Landsynningsillviðri - í Alaska

Á morgun (föstudag) gerir landsynningsillviði í suðvestan- og vestanverðu Alaska. Ekki óvenjulegt beinlínis en gott dæmi samt um að slík veður herja víðar en hér á landi.

w-blogg211217a

Myndin sýnir spá bandarísku veðurstofunnar fyrir Kyrrahaf norðanvert og gildir hún síðdegis á morgun, föstudag 22. desember (að okkar tíma). Kortið nær frá Kína og Kóreuskaga til vinstri og allt til Kaliforníu til hægri. Norðurskaut við efri jaðar þess. 

Kuldapollurinn mikli, sá sem við höfum valið að kalla Síberíu-Blesa, situr á sínum uppáhaldsstað - nokkuð öruggur í bili, en gríðarleg norðursókn hlýinda yfir Alaska stefnir til norðurskauts. Jafnhæðarlínur eru heildregnar og við sjáum sterka suðaustanátt yfir Alaska vestanverðu. Þykkt er sýnd í lit og auðvelt að sjá að þykktarsviðið er mjög flatt undir Alaskavindstrengnum (sami litur breiðist yfir vindstrenginn). Þetta bendir til þess að undir heimskautaröstinni sé vindhes í átt til jarðar. Staða sem þessi er ekki sjaldséð hér við land - en heldur óskemmtileg. 

Það sem gerist í framhaldinu er að hlýindin stefna til norðurskauts eins og áður sagði - mjög dregur af þeim - en svo virðist sem leifarnar haldi áfram allt til okkar fyrir miðja næstu viku - komi þá úr norðri. Það er þó ekki fullvíst að svo fari - og þarf þá vön augu til að sjá að um „hlýindi“ sé að ræða - en nægileg þó til að trufla lægðagang í námunda við okkur. 

Hlýindin fara norðan við kuldapollinn Stóra-Bola sem liggur yfir norðanverðu Kanada - hugmynd reiknimiðstöðva hefur verið sú að þau stuggi við honum, hann hörfi til suðurs og slái kulda suður um Bandaríkin. 


Hitastaða desembermánaðar

Tuttugu dagar liðnir af desember. Meðalhiti mánaðarins í Reykjavík -0,2 stig það sem af er. Þetta er -0,9 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára og það 12. hlýjasta á öldinni (af 17). Á langa listanum er hitinn í 86. sæti af 142. Dagarnir 20 voru hlýjastir í fyrra (+5,6 stig), en kaldastir 1886, -5,6 stig.

Á Akureyri er meðalhiti nú -0,6 stig, +0,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Jákvæða hitavikið er nú mest í Möðrudal, +1,4 stig, en það neikvæða á Þingvöllum og í Skrauthólum á Kjalarnesi, -1,6 stig.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 51,7 mm í mánuðinum og er það í meðallagi. Sólskinsstundir hafa verið fleiri en í meðalári. Á Akureyri hefur úrkoma mælst 21,3 mm og er það ríflega helmingur meðalúrkomu.

Ársmeðalhiti í Reykjavík stendur nú í 5,8 stigum, en lækkar væntanlega eitthvað til áramóta. Enn er rétt hugsanlegt að árið verði hið hlýjasta hingað til á Dalatanga og meðal þeirra fimm hlýjustu á Akureyri. Í Reykjavík er spurningin hvoru megin tíundasætisins það lendir.


Bloggfærslur 21. desember 2017

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 210
  • Sl. sólarhring: 318
  • Sl. viku: 2035
  • Frá upphafi: 2350771

Annað

  • Innlit í dag: 193
  • Innlit sl. viku: 1821
  • Gestir í dag: 188
  • IP-tölur í dag: 188

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband