Afskaplega óstöðugar framtíðarspár

Það eru ekki ný tíðindi að framtíðarspár séu óstöðugar. Eins og minnst hefur verið á hér á þessum vettvangi áður hafa lengstu spár að undanförnu verið stöðugt að gefa til kynna myndun háþrýstisvæðis í námunda við Ísland - eða þá yfir Grænlandi. Einhvern veginn hefur samt lítið orðið úr slíku og þessi háþrýstisvæði alltaf dottið út þegar nær dregur. Þunginn í þessum spám hefur þó á heildina litið farið vaxandi og virðast evrópskar veðurstofur almennt gera ráð fyrir kuldum í Evrópu á næstunni - og úrkomutíð við austanvert Miðjarðarhaf. 

Spár eru hins vegar afskaplega óstöðugar. Við lítum til gamans á fjórar þeirra og sýna þær hæð 500 hPa-flatarins og þykktina og gilda allar um hádegi á fimmtudag í næstu viku (24.janúar) - myndin verður skýrari við stækkun (og svo er hún líka í viðhenginu).

w-blogg160119a

Í efra vinstra horni er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar frá því síðdegis í gær, þriðjudag. Þá er risin upp risastór fyrirstaða við Ísland - með tilheyrandi hlýindum hér á landi (alla vega tímabundnum). Vonskuveðri - óvenjuskæðu - er spáð á sunnanverðu Englandi og í Norður-Frakklandi. Væntanlega hafa ýmsir hrokkið við þegar þeir sáu þessa spá. 

En næsta spá reiknimiðstöðvarinnar - sú sem send var út snemma í morgun sýnir allt annað ástand við Ísland - mikla (og hlýja) sunnanátt með bleytu. Fyrirstöðuhæðin er orðin að hrygg sem fer allhratt til austurs - en kaldara loft sækir að úr vestri. Kuldapollurinn Stóri-Boli í ólíkri stöðu á þessum tveimur myndum - báðum úr sama líkani en með aðeins 12-klukkustunda upphafstíma. 

Neðri myndirnar tvær sýna tvær Bandarískar spár, sú til vinstri er sú frá því kl.6 í morgun. Hún er ekki mjög ólík miðnæturspá reiknimiðstöðvarinnar - nema hvað kuldapollurinn Stóri-Boli er mun meira ógnandi. Spáin í neðra hægra horni sýnir spá bandarísku veðurstofunnar frá því á miðnætti (sama tíma og reiknimiðstöðvarspáin þar fyrir ofan). Kalda loftið úr vestri er hér enn nær - og fyrirstaðan mikla ekki sjáanleg. 

Kuldarnir á Englandi eru horfnir að mestu úr nýju spánum. Aftur á móti standa spár um nokkra kuldatíð á meginlandi Evrópu áfram og sömuleiðis þær sem benda til úrkomu við Miðjarðarhaf. 

Þetta sýnir okkur vel að varlegt er að treysta langtímaspám - alla vega þegar miðað er á ákveðna daga. En enn vitum við ekkert um það hvort fyrirstaðan mikla kemur til með að sýna sig - vel má það vera - það er enn nægur tími fram í næstu viku (margar reikniumferðir miðstöðvanna) og síðan allur febrúar og mars.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrri hluti janúarmánaðar

Nú má segja að hálfur janúar sé liðinn (eða nærri því). Meðalhiti í Reykjavík er +3,6 stig, +4,1 stigi ofan meðallags sömu daga 1961-1990, en +2,7 ofan meðallags síðustu tíu ára og eru dagarnir 15 þeir þriðjuhlýjustu á öldinni (af 19), lítillega hlýrra var 2003, en nokkru hlýrra 2002 (+4,2 stig). Kaldastir á öldinni voru sömu dagar 2005. Á langa, 144-ára listanum, er mánuðurinn í 9. til 10. hlýjasta sæti. Hlýjast var 1972, meðalhiti +5,9 stig, en kaldastur var fyrri hluti janúarmánaðar árið 1918, meðalhiti -9,5 stig.

Á Akureyri er meðalhiti dagana 15 +2,7 stig, +4,9 stigum ofan meðallags 1961-1990, en +3,4 stig ofan meðallags síðustu tíu ára.

Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára um land allt, mest er jákvæða vikið við Upptyppinga, +4,1 stig, en lægst í Seley, +0,7 stig.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 47,4 mm, það er í ríflegu meðallagi, en á Akureyri hefur hún mælst 19,8 mm, rétt undir meðallagi fyrri hluta janúar.

Sólskinsstundir hafa aðeins mælst 2,9 í Reykjavík. Það er lítið, en hefur verið minna sömu daga meir en 30 sinnum síðustu 100 árin rúm.


Bloggfærslur 16. janúar 2019

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 139
  • Sl. sólarhring: 409
  • Sl. viku: 1964
  • Frá upphafi: 2350700

Annað

  • Innlit í dag: 132
  • Innlit sl. viku: 1760
  • Gestir í dag: 131
  • IP-tölur í dag: 130

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband