Hreinsar frá?

Þegar þetta er ritað er enn eitt landsynningsillviðrið um það bil í hámarki um landið vestanvert. Mjög hvasst er víða og sömuleiðis gríðarleg úrkoma - (mismikil þó eins og gengur). Lægðin sem veldur er um 940 hPa í miðju, en rúmlega 1040 hPa hæð yfir norðanverðri Skandinavíu heldur á móti. Það er forn þumalfingurregla að birtist 16 jafnþrýstilínur eða fleiri á sama norðuratlantshafskortinu sé þar einhvers staðar fárviðri. - Nú eru þær um tuttugu. 

En lægðin grynnist hratt til morguns og hörfar - hæðin styrkist að vísu og leitar til vesturs - en morgundagurinn, laugardagur 24. febrúar, virðist þó ætla að verða skárri en dagurinn í dag. Kuldaskil lægðarinnar eiga að komast alveg austur fyrir land síðdegis. 

En hæðin vill sitt - áhrifasvæði hennar er austan við skilin og eigi hún að ná völdum hér verður hún að senda þau vestur fyrir aftur - eða að minnsta kosti að skera þau í sundur. Reiknimiðstöðvar hafa verið nokkuð ósammála um smáatriði þeirrar sóknar en kortið hér að neðan sýnir tillögu evrópureiknimiðstöðvarinnar um stöðuna um hádegi á sunnudag (25. febrúar).

w-blogg230218a

Sé eitthvað að marka þetta er sunnanveðrið um það bil að ganga aftur. Líkur eru þó á að það verði talsvert linara en það var í dag og að mesta úrkoman fari vestan við land. - En það er sum sé ekki alveg búið. Svo gætu smáatriði í framhaldinu orðið skemmtileg. Reiknimiðstöðin segir þessi skilaátök nefnilega eiga að halda áfram - allt þar til á fimmtudag í næstu viku. Hádegisspárunan í dag segir skilin þá koma enn aftur - úr norðri og töluverðan kuldaþræsing í kjölfarið. Ekki er þó víst að hægt verði að halda þræði í þeirri sögu allri. 

En hæðin á að fara yfir 1050 hPa á mánudag og þriðjudag. Háloftahæðin yfir (sem stjórnar) verður þó farin að laumast vestur á bóginn - verður á sunnudag við Færeyjar, við austanvert Ísland á þriðjudag, komin til Suður-Grænlands á fimmtudag og um næstu helgi langt vestur í Ameríku. Fari svo opnast brautir norðlægra og kaldra vinda til Íslands.

En lítum til Evrópu. Mikill kuldi streymir þar til vesturs frá Síberíu.

w-blogg230218b

Kortið sýnir stöðuna síðdegis á sunnudag - einmitt í þann mund sem sunnanveðrið snýr aftur til okkar. Litirnir sýna þykktina - í svalri sumarstöðu hér á landi - kuldinn leikur hins vegar um mestalla Evrópu - og á eftir að fara vestar.

Það er þægilegt að fylgjast með hita með því að skoða breytingar á þykktarkortum því þykktin er lítt trufluð af landslagi og hinir stóru drættir sjást mjög vel. Aftur á móti verðum við ætíð að hafa í huga að þó gott samband sé á milli þykktar neðri hluta veðrahvolfs og hita í mannheimum víkur oft nokkuð frá. 

Loft sem streymir yfir snævi þakið land hlýnar lítt og þannig er því varið með Síberíuloft sem kemur til Evrópu beint úr austri eða norðaustri. Hiti neðst í veðrahvolfinu hefur tilhneigingu til að vera lægri heldur en almennar þykktarþumalfingursreglur segja til um. Hiti á kalda svæðinu á kortinu er því trúlega lægri en hann væri við sömu þykkt hér við land. 

Hér á landi er (oftast) kaldara í norðanátt heldur en í vestanátt við sömu þykktartölur. Nóg um það.

Vísindamenn gerðu sér grein fyrir sérkennum austankuldans í Evrópu þegar á 18. öld og töluðu um kaldan, mjóan ás sem geti teygt sig allt til suðvesturhluta Pýrenneaskaga - jafnvel með samtímahlýindum í Skandinavíu og óróa við Miðjarðarhafið. - Ritstjóri hungurdiska minnist þess að hafa einhvern tíma séð kuldaásinn teygja sig allt suðvestur til Kanaríeyja frá Rússlandi - en vonandi sleppa eyjarnar nú.

Aftur á móti senda reiknimiðstöðvar þykktina á Bretlandi niður undir 5000 metra - slíkt er óvenjulegt þar um slóðir (og kannski ólíklegt að af verði) - hún fer ekki svo neðarlega hér á landi á hverjum vetri. Íslandsmetið (á tíma áreiðanlegra háloftamælinga) er um 4900 metrar - svipað og sjá má í fjólubláa blettinum yfir Rússlandi á kortinu (ekki svo mjög óalgeng þykkt þar um slóðir). 


Hvernig verður með hæðina?

Spár virðast nú nokkuð sammála um að hæð úr austri muni ná undirtökum í veðrinu hér á landi (og víðar) á næstunni - reyndar fer áhrifa hennar að gæta að einhverju leyti strax um helgina. En reiknimiðstöðvar eru samt ekki sammála um hvernig verður með hana - hvort hún kemur okkur að gagni í baráttunni við ótíðina - eða hvort hún verður bara einn ótíðarvaldurinn í viðbót. 

Lítum á meðalspá evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir næstu viku - mánudag 26. febrúar til sunnudags 4. mars.

w-blogg220218a

Hér er flest á haus miðað við það sem verið hefur að undanförnu. Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins alla vikuna, daufu strikalínurnar þykktina, og litirnir þykktarvikin. Þykktin mælir sem kunnugt er hita í neðri hluta veðrahvolfs. Bláu litirnir sýna hvar henni er spáð undir meðallagi - jökulkalt ætti eftir þessu að verða á meginlandi Evrópu og vestur um Bretlandseyjar - alveg óvenjukalt reyndar, en aftur á móti er spáð óvenjulegum hlýindum vestan Grænlands - þar sem verið hefur sérlega kalt upp á síðkastið - í ríki kuldapollsins Stóra-Bola (gulir, brúnir og bleikir litir). - Hann hefur hér greinilega verið hrakinn úr sæti sínu. 

Kuldaöxullinn sem liggur vestur yfir Evrópu er ekki mjög breiður - einskonar fingur vestur úr kuldapollinum Síberíu-Blesa. Spár eru ekki sammála um nákvæma legu hans. Sumar senda mesta kuldann til vesturs yfir Suður-Noreg - norðmenn þola hann betur en aðrir og kvarta minna (sumir fagna meira að segja) - aðrar leggja áherslu á Þýskaland, Bretland eða Frakkland - fáir vanir slíku í síðarnefndu löndunum tveimur og verði úr mun mikið verða kveinað. Fari kuldinn syðstu leið - suður við Alpa eða þar sunnan við verður loftið mjög óstöðugt og hlaðið raka úr hlýju Miðjarðarhafi - ávísun á vandræði af ýmsu tagi. 

Ísland er inni á hlýja svæðinu. Höfum þó rækilega í huga að hér er um meðaltal heillar viku að ræða - og ekki víst að upphaf hennar eða endir verði með sama hætti. En veðurlag undir hæð sem þessari er venjulega hagstætt - hæglátt og fremur hlýtt - kaldara þó inni í sveitum þar sem að jafnaði er svalt í bjartviðri. 

Þetta væru harla kærkomin umskipti fyrir flesta. En hvað svo? Við sjáum hér meðaltal 50 spáa - hver þeirra er með sínum hætti og sumar þeirra sýna leiðinlega galla í hæðinni - jafnvel kulda og snjókomu. Við skulum því ekki vera allt of viss.

Það væri samt æskilegt að 500 hPa-flöturinn héldist hár áfram - stæði fyrir vondum lægðum. Vel má hins vegar vera að hæðin haldi áfram til vesturs - og þá opnast fyrir norðanáttir - jú, Stóri-Boli er þarna - aðeins veiklaður að vísu en hrakinn, skipreika og í slæmu skapi. Vonandi finnur hann þá ekki laust sæti nærri okkur þegar hæðin er komin vestur af. 


Bloggfærslur 23. febrúar 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 226
  • Sl. viku: 1927
  • Frá upphafi: 2350796

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 1721
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband