Fremur hlýir dagar

Síðustu dagar hafa verið fremur hlýir á landinu miðað við árstíma en marka engin tíðindi - dagar sem þessir eru nokkuð algengir í nóvember. Slatti af dægurmetum hefur þó fallið á einstökum veðurstöðvum - ekki þó á neinum sem starfræktar hafa verið lengi nema hvað slík met hafa fallið á fáeinum hálendisstöðvum, t.d. í Jökulheimum og í Setri. - En komi hlýir dagar fellur alltaf eitthvað af stöðvadægurmetum.

Þó hlýindi verði e.t.v. ekki alveg samfelld áfram er þó ekki að sjá neina verulega kulda í kortunum. Hér að neðan má sjá spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og hæðarvik næstu viku, dagana 12. til 18.nóvember - og reiknimiðstöðin segir að líkur séu á svipuðu ástandi í vikunni þar á eftir líka.

w-blogg091018b

Eins og sjá má verður sunnanáttin í háloftunum mun öflugri heldur en venja er til, mjög jákvæð vik eru austan við land, en neikvæð suðvestur af Grænlandi. Nokkur lægðarsveigja er á jafnhæðarlínunum og bendir hún til þess að úrkoma verði töluverð. En þetta er meðalkort fyrir heila viku og eins og venjulega rétt að hafa í huga að væntanlega bregður út af þessari almennu stöðu einstaka daga - e.t.v. með kaldara veðri.

Til gamans lítum við líka á sams konar kort - en fyrir nóvembermánuð allan fyrir 50 árum. Sá mánuður var að tiltölu hlýjastur allra mánaða áranna 1966 til 1971 - ágæt áminning um að hlýir mánuðir geta skotist inn á köldum tímabilum sé staða háloftavinda nægilega afbrigðileg. Á sama hátt geta mjög kaldir mánuðir sýnt sig á hlýjum tímum.

w-blogg091018a

Hér má sjá stöðu sem ekki er ósvipuð þeirri sem spáð er í næstu viku - hér er þó um heilan mánuð að ræða og mjög óvíst að núlíðandi nóvember nái einhverju viðlíka í heild - líkur eru heldur gegn því (en aldrei að vita). 

Tíð í nóvember 1968 fær góða dóma í Veðráttunni tímariti Veðurstofunnar (en það er aðgengilegt á timarit.is). Hörmulegt sjóslys varð við suðurströndina, en ritstjóri hungurdiska hefur ekki flett upp á hvaða hátt veður kom þar við sögu. Rigningar ollu skriðuföllum austanlands:

Tíðarfarið var hlýtt og hagstætt lengst af. Tún voru mikið til græn, og blóm sprungu út í görðum. Fé gekk úti og var lítið eða ekkert gefið. Færð var yfirleitt góð.

Skaðar. Þ.10. fórst vélskipið Þráinn undan Mýrdalssandi og með því 9 manns. Í stórrigningunum þ. 12. og 13. urðu miklar skemmdir víða austanlands á svæðinu frá Borgarfirði eystra að Hornafirði. Vegir urðu víða ófærir sökum skriðuhlaupa, og brýr og ræsi skemmdust. Tvær skriður féllu á hús í Norðfirði, og varð fólk að flýja úr húsum þar. Vegaskemmdir urðu einnig á Héraði, og í Fljótsdal urðu nokkrir fjárskaðar, og skriður féllu á tún. Víða var símasambandslaust.

Við lítum líka á sjávarhitavika- og hafískort frá nóvember 1968 - úr fórum evrópureiknimiðstövðvarinnar. Ekki ljóst hversu áreiðanleg vikakortin eru.

w-blogg091018c

Þetta er ólíkt því sem nú er. Mesta athygli vekur auðvitað ísmagnið við Austur-Grænland - ísþekjan nær hér alveg til Jan Mayen. Nú er nánast enginn ís á öllu þessu svæði - nema rétt við strendur Norðaustur-Grænlands. Íss er ekki getið hér við land í nóvember 1968, en hann var ekki langt undan í desember. Á útmánuðum 1969 er talið að flatarmál austurgrænlandsíssins hafi náð milljón ferkílómetrum, það mesta eftir 1920. Fyrir 15 árum var meðaltalið komið niður í helming þess og á síðustu árum hefur ísmagnið verið enn minna.

Í nóvember 1968 voru mjög væg jákvæð sjávarhitavik sunnan við land, en kalt var langt suður í hafi og fyrir norðan. 

Vonandi að vel fari með nú.


Bloggfærslur 9. nóvember 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg130925-ak-a
  • w-blogg130925a
  • w-blogg130925b
  • Slide8
  • Slide7

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.9.): 133
  • Sl. sólarhring: 135
  • Sl. viku: 1879
  • Frá upphafi: 2498590

Annað

  • Innlit í dag: 121
  • Innlit sl. viku: 1702
  • Gestir í dag: 108
  • IP-tölur í dag: 107

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband