voru þegar burtu tekin og önnur ný sett í staðinn. Engin rúða hafði brotnað í gluggunum. 15 tunnur af kornvöru höfðu verið í stokkum á kirkjuloftinu, og fullvissa menn að þyngsli þessi hafi meðfram hamlað því, að kirkjan ekki tókst á loft út yfir kirkjugarðinn. Fellibylurinn hafði komið af vesturútnorðri eða ofan úr þarnefndri Hvanneyrarskál, en aðalvindstaðan var af landnorðri.

Aðfaranóttina hins 28.[febrúar] varð unglingsmaður úti innst á Svalbarðsströnd, rétt á móti Akureyri, sem átti heima í Grenivík á Látraströnd, en þá til veru um tíma á Brekku í Kaupangssveit, hann hét Friðrik Guðmundsson, og er haldið að honum hafi orðið snögglega illt, eða að hann hafi verið kenndur, og var hann þó á réttum vegi og varla nema fjárhúsvegur til næstu bæja, þótt þá væri dimmt af nokkurri hríð og náttmyrkri og frostgaddurinn mikill.

Norðri segir af tíð - bjarndýrum og slysförum í pistli þann 24.mars:

Mánudagsmorguninn þann 12.[mars] urðu nokkrir hér um sveitir varir við jarðskjálfta. Í Fjörðum í Suðar-Þingeyjarsýslu urðu menn varir þar við land tveggja bjarndýra og var annað þeirra lítið en hitt stórt, sem bæði voru að veiða fugla í vökum. Og líka sást eitt utar við svonefndan Sjávarsand, sem liggur fyrir botninum á Skjálfandaflóa, var það og að æðarfuglaveiði — varð einum manni, sem þetta heyrði, að orði, að bangsa mundi þykja álíka vænt um veiðilögin og sér, þá segir enn annar að bangsi mundi varla heldur borga þrjú mörk fyrir fuglinn og því síður, að hann bætti við sekt þessa að tiltölu við það hann fækkaði fleirum — . Maður einn gekk þar hjá, hér um 20 faðma, austur sandinn, og gaf dýrið sig ekkert að honum. 12. [mars] kl. 9 e.m. ætluðu 5 menn úr Húsavík fram að lagvaðavökum, en þá þeir voru komnir skammt fram fyrir svo nefnda Böku, sáu þeir hvar stórt Bjarndýr kemur mjög mjúkgengt að þeim. Mennirnir voru verjulausir, þorðu því ekki annað en hverfa til baka og í land, og fylgdi bangsi þeim af kurteisi sinni eitthvað á veg. Sagt er að slóðir eftir Bjarndýr hafi sést á Reykjaheiði framan Kelduhverfis og víðar. Hljóð eða öskur þeirra er sagt líkast því, þá blásið er í lúður. — Hvergi heyrist getið um að hvalir hafi fundist dauðir eða lifandi í vökum, nema á Skagafirði utan Hofós 12 eða 13 barðerar eða höfrungar, og náðust aðeins 3 af þeim, því þá um þær mundir var blotinn og landsunnan- og austanveðrin, er leystu ísinn víða frá landi, svo nú er hann horfinn úr augsýn, en fullir eru hér allir eða flestir firðir og víkur, svo hvergi gætu nú hafskip náð höfnum. Mjög báglega er nú farið að láta af heybirgðum margra, og ekki allfáir farnir að reka af sér, og enn nokkrir farnir að skera niður af skepnum sínum, enda hross farin að hrökkva af. Víðast til sveita eru þó nokkrar snapir og óvíða sögð aftaka fönn. Fjárpestin hefur hér og hvar verið skæð og fækkað töluverðu. Nýlega hafa oss borist bréf af Vesturlandi, og segja þau þetta hið helsta í fréttum: Hafís kvað vera eins og hér fyrir öllum Vestfjörðum og Breiðafjörður víða þakinn lagísum, svo bæði sé gengur og reiður, og segjast elstu menn þar ekki muna dæmi til slíks. ... Margir vita, að Gjögur norðan við Reykjafjörð og vestan Húnaflóa, er hin mesta veiðistaða til hákarls sem Siglunes hér í sýslu, enda voru á leiðinni þangað á dögunum þegar ísinn var að reka inn og frjósa saman 50 manna á stórskipum, er öll frusu inni í Eyjum í Kaldranasesshrepp, er komust hvorki fram né aftur.

Slysfarir: 21. janúar höfðu 5 menn orðið úti í hríðarbyl vestra, af hverjum 2 á Skálmardalsheiði, milli Ísafjarðar og Barðastrandar, 1 í Gilsfirði og 2 á Kerlingarskarði milli Snæfells- - og Mýrasýslna. Í Kelduhverfi í Þingeyjarsýslu hafði sonur prestsins þar, séra Bjarnar Arnórssonar, Eiríkur að nafni, farið þar ásamt öðrum manni í fjárhús á túninu föstudaginn þann 23. [febrúar], er mestur var frostgaddurinn og víða stórhríð. Mennirnir skiptu sér í húsunum og þá hinn var búinn í húsum sínum og kominn heim, var og von á Eiríki á hverri stundu, það dróst því nokkuð þangað til menn freistuðu til að leita hans en fundu ekki fyrr en morguninn eftir, þá kominn eitthvað afleiðis, þó skammt frá og aðeins með lífsmarki, og dó þegar. Hann hafði þó verið vel út búinn.

Ingólfur segir af árferði þann 18.apríl (heldur bjartsýnni en aðrir):

Þegar vér seinast drápum á árferði, sem var rétt eftir nýárið, þá var hljóðið í oss heldur dauflegt, er vér virtum fyrir oss með hverjum svip árið gamla kvaddi oss, og með hvaða útliti hið nýja gekk í garð. Oss þótti þá bæði loft og láð lýsa fremur ískyggilegu útliti. En það sannaðist þá sem oftar, „að ekki er veður lengi að breytast". Sú hin hryðjusama veðurátta, sem gengið hafði frá því fyrir Jólaföstu, hélst aðeins rúma viku framan af árinu; þá gjörði hláku og hægviðri, sem hélst til hins 20. dags janúar; þó leysti ekki svo upp snjó og klaka, að jörð kæmi upp að nokkrum munum, því þegar með þorra komu gekk veðurátta til hægrar kælu með vægu frosti og heiðríkju. Munu færri menn muna jafn bjartan og heiðskíran þorra, því svo mátti kalla að eigi sæist ský á lofti í 5 vikur, nema hvað einstaka sinnum brá yfir hrímþoku, er mun hafa verið undanfari hafíss þess, sem þá var að reka að landinu. Nú þegar góa gekk í garð, gjörðist veðurátta kaldari, þó veðurreynd væri hin sama; var hún tíðast með norðanstormum, nokkru kafaldi og einstaklegri frosthörku um tíma; fylltist þá allt með hafís fyrir norðan og austan, svo að hann rak vestur með landi. En þegar góa var á enda, kom batinn fyrst með heiðríkju og sólbráð, og svo með landsynningum og hláku og hægu skúraveðri; svo vér gjörum ráð fyrir að í miðjan einmánuð hafi jörð víðast hvar komið upp að nokkrum notum. Af því sem nú er sagt af veðuráttufarinu vetur þennan ræður að líkindum, að hann hafi verið allþungur og heyfrekur í flestum sveitum; þó ætlum vér að óvíða hafi orðið tjón að harðindunum bæði fyrir þá sök að flestir, sem heytæpir voru, munu hafa fargað af sér í tíma, og svo þeir, sem birgastir voru, hafa hjálpað hinum, sem í þrot komust, og svo loksins fyrir þá sök, að þegar neyðin var stærst, var hjálpin næst, það er að segja, guð gaf batann, þegar nauðin var bráðust. Þegar litið er nú til aflabragða af sjó vetur þennan, þá má það með sanni segja, að vetrarvertíðin hefir allt til þessa verið einhver hin fiskisælasta; á þorranum var hinn besti afli fyrir sunnan land, sér í lagi í Höfnunum; þá sóttu menn og af Innnesjum góðan afla af haustfiski suður í Garðsjó. Þegar með einmánaðarkomu fór að fiskast innan Faxaflóa í veiðistöðunum kringum Vogastapa, svo eigi hefur í nokkur ár undanfarin aflast eins vel á því sviði; hefur þar verið kallaður landburður til þessa. Fyrst í miðjan einmánuð fór að fiskast hér á Innnesjum, og hefur þar hvervetna gefist hinn besti afli. Þegar vér þá lítum aftur fyrir oss og fram undan, að því leyti sem út litur fyrir bæði til sjós og lands, þá getum vér ekki annað sagt, en að vetur þessi kveðji oss vel, og að vér eigum að horfa fram á gott árferði eftir því sem ráðið verður af aðgjörðum þess oss til handa, sem sendir skúrirnar niður í dalina og stefnir fiskinum inn á miðin.

Norðri segir fréttir þann 16.apríl:

Norðanpósturinn, Vigfús Gíslason, sem byrjaði héðan suðurgöngu sína 8. dag febrúar, kom til Reykjavíkur árdegis 21.[febrúar] og fór aftur þaðan um morguninn 7. mars, og kom hingað fyrir miðmunda 23. [mars] Hann hefur þá verið ekki fulla 11 daga á leiðinni suður, og tæpa 18 hingað norður. Það var fátt merkilegra tíðinda, sem með honum fréttist, annað en veðuráttufar og jarðbannir líkt og áður er hér að framan sagt seinast frá í blaði þessu, og flestir mjög tæpt staddir með skepnuhöld sín. Peningur sumstaðar, sér í lagi hross, orðinn dreginn og vonarpeningur. Fiskilaust hafði lengi verið á Innnesjum og austur með öllum söndum og í Vestmannaeyjum, 12. febr. Þar á mót góður afli í Þorlákshöfn, og suður í Höfnum 700 hlutir. Nokkur afli þá póstur fór verið kominn á Innnesjum. Póstskipið hafði létt akkerum sínum af Reykjavíkurhöfn 1.mars. ... Austanpósturinn, Níels Sigurðsson, hafði lagt af stað til (frá) Eskjufirði mánudaginn 2. [apríl], og kom hingað um miðjan dag þann 10. [apríl]; hafði hann þó víða á leiðinni fengið illa færð, og er þaðan að frétta líkt og hér um veðráttufar, jarðir, heybirgðir og skepnuhöld; einnig að hafísinn hefði verið kominn frá landi eitthvað til hafs. 27. [mars] kom hér, og hvað spurst hefur, góð hláka og gott veður, sem hélst til hins 7. þ.m.; gekk þá veður til norðurs og spilltist, kom þá töluverður snjór, helst um uppsveitir.

[Þann 7. apríl] bar svo til, að Baldvin nokkur Kristjánsson(?) á 5. ári um tvítugt, efnilegur og ágætt formannsefni, til heimilis á Krossum í Árskógsströnd, rak ásamt 6 mönnum öðrum sauðahóp, er komast átti úr Hrísey í land; en þegar skammt var komið leiðar þessarar kom sprunga í ísinn; þar hann var glær, voru sauðirnir tregir að ganga og sumir festu fæturna í sprungunni; fór þá Baldvin að koma þeim úr henni og áfram lengra; dældaði þá ísinn undan honum og sauðunum, og brast niður, svo Baldvin fór í kaf ásamt nokkrum sauðunum, er þá bar fleiri að og lentu í vökinni; en sagt er, að honum hafi í svipan skotið upp aftur, og jafnframt, að annar Baldvin og Þorvaldur faðir hans hafi freistað til að bjarga manninum, og þá við sjálft legið, að þeir mundu farast líka. Sauðirnir náðust allir lifandi og líkami Baldvins heitins morguninn eftir. Í vökinni höfðu tæpir 3 faðmar verið til botns.

Þjóðólfur fer yfir tíðarfarið þann 28.apríl:

Það sýnist sem vetrarhörkunum ætli nú um síðir að linna, enda hefir þessi afliðni vetur verið einhver hinn lang-harðasti sem hér hefir komið síðan um næstliðin aldamót; hann lagðist að víðast um land um jólaföstukomu, og má kalla, að hörkunum hafi ekki linnt fyrr en ef nú er komið hlé; snjókyngið hefir verið dæmafátt, og þar af leiðandi almennar hagleysur og langur gjafatími, — víðast fram undir þessi sumarmál hér sunnan— og vestanlands. Frostgrimmdin hefir og verið mikil öðru hverju, — hér sunnanfjalls 17—18°R [-21 til -22°C]; í Dalasýslu eins (-24°C); austanfjalls, á Eyrarbakka, 22°R [-27,5°C]; að norðan og lengra að vestan höfum vér ekki sanna frétt; — það er og fádæmi, að Þjórsá og einkum Hvítá í Árnessýslu skuli hafa verið með hestís fram yfir sumarmál, eins og nú. — Það er sannfrétt að norðan, að hafísinn hafi farið af Húnaflóa um pálmasunnudag [1.apríl], og að gott veður var þar nyrðra um páskana; en ísinn kom þar aftur eftir hátíðina, þó segir nú ný frétt, að hann sé nú farinn í annað sinn og frá öllum Vestfjörðum. Fyrir suðausturströndum landsins varð hafísinn hvorki mikill né langvinnur. — Það gefur að skilja, að fénaðarhöld eru mjög misjöfn og hæpin, eftir slíkan víkingsvetur, og að mest er komið undir vorinu, hvernig þau reynast yfir höfuð að tala; en sé þegar farinn að stökkva af fénaður einnig hjá þeim, sem hafa verið vel birgir af heyjum, — eins og frétt hefir um einstöku menn í Rangárvallasýslu, — þá eru það hin verstu sjálfskaparviti fyrir þá hina sömu; — fréttir segja, að um miðjan [apríl] hafi einstöku hross verið farin að falla um Austur-Landeyjar, og sauðfé bæði þar og í Holtunum.

Frétt að norðan, þó munnleg, segir að þegar hafísinn kom aftur á Húnaflóa eftir páskana, þá hafi 3 menn farið út í hann til að tína rekavið, en einn þeirra farið lengst út, en þá hafi ísinn leyst frá, og farið til hafs og þessi eini maður orðið til á ísnum og tekið út með honum.

Brandsstaðaannáll [vor]:

Seinni part einmánaðar kafalda- og frostasamt, svo þeir hey höfðu létu ei út og gáfu hrossum. Með sumri kom stöðug og hæg þíða með næturfrostum 12 daga. 5.-6. maí mikil áhlaupshríð ytra. Aftur 12. bati, en gróðurlítið til 26., að heiðarleysing gjörði.

Norðri segir fréttir 5.maí - af hafís, vetrarhörkum og fleira:

Þess er getið í 9. og 10. blaði þessa árs, að veður hafi spillst og mikill snjór komið, helst um uppsveitir; en seinna fréttum vér, að snjófallið hafi nær því hvervetna orðið mikið, einkum hér norður undan. En eftir þann 20.[apríl] hófst aftur þíðviðri og besta tíð og hefur, að kalla, síðan verið hverjum degi blíðara og betra; það eru því horfur á, að þótt báglega líti út með skepnuhöld margra, þá muni rætast úr því flestra von betur. Það er sjálfsagt, að sumstaðar mun peningur vera orðinn sármagur og langdreginn. Svo var orðið hæpið með heybirgðir, að nokkrir höfðu við orð, og enda gjörðu það til vonar og vara, að taka korn í kaupstöðum, til þess að gefa peningi sínum, og höfum vér helst heyrt til þess tekið í Húnavatnssýslu, að hversu miklar kornbirgðir sem voru á Skagaströnd og Hólanesi, hafi þær þó að mestu gengið upp á hálfum mánuði, og þykir varla dæmi til, enda ekki á sumartíma í kauptíð, að jafnmiklar birgðir skyldu á jafnskömmum tíma þegar vera uppi. ... Í seinasta hríðarskotinu hafði töluvert komið inn aftur að landinu af hafís, og nú nýskeð hafa borist hingað fréttir, að hafþök muni hér fyrir öllu landi að norðan, frá Rauðanúpi eða jafnvel Langanesi allt til Hornstranda. Vér höfum og fyrir skömmu síðan haft sannar fregnir af Vesturlandi, og að frostið hafi þar orðið í vetur 25—26° á Reaumur [að -32,5°C]. Það hafði líka svo verið þakið lagísum á Breiðafirði í vetur, að fara mátti á hestum úr Skáleyjum að Fagradal á Skarðsströnd og þaðan stórskipaleið í Stykkishólm; þá þvert og endilangt eftir öllum Hvamms- og Gilsfirði; einnig hafði lagt alla firði, er liggja norður úr Breiðafirði, og hvergi orðið komist að landi við Barðaströnd fyrir rekís. Svo nefnda Akureyjaröst, sem er millum Akureyja og Reykhólaeyja, hafði lagt, og vita menn ekki dæmi til þess í næstliðin 200 ár. Hafísinn hafði lengst komist suður með landi að vestan, að Látraröst, og ekki til muna inn á Vestfirði, en hafþök voru hvervetna úti fyrir. Á pálmasunnudag voru 10 hndr. (12 ræðra) hlutir orðnir af fiski við Ísafjarðardjúp, en í 10. hndr. undir Jökli. Hákarlsafli lítill. Það hefur venju framar verið lítið um veiði á Eyjafirði síðan hann í vetur lagði allan, og varð nú fyrst 27.[apríl] að kalla auður; og munu allir, sem lífsbjargar sinnar eiga von úr þessu nægtabúri, hafa glaðst við. Í dag og í gær hefur verið austan-landnorðan-stormur með snjókomu.

[Þann 8. mars], þá hafísinn leysti aftur frá útkjálkum landsins, hafði Jón nokkur Bergsson, frá Hvalsnesi á Skaga, verið ásamt fleirum við hákarlaveiði upp um ís austur af Skaganum, 1/2 til 1 mílu undan landi, og seinast verið að flutningi á veiði eða veiðarfærum; en þá tók ísinn sundur, svo Jón komst ekki til lands aftur, og varð heldur ekki bjargað, vegna ofviðurs og ísreks; sást hann þó meðan ljóst var af degi, og seinast í kíki, hlaupa aftur og fram um ísinn til þess að ná landi, en fékk hvergi að gjört. Hundur hafði fylgt honum, sem 6 dægrum seinna hafði komið í land upp að Víkum á Skaga; en til Jóns hefur ekkert spurst síðan; hann hafði verið lítt klæddur. Það er haldið, að hann varla muni hafa getað lengi lifað á ísnum, sem rak til hafs, þar hvassviðrin og heljurnar fóru þá aftur í hönd.

Það er sagt, að Erlingur nokkur Einarsson vinnumaður frá prestsetrinu Hvammi í Laxárdal, er séra Ólafur Þorvaldsson á Hjaltastöðum hafði í heljunum í vetur fundið á leið sinni inn yfir Skörðin nær því frosinn til dauðs, eftir nokkurra dægra útilegu, og flutt til bæjar og sýnt og útvegað alla mögulega hjálp og aðhjúkrun, hafi dáið eftir 14 daga harmkvæli. Stúlka hafði og orðið úti frá Herjólfsstöðum í ytri Laxárdal og var hún ekki fundin þá seinast fréttist.

Norðri segir af tíð, hafís og óhöppum í maípistlum:

[22.] Í norðanveðrinu, sem var á kóngsbænadaginn 4. [maí] hafði um kvöldið orðið skiptapi á Vatnsnesi í Húnavatnssýslu með 3 mönnum, er haldið er að farist hafi þar í lendingu, því 2 mönnum hafði skolað þar upp. Nú tjáist lítill sem enginn hafís hér fyrir landi svo langt sem eygt verður.

[26.] Veðráttufarið hefur oftar, það liðið er af mánuði þessum, verið stillt, en heldur kalt, nema dag og dag, og enn er gróðurlítið; enda hefur hafísinn alltaf verið ýmist grynnra eða dýpra fyrir, og með Grímseyingum, sem komu í land 23.[maí] fréttist, að ekki væri nema vika liðin, síðan hann hvarf þaðan úr augsýn. Grafarósskipið hafði lent í svo miklum hafís undir Austurlandinu og við Langanes, að skipverjum þótti tvísýnt, hvort þeir mundu geta komist úr honum eða í gegnum hann, þó það tækist. Leguskipin [hákarlalegu-] hafa líka hitt meiri og minni ís, og stundum orðið að leysa frá honum. — Hákarlsaflinn er mikill hjá sumum, og hefur Baldvin á Siglunesi t.a.m. fengið yfir 100 kúta í 3 róðrum. Það er líka sagt, að jagtir á Ísafirði hafi fengið mikinn afla í fyrstu ferð sinni. Eins er talað um, að nokkrir hafi aflað vel á Gjögri. — Selaflinn varð hvervetna lítill hér norður undan. — Aflalítið í Grímsey, og lítið af fugli þar enn sest í björg, og bágt um bjargræði. Einnig er mjög látið af bjargarskorti í einstökum héruðum, einkum hér og hvar £ Þingeyjarþingi, hvar sagt er, að nokkrir hafi soðið hákarl sér til matar, og haft lýsi til viðbits. Í vetur var og sagt mikið bjargskart á Barðaströnd og víðar vestra og syðra, þar fiskiaflinn hefur brugðist, og fátæklingar, vegna dýrtíðarinnar, ekki klofið að kaupa matvöru í kaupstaðnum eftir þörfum — Mælt er, að peningur sé víða sármagur, og farinn að hrökkva af.

Þjóðólfur greinir frá harðindum í maípistlum:

[12.] Þetta harða íhlaup, sem gengið hefir næstliðna viku, hlýtur að hafa haft hinar þyngstu afleiðingar á fénað sveitabænda, þar sem gjafatíminn hefir verið staklega langur, og fénaður viða sármagur.

[26.] Bréf og fréttir hafa nú borist hingað úr flestum héruðum landsins, og er að frétta alstaðar að, að þessi vetur hafi reynst einhver hinn harðasti og langsamlegasti, sem lengi hefir hér komið; eðlilegur vorbati heitir og fyrst að vera kominn þessa viku, og harðviðrið og gaddarnir, sem gengu fyrstu 10 dagana framan af þessum maí, munu lengi minnisstæðir; frískleikamann kól hér í Mosfellssveit 5. [maí] á báðum fótum. Afleiðingarnar af þessum langsömu harðindum eru þó sagðar hvorki nærri eins illar af Norður- og Vesturlandi yfir höfuð að tala, eins og við mátti búast, og talið víst, að lítið muni verða um almennan fjárfelli; úr Snæfellsnessýslu er hordauðinn sagður meiri, og Mýra- og Hnappadalssýslu að vestanverðu, einkum úr Hraunhrepp og Kolbeinsstaðahrepp, að vér ekki nefnum Borgarfjarðarsýslu sunnanverða: Akranes, Skilmannahrepp, Leirársveit, Melasveit og að nokkru leyti bæjarsveit og Andakíl; um þessar sveitir hefir og verið hrossafellir meiri og minni, og er sagt að skipt jafnvel tugum á sumum bæjum; — enda getur ekki öðruvísi farið, né nein guðsblessan fylgt því ráðlagi, að eiga hvorki hús né hey handa mörgum skepnum sinum.

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Eftir það [maílok] vorgæði og varð þá en snjóleysing að flæði á hentugasta tíma í dölum móti austri og öllu flæðiengi, sem síðar gaf mikið gras og öllum fjallslægjum og flóum eða hálsum. Sláttur byrjaði 16. júlí. Þó spruttu tún mánuðinn út og við tvíslægju hefði orðið mesta töðufall. Veður gafst vel, rekjur og þurrviðri til. 17. ágúst, að stórrigning gjörði slægjur fljótandi, aftur 24. frostnætur og þerrir, svo hey náðist, þó víða hrakið. Aftur 30. [ágúst] vestan- og norðan-ofsarigning. Eftir það stormasamt til skemmda og erfiður heyskapur. Þó varð að mestu hirt fyrir göngur; í þeim gaf stirt. Krapahryðja (s189) kom hastarleg á fimmtudag í réttum, en varði ei yfir 5 tíma. Aftur 29. sept. mikið regn og vatnsagi í mesta lagi.

Á Hvanneyri í Siglufirði alsnjóaði aðfaranótt 8.júní, aðfaranótt 15.júní alsnjóaði og frysti, 21.ágúst alsnjóaði niður í byggð og sömuleiðis 11.september. 

Þjóðólfur segir stuttlega frá þann 6.júlí:

Tún eru að vísu víða kalin hér sunnanlands, einkum nýjar sléttur, en sakir hinna langvinnu votviðra sem nú hafa gengið nærfellt 1/2 mánuð, þá lítur hér út fyrir grasvöxt í góðu meðallagi á túnum og valllendi þar sem jörð er óskemmd; — en nýtingin er fyrir öllu og nálega öll velferð sveitabóndans undir henni komin, og svo aðsækni manna og fylgi við heyskapinn, einkum hinn fyrra part sláttarins; í harðærum, eins og nú lítur helst út fyrir, reynast sumrin einatt endaslepp.

Norðri greinir frá þrumuveðrum í frétt þann 14.júlí:

[Þann 1.júlí] að áliðnum degi kom hér dæmafá rigning, sem þó hélst aðeins á aðra klukkustund; heyrðust þá jafnframt yfir 30 reiðarþrumur, sem hér er sjaldgæft. Og aftur 9.[júlí] kom önnur regnsteypan, sem hélst nokkuð lengur en hin; heyrðust þá og 34 reiðarþrumur, eða fleiri, og með mörgum þeirra brá eldingum fyrir.

Norðri greinir frá heyskap í ódagsettu septemberblaði:

Grasvöxtur víða hvar í meðallagi og sumstaðar í túnum í besta lagi. Óþerrar hafa verið nokkrir, sem tálmað hafa heyskapnum að sumu. Heyskaðar hafa og hér og hvar orðið af stórviðrum sunnan útsunnan. ... Frönsk eða flandrenísk fiskiskúta, 14 lesta stór, hafði nú seint á engjaslættinum strandað í svonefndum Bakkakrók á Langanesströndum, var hún fermd fiski og búin til heimferðar, en norðanveður brast á, svo önnur festin, sem áveðurs var, hrökk í sundur, bar hana þá þegar á land og braut. Skútan var síðan með rá, reiða og farmi seld við opinbert uppboð. 

Þjóðólfur gerir sumarið upp í pistli þann 29.september:

Sumarið, sem þegar er liðið, hefir verið í mörgu tilliti erfitt og minnisstætt, einkum fyrir sunnlendinga; grasbrestur hefir verið almennur á túnum, svo að hér sunnanlands hefir taða almennt verið rúmum þriðjungi minni en vanalega; vallendi hefir verið þeim mun verr sprottið; og þó að mýrar hafi verið með meðalgrasi eður vel svo það, þá hefir vatnsfylling víðast meinað slátt á þeim, enda hafa hinar stöðugu rigningar og óveður, sem gengið hafa síðan fyrir höfuðdag, verið til hins mesta hnekkis fyrir allan engjaheyskap. Sóttin, sem gekk hér almennt bæði sunnanlands og norðan um aðalheyskapartímann, bagaði menn og mjög frá heyskap. Norðanlands hefir grasvöxtur verið betri, og veðráttan miklu hagstæðari yfir höfuð að tala, einkum fyrir norðan Skagafjörð, en þar og i Húnavatnssýslu hefir og verið rosasamt nokkuð, þó þerriflæsudagar hafi verið innan um. Vestanlands hefir þar i móti verið hið besta árferði með allt slag víst fram til ágústloka.

Jón Austmann segir þann 15.september: „Suðaustan stórstormur, gekk í útsuður e.m. [síðdegir] með einstakasta óveður“.

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

Í október frostamikið og snjólítið. 16. okt. skipti um með fönn og 21. (sunnudag í aukaviku) mikil hríð og fönn til útsveita og á láglendi, en minni til dalaanna og varð haustskorpa. Með nóvember linaði. Þíður hægar unnu seint á snjóinn, en gott veður á milli. 15.nóv.  byrjaði stöðug þíða, nótt og dag, með þurrviðri um 18 daga. Aftur vikuþíða fyrir jólin og snjólaust, frost og staðviðri á milli. Allri furðu gegndi, að með sunnanátt og þíðu rak hafís inn í sanda hér á Flóanum um miðja jólaföstu. Réðu honum straumar á þeim tíma, sem aldrei ber ís að landi. Hann lagði líka út um þorralokin, þá síst er von hann fari. Engin höpp fylgdu honum, en allt að þeim tíma var afli um veturinn.

Norðri segir í ódagsettu októberblaði:

Veðuráttufarið var hér nyrðra og eystra, hvað til hefur spurst, framan af mánuði þessum mikið stormasamt, helst sunnan útsunnan, en þaðan af til þessa norðanátt með snjókomu og hríðum svo ókleyf fönn er nú nær því um allar sveitir, og eins vestra, og ekki óvíða allur peningur, nema hross, kominn í hús og á hey. Fiskiafli hefur verið nokkur, en vegna stakra ógæfta, einkum á útkjálkum, sjaldróið. Hlutir eru því hæstir 1—4 hndr. Síld hefur heldur ekki aflast til beitu. Hákarlsafli svo að kalla enginn síðan í sumar. Að sunnan hefur frést, að í Skaftafells- og Rangárvallasýslum hafi í sumar grasvöxtur verið í betra lagi, einkum á deiglendri jörðu, en miklu miður á túnum og harðvelli, sér í lagi í Árnes-, Gullbringu- og Mýrasýslum, og nýting yfir höfuð mikið bág, víða hitnað til skemmda í heyjum og á stöku stað brunnið. Á Vesturlandi hefur grasvöxtur og nýting verið góð. Fiskilítið hafði verið austan með öllum söndum og eins um Suður- og Innnes, svo til vandræða horfði með bjargræði margra, af því líka að kornvörulaust var þar á flestum verslunarstöðum. Það hafði líka kaupskip eitt, nefnt „Waldimar", er fara átti til Eyrarbakka, nær því 70 lesta stórt, fermt 6—800 tunnum af mat og öðru, strandað þar á innsiglingu 14.[september] á skeri utan við höfnina og brotnað í spón, og mikið af farminum farist eða ónýst. Það sem náðist, var selt við uppboð. ... Í september hafði hvalbrot (miðpart) rekið í Mýrdal.

[Þann 20.október] voru meðal annarra staddir hér í bænum 4 menn handan úr Kaupangssveit, fyrrum hreppstjóri Jón Jónsson bóndi á Lórustöðum ... , Jón sonur hans um tvítugt, Stefán Kristjánsson frá Skálpagerði á 19. ári og Sæmundur Sæmundsson frá Gröf á 20. ári, höfðu 3 af þeim verið í fiskiróðri um daginn og ætluðu að flytja heim afla sinn hérum 100 af fiski á lítilli byttu. Hálfrökkvað var orðið og nokkur sunnangola; en þá þeir komu austur undir miðjan pollinn, skammt utan við leiruna, fór að hvessa og gefa á byttuna, ætluðu þeir þá að ausa, en þá var ekkert austurtrogið, tók þá Jón yngri vextan hatt af höfði sér og jós með honum. Jón bóndinn og Stefán sátu undir árum en Sæmundur aftur á. Ágjöfin varð þá svo mikil, að Jón hrökk ekki við að ausa, var þá farið að ryðja út fiskinum, en þá var byttan orðin svo full af sjó, að hún sökk þegar, komst Jón yngri, sem nokkuð er syndur, þrisvar eða oftar á kjöl, en hinir aldrei, og hafði þó Stefán verið miklu sundfærari en Jón, mikill fyrir sér og efnilegur. Loks fékk Jón byttunni komið á kjöl og bjargað sér upp í hana, kallaði hann þá sér hjálp, því svo var orðið myrkt, að ekkert sást til atburðar þessa úr landi; varð honum þá þegar manhjálp af kaupskipi, er lá hér á höfninni, og öðrum hér úr bænum. Sannast hér sem oftar: „Margur drukknar nærri landi“ -. Menn þessir eru enn ekki fundnir. Nýskeð hefur frést hingað, að 4 skip úr Landeyjum hafi farið kaupstaðarferð til Vestmannaeyja og þaðan aftur 29.[september] í land og fórust þar af tvö í lendingunni með 17 manna. Einum kvenmanni varð bjargað. [Frá þessu er líka sagt í Þjóðólfi 20.október]. Fyrsta skipið hafði hleypt upp og tók vel af, en hið seinasta sneri aftur fram til eyjanna, og er haldið að það hafi komist af. Í haust hafði skiptapi orðið með 5 mönnum, á eða frá Ólafsvík undir Jökli.

Norðri segir í ódagsettu nóvemberblaði:

Frá því á Allraheilagramessu hefir veðuráttan oftast verið sunnan og hagstæð með hlákum einkum síðan 16. [nóvember], svo kalla má að öríst sé orðið um flestar sveitir. Áður var orðið mjög hagskart vegna snjóþyngsla og spilliblota. ... Skiptapi hafði orðið í haust á Berufjarðarströnd með 2 mönnum sem voru í fiskiróðri, ... 9.[nóvember] hafði maður látist í snjóflóði, er var að ganga til fjár og hét Eiríkur Einarsson, merkisbóndi frá Þorgrímsstöðum í Breiðdal. [Í þessu sama blaði eru einnig minningarorð um Eggert Jónsson lækni og veðurathugunarmann á Akureyri, en hann lést eftir slæma byltu á hesti]. 

Þjóðólfur segir af veðurblíðu í pistli þann 8.desember:

Þó að næstliðið sumar og haust væri eitthvert hið erfiðasta með flest slag, þá bætir mikið úr því veðurblíða sú sem gengið hefir nú um rúmar 3 vikur og hefir náð svo langt sem frést hefir, bæði fyrir norðan og austan; er þetta mikil líkn fyrir sveitabændur, einkum hér sunnanlands, því hjá mörgum vilja nú reynast lítil hey, og þar til drepin og skemmd hjá mörgum, eftir hinar langvinnu sumar- og haustrigningar. Bæði skurðartíð og heimtur reyndust víðast með lakasta móti, einkum hér sunnanlands. — Fiskiafli hefir í haust verið lítill og tregur, það sem af er vertíð, um öll suður og innnes, nema á Akranesi; þar eru komnir að sögn um 800 hlutir af haustfiski.

Norðri segir í ódagsettu desemberblaði:

[Þann 4. desember] kom hingað í Akureyri norðanpóstur Vigfús Gíslason úr suðurgöngu sinni, hafði hann verið 48 daga í ferð þessari, veikst og legið rúmfastur á leiðinni suður, verið 10 daga um kyrrt í Reykjavík og farið þaðan 16. [nóvember] — Veðuráttufarið hafði verið líkt syðra og hér, nema ákafar rigningar, hvassveður og ógæftir. ... Matvælaskortur er sagður á öllum verslunarstöðum syðra, og það líka í sjálfri höfuðborg landsins. Í lausum fréttum hafði borist til Reykjavíkur að eldsumbrot eða eldsuppkoma væri í Kötlu, sem er einn hluti Eyjafjallajökuls, og nú hefur haldið kyrru fyrir í full 100 ár. — Á Vesturlandi hafði vel heyjast í sumar, og nýting verið góð. Fjárheimtur af fjöllum ekki góðar. Skurðarfé þar eins og allstaðar annarsstaðar um landið, hvaðan vér höfum frétt, reynst mjög rýrt, einkum á mör.

Hér norðanlands hefur verið allan þenna mánuð að kalla hagstæðasta veðurátt og rauð jörð um flestar sveitir svo sauðfé og hross hefur verið létt á fóðrum, þar sem ekki hefur gengið sjálfala.

Þann 5.desember kom hafís í Siglufjörð. 

Þjóðólfur segir þann 29.janúar 1856 frá tíð síðustu mánuði ársins 1855:

Árferðið hefir hina síðustu 3 mánuði ársins 1855 verið allstaðar um land hið æskilegasta og hagstæðasta sem menn til muna á þeim tímum árs, — yfir höfuð að tala frost- og snjólítil spakveður með auðri jörð; þessi kafli ársins varð því öllum sveitabændum hinn besti sumarauki, einkum hér á Suðurlandi, þar sem kalsa- og gróðurleysisvor tók við þegar vetrarhörkunum linnti, en sífelld votviðra- og rigningatíð oftar frá Jónsmessu og það fram í öndverðan október; þessi ótíð hér syðra,— fyrir norðan og austan og einkum fyrir vestan viðraði svo miklu betur — leiddi með sér grasbrest á túnum og harðvelli, víða mjög illa nýtingu, töluverðar heyskemmdir í görðum, og einstaklega illa nýtingu og þar af leiðandi almennan skort á eldivið.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1855. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 14. nóvember 2020

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040524c
  • w-blogg040524b
  • w-blogg040524a
  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 191
  • Sl. sólarhring: 284
  • Sl. viku: 1277
  • Frá upphafi: 2352236

Annað

  • Innlit í dag: 173
  • Innlit sl. viku: 1159
  • Gestir í dag: 168
  • IP-tölur í dag: 168

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband