Hitavik síðustu 40 ára - samanburður Íslands og Evrópu

Copernicus-verkefnið svokallaða fylgist náið með hitabreytingum á jörðinni - eins og þær koma fram í greiningum Evrópureiknimiðstöðvarinnar. Munur á greiningu þessari og raunveruleikanum er sáralítill á þessu tímabili (ein einhver samt - staðbundið). Auðvelt er að komast í hluta þessara gagna. Við skulum nú líta lauslega á hitaþróun í Evrópu síðustu 40 árin og bera saman við það sem gerst hefur á Íslandi.

Fyrsta myndin er endurberð línurits sem birtist mánaðarlega á vettvangi Copernicusar og synir 12-mánaða keðjumeðaltal hita í Evrópu frá 1979 til loka síðasta mánaðar (ágúst 2019 í þessu tilviki).

w-blogg070919a

Lárétti ásinn sýnir árin - en sá lóðrétti hitavik miðað við 1981-2010. Það er auðvitað óheppilegt að greiningin hefjist einmitt þegar kaldara var en verið hafði lengi. Hefur það umtalsverð áhrif á leitnireikninga. Allítarlega var fjallað um slíkt á hungurdiskum þann 26.janúar 2017. Þar var rýnt í íslenskar tökur og niðurstaðan sú að þó hlýnunarleitni síðustu áratuga sé mikil (meir en 4°C á öld) hefur hún verið enn meiri álíkalengi áður, á fyrri hluta 20. aldar og á fyrri hluta þeirrar 19. litlu minni en nú hefur verið. Lesendur eru hvattir til þess að lesa (eða rifja upp þennan pistil). 

Hlýnunin er engu að síður gríðarleg í Evrópu síðustu 40 árin [um 4,6 stig á öld] - en samt hafa töluverðar sveiflur verið í vikunum. Varla er hægt að segja að hiti hafi farið niður fyrir meðaltalið allt frá 1996. 

Svipað má segja um Ísland - við notum Reykjavíkurhitann sem dæmi.

w-blogg070919b

Reiknum við leitnina fáum við út risatölu, 4,9 stig á öld, en hún er þó ójafnari heldur en á meginlandinu - kannski tvö þrep, hið fyrra 1996, en hið síðara 2002 til 2004 - síðan hefur hiti ekki hækkað að ráði. 

Það er athyglisvert að sjá Evrópu- og Reykjavíkurtölurnar á sama línuriti (þó það sé pínulítið erfitt fyrir augun).

w-blogg070919

Grái ferillinn sýnir evrópuvikin, en sá græni þau í Reykjavík. Hlýnunin er svipuð - örlítið meiri í Reykjavík - en ómarktækt. Þegar við horfum á smáatriði ferlanna kemur í ljós að mjög oft standast jákvæð vik í Evrópu á við neikvæð í Reykjavík og einnig öfugt. Að baki því liggur aflfræðilegt eðli veðrakerfisins. - En ef við reynum að reikna slíkt samband út beint úr þessum gögnum drekkir hin gríðarlega sameiginlega hlýnun því - hún er annars eðlis. Til að reikna þyrftum við að nema leitnina á brott áður (það er auðvelt, en við sleppum því hér).

Leitni hefur einnig verið mikil á heimsvísu á þessum tíma, um 1,8°C á öld. Fyrst hún er svona mikið meiri í Evrópu hlýtur hún að hafa verið minni annars staðar - sem er raunin. Þó trúlegt sé að heimshlýnun haldi áfram, annað hvort af svipuðum eða auknum þunga, næstu 40 árin væri með miklum ólíkindum ef hlýnunin í Evrópu og hér á landi héldi áfram eins og verið hefur á sama tíma. En ritstjóri hungurdiska hefur svosem sagt eitthvað ámóta áður - og hlýnunin mikla bara haldið sínu striki þrátt fyrir það. Það er líka hugsanlegt að við fáum að sjá fleiri og stærri skammvinn „umframskot“ þá með alllöngum tímabilum á milli þegar hiti virðist standa í stað eða jafnvel lækka lítillega. Skemmtilegt gamalt dæmi um slíkt skot var árið 1880 þegar hiti fór 1,7 stig fram úr meðalhita næstu tíu ára á undan í Reykjavík, samsvarandi því að 12-mánaða hiti nú færi í 7,1 stig, 0,5 stigum hærra heldur en hlýindaskotið 2003 - en það var 1,9 stig umfram meðalhita síðustu 10-ára. Hitaskot sem þessi eru sum sé hluti af íslensku veðurfari - við þekkjum fáein. 

Lítum að lokum á 12-mánaða vikamun Evrópu og Reykjavíkur á mynd.

w-blogg070919d

Hér er engin regla (eða lítil). Neðri hluti myndarinnar sýnir skeið þegar kaldara var í Reykjavík (að tiltölu) heldur en á meginlandinu, en efri hlutinn hið öfuga. Leitnin er nánast engin. 


Bloggfærslur 7. september 2019

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg300625a
  • w-blogg280625a
  • w-blogg270625a
  • Slide11
  • Slide13

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.7.): 28
  • Sl. sólarhring: 757
  • Sl. viku: 2652
  • Frá upphafi: 2481023

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 2320
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 28

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband