Nýtt met (aðeins fyrir áhugasama)

Munur á ársmeðalhita í Vestmannaeyjum og í Grímsey er nú með allra minnsta móti. Samanburður nær allt aftur til ársins 1874. Það gerðist árið 2015 að 12-mánaða keðjumeðaltal munarins fór í fyrsta sinn niður fyrir 1,0 stig. 

Hitamunur Vestmannaeyjar-Grímsey 1874 til 2015

Lóðrétti ásinn á myndinni sýnir hitamuninn milli staðanna, en sá lárétti tímann frá 1874. Grái ferillinn markar 12-mánaða keðjumeðaltölin - þau sveiflast frá hámarkinu 1881 (5,65 stig) og niður í nýja lágmarkið (0,96 stig). Rauði ferillinn sýnir 10-ára keðjumeðaltöl - er núna í því minnsta sem þekkst hefur, en þó ómarktækt lægra en á árunum 1984 til 1993. 

Almennt hefur munur hita þessara staða minnkað um 1 stig á þessum 140 árum sem myndin sýnir. Á þeim búti 19. aldar sem við sjáum var munurinn um 3 stig - en sveiflaðist mjög frá ári til árs. - en hefur lengst af verið 2,0 til 2,5 stig á síðustu áratugum. 

Þeir sem kunnugir eru almennri veðurfarssögu tímabilsins átta sig strax á því að að á 19. aldarskeiðinu var lengst af mikill hafís hér við land - og að hann var viðloðandi fram undir 1920. Sömuleiðis að mikill hafís var líka hér um og eftir miðjan 7. áratuginn - einmitt þegar hitamunur staðanna tveggja náði aftur nítjándualdargildum í nokkur ár. 

Nærveru hafíssins gætir mun meira í hita í Grímsey heldur en í Vestmannaeyjum. Nú - á það má benda að árið 1943 sýnir einnig tímabundinn hámarksmun - þá og fleiri ár um þær mundir var reyndar talsverður hafís undan Norðurlandi. Ritstjóri hungurdiska hefur stundum leyft sér að tala um „litlu-hafísárin“ í því sambandi (en það er reyndar á mörkum velsæmis). - Og íss varð líka vart í nokkrum mæli nærri tímabundna hámarkinu 1998. 

En nú er munurinn sem sagt í algjöru lágmarki - það er helst að 1984 jafnist á við núverandi ástand. 

Næsta mynd ber saman 10-ára keðjuna á myndinni að ofan við 10-ára keðjur hita í Stykkishólmi.

Hitamunur Vestamannaeyjar-Grímsey (blátt), hiti í Stykkishólmi (grátt) 120-mánaða keðjumeðaltöl

Kvarðinn til vinstri - og blái ferillinn sýnir sömu línu og rauði ferillinn á fyrri mynd - nema hvað kvarðinn hefur verið belgdur út - sveiflurnar sýnast því stærri. Tíminn fyrir 1920 er sér á parti í um 2,9 stigum - síðan tekur við skeið með um 2,4 stigum - fram yfir „litlu-hafísárin“. Þá dettur munurinn niður undir 2 stig um skamma hríð á 6. áratugnum - en vex síðan aftur upp í nítjándualdarástand - en aðeins fáein ár og hrapar síðan aftur niður í um 2,2 stig. Sjá má tvö lágmörk - hin áðurnefndu á 9. áratugnum - og svo aftur nú. 

Kvarðinn til hægri - og grái ferillinn sýna hitann í Stykkishólmi. Hlýskeiðið mikla 1925 til 1965 fellur vel saman við lágmark bláa ferilsins á sama tíma. Þó er hægt að klóra sér í höfðinu yfir smáatriðum, sjötti áratugurinn með sínu sérlega lágmarki bláa ferilsins var kaldari en sá fjórði - með hóflegri stöðu þess bláa. 

Á köldu árunum frá 1979 og fram yfir 1990 var hitamunur Vestmannaeyja og Grímseyjar minni en var almennt á hlýskeiðinu fyrr á öldinni - og hefur verið svipaður síðan - þrátt fyrir mikla hlýnun síðan þá. Kuldaskeiðið 1965 til 1995 skiptist nefnilega í nokkra hluta - gjörólíka veðurfarslega - þrátt fyrir að hiti væri lágur mestallan tímann. Skeiðið skiptist í þrjú skemmri kuldaskeið - ólík innbyrðis. Aðeins eitt þeirra færði okkur hafís - og þar með sérlega kulda við Norður- og Austurland - hin voru frekar af vestrænum uppruna. 

Þetta undirstrikar mikið höfuðatriði veðurfarsfræða - hitinn mælir ekki veðurfar einn og sér. Að baki tölunnar 4,0 stig (svo dæmi sé tekið) býr alls ekkert sama veðurlag í hvert sinn sem hún kemur upp. Það er nánast fásinna (kannski fullsterkt orð) að halda að hlýindi framtíðar séu einhver veðurfarsleg endurtekning á hlýindum fortíðar (eða kuldi vilji menn nota hann frekar sem framtíðarsýn). Hvert skeið er með sínum nánast einstaka hætti - allt eftir því hvað veldur/ræður veðri þess. 

Það sem hefur ákveðið hina óvenjulegu stöðu nú er að fyrir norðan land hefur verið (og er enn) óvenjuhlýtt - en fyrir suðvestan land óvenjukalt. Norðanáttin hefur verið með hlýrra móti (þótt þrálát hafi verið) - en suðvestanáttin frekar kalsöm (algeng síðastliðinn vetur - en lítið síðan). 

Þess má að lokum geta að hitabrattinn sem þykktin mælir - (hún sýnir hita í neðri hluta veðrahvolfs) er í langtímameðaltölum um 0,6 stig á breiddargráðu hér við land. Breiddarmunur Vestmannaeyja og Grímseyjar er um 3,1 stig - sem segir að „eðlilegur“ hitamunur staðanna tveggja sé tæp 2 stig - eða svipaður og hann hefur verið síðustu áratugina (jafnvel aðeins minni en algengast hefur verið). En - Ísland stíflar norðanáttina - beinir henni um Grænlandssund - eða austur fyrir land. Því er eðlilegt að búast við því að hitamunur sé meiri yfir landið heldur en hið almenna ástand í neðri hluta veðrahvolfs segir til um - landið suðvestanvert er í skjóli fyrir mesta norðankuldanum.

Þykktarbrattinn á svæðinu virðist reyndar hafa farið minnkandi líka - en við vitum enn ekki nægilega vel um áhrif hafíssins á hita ofan jaðarlagsins til að geta fullyrt um áhrif hafíssmagns fyrir norðan land á vestanvindabeltið. Talsvert vantar upp á að líkanendurgreiningar þær sem gerðar hafa verið fyrir hafístímann fyrir 1920 séu alveg trúverðugar hvað þykktina varðar. 


Bloggfærslur 8. janúar 2016

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg060725a
  • w-blogg040725a
  • w-blogg020725c
  • w-blogg020725b
  • w-blogg020725a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 2
  • Sl. sólarhring: 333
  • Sl. viku: 1659
  • Frá upphafi: 2482882

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1497
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband