Vel eða illa?

Stundum er árferði þannig að lítið verður úr öllu veðri - sama hversu illa það lítur út - illviðra og öfgaspár rætast nær aldrei. Þannig hefur það nú verið lengi. En stundum á hið gagnstæða við - illt verður úr flestu, og verður jafnvel verra en spáð er. Þannig stendur á þegar þetta er skrifað (seint á föstudagskvöldi 18.október) að reiknaðar spár virðast sammála um að í næstu viku gangi mjög snarpt kuldakast yfir landið. Spárnar hafa reyndar heldur linast á hvassviðrinu frá því að kastið kom fyrst fram - dæmigert fyrir góða árferðið, en enn hafa þær ekki linast á kuldanum. Ritstjóranum finnst samt ekki ólíklegt að þær geri það líka þegar nær dregur. 

En við lítum lauslega á stöðuna.

w-blogg191019a

Kortið er úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir síðdegis á sunnudag 20.október. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar. Af þeim ráðum við vindátt og vindstyrk í rúmlega 5 km hæð, en þykktin er sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því minni sem hún er því kaldara er loftið. Gulu litirnir sýna að mjög hlýtt loft úr suðri leitar til norðurs á Grænlandshaf, en kalt loft kemur úr norðvestri og síðar norðri. Þessir andstæðu loftstraumar mætast í námunda við landið.

Í illu ári myndi illa fara, mikil lægðadýpkun, mikill vindur, mikil úrkoma (rigning og síðar snjór), en í góðu árferði hittir ekkert í, hlýtt loft og kalt fara á mis. Síðari möguleikinn virðist sá sem tískan fylgir nú (en við erum samt aldrei alveg viss) - en lægðin veldur samt norðanátt og ískalt heimskautaloft steypist til suðurs yfir landið seint á mánudag - og svo áfram næstu daga. 

Kuldinn á að ná hámarki á miðvikudag og fimmtudag. Kortið hér að neðan sýnir spána fyrir miðvikudagskvöld.

w-blogg191019b

Litirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum, -12 til -15 stig yfir landinu. Ekki alveg met í október, en býsna kalt samt. Það er 5080 metra jafnþykktarlínan sem liggur yfir landið þvert. Það er ekki oft sem þykktin er svona lítil yfir landinu í október. Ritstjóranum sýnist í fljótu bragði að fara þurfi aftur til 1971 til að finna jafnlága októbertölu yfir Keflavíkurflugvelli. 

En svona kuldaspár hafa oft sést án þess að raunveruleikinn hafi tekið mark á þeim. Hvort svo fer nú vitum við ekki - og svo er því líka spáð að þetta gangi fljótt yfir. Spár á spár ofan - alltaf einhver skemmtan.   


Bloggfærslur 19. október 2019

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg130925-ak-a
  • w-blogg130925a
  • w-blogg130925b
  • Slide8
  • Slide7

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.9.): 5
  • Sl. sólarhring: 222
  • Sl. viku: 1480
  • Frá upphafi: 2498000

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 1341
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband