Vestanáttarrýðin virðist halda áfram

Eins og fram hefur komið hér á hungurdiskum áður hefur vestanáttin verið heldur rýr í roðinu á seinni árum - þó henni hafi auðvitað brugðið fyrir mánuð og mánuð - eða jafnvel tvo til þrjá í einu (eins og veturinn 2015 og vorið 2018). Við byrjum pistil dagsins á því að líta snöggt á stöðuna um þessar mundir, en horfum svo á „þróun“ undanfarinna ára. Ritstjóranum er þó ekki sérlega vel við að nota orð eins og þróun - því flest tekur enda í veðráttunni. Textinn hér að neðan er heldur þungur undir tönn - og varla við hæfi nema fárra. 

w-blogg111119a

Norðurhvelskortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins síðdegis miðvikudag 13.nóvember (evrópureiknimiðstöin spáir). Jafnhæðarlínur eru heildregnar, af þeim ráðum við styrk og stefnu vinda í miðju veðrahvolfi. Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Á miðvikudaginn verður fremur svöl norðanátt yfir Íslandi. Þykktin í kringum 5200 metra, meðaltal nóvembermánaðar er um 5280 metrar - því má gera ráð fyrir að hiti verði um 3 til 4 stigum neðan meðallags - minna við sjóinn - meira inn til landsins. 

Fyrir suðvestan Grænland er mikil vindstrengur, dýpkandi lægð sem virðist stefna í átt til landsins og á samkvæmt spám að koma hér seint á fimmtudag og ráða veðri fram á helgina. Svo virðist sem vestanátt nái sér þá á strik um stund - jafnvel með snjókomu eða éljagangi. En þrátt fyrir það eru spár ekkert sérstaklega á því að sú vestanátt endist að neinu ráði því hún hefur engan stuðning af hlýju lofti í suðri - og ekki heldur teljandi stuðning af kuldapollum norðurslóða. 

Á kortinu eru merktir tveir sporöskjulega hringir - á slóðum þess nyrðra hafa minniháttar háloftahæðir og hryggir haldið til að undanförnu - fyrirstaða án þess að um hefðbundna hæðarfyrirstöðu hafi verið að ræðs. Þessir hæðarhryggir hafa lengst af haldið norðankuldanum frá okkur - og líka orðið til þess að lægðir hafa að mestu haldið sig suður af landinu. Syðri hringurinn er utanum vestanvert Miðjarðahaf. Þar hefur í mestallt haust verið eins konar grafreitur lægðanna sem farið hafa fyrir sunnan okkur - með ódæmarigningum bæði á austanverðum Spáni, í Frakklandi og víðar. 

Svo virðist sem á þessu verði litlar grundvallarbreytingar - austlægu áttirnar haldi undirtökunum þó vestanátt bregði fyrir dag og dag. Langtímaspár - líka þær sem ná til nokkurra mánaða hafa bent til þess sama. Einungis hafur verið mismunandi hvort lægðabrautum er spáð nærri landinu eða langt suður í höfum. Enginn möguleiki er að sjá hvenær þessu ástandi lýkur. 

w-blogg111119b

Línuritið sýnir 12-mánaða keðjumeðaltöl styrks vestanáttar í 500 hPa yfir Íslandi. Það sem vekur athygli er að styrkurinn hefur nú verið undir meðallagi áranna 1961 til 1990 í nærri 7 ár samfellt (rauða strikalínan sýnir meðaltalið). Vestanáttin þráláta vor og snemmsumars 2018 hefur ekki dugað til að koma árinu upp í meðallag. Vestanáttin hefur verið sérlega veik síðustu 12 mánuði. 

Þykktarbrattinn á sama svæði (hitamunur í neðri hluta veðrahvolfs á milli 60. og 70.breiddarstigs) hefur einnig farið minnkandi. Þá þróun má sjá á línuritinu hér fyrir neðan. 

w-blogg111119c

Hefur ekki náð meðallagi áranna 1961 til 1990 nú í nærri 6 ár. Það eru um 6 H-einingar í hverri gráðu munar. Á árunum 1961 til 1990 munaði um 6 stigum á hita neðri hluta veðrahvolfs á 60. og 70. breiddarstigi (auðvitað kaldara fyrir norðan), en síðustu árin hefur munurinn ekki verið nema 5 stig að meðaltali. Þetta er auðvitað í takt við mikla hlýnun norðurslóða á þessari öld - þar hefur hlýnað meir en hér sunnar - og þess sem spáð er um framtíðarveðurlag.  

Þann 4.nóvember 2011 birtist pistill hér á hungurdiskum um sama efni - nema þar var litið á lengra tímabil (1949 til 2011). Þeir sem vilja geta litið á hann hér og nú. Þar sagði meðal annars:

„Reiknuð leitni er örlítið niður á við frá upphafi til enda tímabilsins. Ekki segir það neitt um framtíðina frekar en venjulega - en ætli sé samt ekki líklegt að vestanáttin hressist á næstu árum og tíðni skakviðra og skíts aukist frá því sem verið hefur næstliðin 10 ár eða svo“. 

Gallinn er bara sá að víð bíðum enn eftir því að vestanáttin hressist. Biðin fer að taka í - „... en ætli sé samt ekki líklegt að vestanáttin hressist á næstu árum og tíðni skakviðra og skíts aukist frá því sem verið hefur ... “.


Fyrstu tíu dagar nóvembermánaðar

Og þriðjungur nóvembermánaðar sviptist hjá. Meðalhiti hans í Reykjavík er 3,0 stig, +0,7 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en -0,3 neðan meðallags síðustu tíu ára. Hiti dagana tíu er í 14.hlýjasta sæti (af 19) á öldinni í Reykjavík, en í því 54. á langa listanum (144 ár). Hlýjastir voru dagarnir tíu árið 1945, meðalhiti hvorki meira né minna en 8,2 stig, en kaldastir voru dagarnir tíu árið 1899, meðalhiti -4,0 stig.

Á Akureyri er meðalhiti dagana tíu -0,5 stig, -1,3 neðan meðallags 1961-1990, en -2,0 neðan meðallags síðustu tíu ára.

Þetta er næstkaldasta nóvemberbyrjun aldarinnar á Austurlandi að Glettingi, en hlýjast að tiltölu hefur verið á Vestfjörðum, þar er hitinn í 11.hlýjasta sæti aldarinnar.

Á einstökum veðurstöðvum hefur verið hlýjast að tiltölu á Hornbjargsvita, vikið þar miðað við síðustu tíu ár er +0,7 stig, en kaldast að tiltölu hefur verið á Sauðárkróksflugvelli, -3,8 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 18,9 mm og er það nokkru minna en í meðalári, á Akureyri hefur úrkoman mælst 3,2 mm, með minna móti.

Sólskinsstundir hafa mælst 14,5 það sem af er mánuði í Reykjavík og er það nærri meðallagi.


Bloggfærslur 11. nóvember 2019

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg040725a
  • w-blogg020725c
  • w-blogg020725b
  • w-blogg020725a
  • w-blogg300625a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.7.): 351
  • Sl. sólarhring: 447
  • Sl. viku: 2527
  • Frá upphafi: 2482218

Annað

  • Innlit í dag: 334
  • Innlit sl. viku: 2237
  • Gestir í dag: 325
  • IP-tölur í dag: 324

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband