Stundum sleppum við vel

Þó heldur kalt hafi verið undanfarna daga, sérstaklega um landið norðaustanvert, er samt ekki hægt að segja að illa hafi farið - en litlu munar. Ritstjóri hungurdiska hefur stöku sinnum minnst á það sem hann (en enginn annar) kallar „þverskorna kuldapolla“. Sá sem við sjáum á kortinu hér að neðan er að vísu ekki mjög öflugur - og kannski ekki alveg fullkominn að gerð heldur - en samt.

w-blogg110519b

Þetta kort evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir á miðnætti síðastliðna nótt (aðfaranótt laugardags 11.maí). Háloftalægð - (kuldapollur) er fyrir norðaustan land. Litirnir sýna hér hæð 500 hPa-flatarins (ekki þykktina), en jafnþrýstilínur sjávarmálsþrýstings eru heildregnar. Eins og sjá má liggja þær um kuldapollinn þveran. Ekki sérlega öflugt kerfi - en nægir samt til þess að búa til leiðindaveður fyrir norðaustan land í dag (laugardag).

w-blogg110519a

Hér má sjá spá reiknimiðstöðvarinnar fyrir sjávarmálsþrýsting, vind og úrkomu sem gildir kl.18 síðdegis í dag, laugardag. Mikil leiðindi á ferð vestan og suðvestan við Jan Mayen, í nótt á brúnin á þessu veðri rétt að strjúka norðausturströndina - en svo virðist sem við sleppum annars vel. Stormur og mikið hríðarveður er í norðvestanáttinni - alvöru vorhret - sem við hefðum fengið á okkur hefðu kerfi og þróun verið um 500 km sunnar en reyndin er. 

Tilviljun ræður hér mestu - við fáum svona veður auðvitað yfir okkur endrum og sinnum á þessum árstíma - en segjum nú bara „sjúkk“. 


Fyrsti þriðjungur maímánaðar

Fyrsti þriðjungur maímánaðar er nokkru kaldari heldur en allur apríl. Í Reykjavík munar þó ekki miklu. Meðalhiti fyrstu tíu dagana er þar 6,1 stig, +1,4 stigum ofan meðallags sömu daga áranna 1961-1990 og +0,5 ofan meðallags síðustu tíu ára. Hiti dagana tíu raðast í áttundahlýjasta sæti af 19 á öldinni. Hlýjastir voru dagarnir tíu árið 2011, meðalhitinn var 8,6 stig, en þá kólnaði svo um munaði síðari hluta mánaðarins - eins og sumir muna vel. Kaldastir voru dagarnir tíu árið 2015, meðalhiti 1,7 stig. Á „langa listanum“ er hitinn nú í 46. til 47. sæti (af 142). Hlýjastir voru sömu dagar 1939, meðalhiti 9,1 stig, en kaldastir voru þeir 1979, meðalhiti -1,0 stig.

Að tiltölu hefur verið mun kaldara um landið norðanvert heldur en syðra. Meðalhiti á Akureyri er aðeins 3,4 stig, þó ekki nema -0,1 stigi neðan meðallags 1961-1990, en aftur á móti -1,6 neðan meðallags síðustu tíu ára.

Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á tæplega þriðjungi veðurstöðva, mest er jákvæða vikið á Keflavíkurflugvelli, +1,2 stig, en neikvætt vik er mest á Gagnheiði, -3,2 stig og -2,6 stig á Egilsstaðaflugvelli.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 10,2 mm, það er ríflega helmingur meðalúrkomu. Aðeins 0,7 mm hafa mælst á Akureyri um tíundihluti meðalúrkomu. Kulda sem þessum fylgja oft hríðarveður norðanlands, en ekki er hægt að tala um slíkt nú (enn að minnsta kosti). Loftþrýstingur hefur verið hár, aðeins tíu sinnum verið meiri sömu daga svo vitað sé (síðast 2010).

Sólskinsstundir hafa mælst 72,5 í Reykjavík, það er í ríflegu meðallagi.


Bloggfærslur 11. maí 2019

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg020725c
  • w-blogg020725b
  • w-blogg020725a
  • w-blogg300625a
  • w-blogg280625a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.7.): 172
  • Sl. sólarhring: 347
  • Sl. viku: 2891
  • Frá upphafi: 2481645

Annað

  • Innlit í dag: 163
  • Innlit sl. viku: 2568
  • Gestir í dag: 160
  • IP-tölur í dag: 157

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband