Tuttugustigaskortur

Hiti hefur ekki farið í 20 stig á landinu síðan 7. júlí - nú er 10. ágúst. Það er harla óvenjuleg rýrð. Tuttugustigadagarnir í júlí urðu ekki nema þrír. Júlímeðaltal áranna frá 1996 (skeið sjálfvirka kerfisins) er 15,1 dagur. Það var í júlí 1998 sem tuttugustigadagar sjálfvirku stöðvanna voru jafnfáir. 

En kerfin tvö, það mannaða og sjálfvirka telja ekki alveg eins - á síðari árum er sjálfvirka kerfið mun þéttara og nær fleiri dögum en það mannaða - en var frekar á hinn veginn fyrir 2004 - þar á meðal í júlí 1998, en þá náði mannaða kerfið 9 dögum. Við þurfum því sennilega að leita enn lengra aftur til að finna jafnrýran tuttugustigajúlí, kannski var það júlí 1985 þegar mannaða kerfið sagði dagana vera 2 - sömu tölu gaf júlí 1979 og í júlí 1970 var dagurinn aðeins einn. 

Sumarið 2015 - hefur líka verið afskaplega tuttugustigarýrt það sem af er - dagarnir aðeins orðnir 8 á sjálfvirku stöðvunum og aðeins 4 á þeim mönnuðu (en í stórlega grisjuðu kerfi). 

Ársmeðalfjöldi tuttugustigadaga 1996 til 2014 er 32,6 á mönnuðu stöðvunum, en 36,5 á þeim sjálfvirku. Meðaltal áranna 1961 til 1990 er 21,0 - hlýskeiðið hefur því fært okkur að minnsta kosti 12 „aukatuttugustigadaga“ á ári á landsvísu, það er 60 prósent „aukning“ - sýnd veiði en ekki gefin.

En ekki í sumar - þótt það sé auðvitað ekki búið. Meðalfjöldi tuttugustigadaga fram til 10. ágúst 1996 til 2014 er 28,3 á sjálfvirku stöðvunum - rúmir þrír fjórðu hlutar ársfjöldans eru því venjulega liðnir hjá þegar hér er komið sumars. Að meðaltali komu aðeins 8 dagar síðar á sumrinu. 

Á árunum 1961 til 1990 var meðalfjöldi tuttugustigadaga til 10. ágúst 16,7 - aðeins 4,3 dagar að meðaltali eftir það sem lifir sumars. - En meðaltöl eru bara meðaltöl - árið 2003 komu 18 tuttugustigadagar eftir 10. ágúst og á mönnuðu stöðvunum hafa þeir 11 sinnum orðið 10 eða fleiri - á tímabilinu frá 1949. En - 8 sinnum komu engin 20 stig eftir 10. ágúst. 

Næstu tíu daga eru ekki margir tuttugustigadagar í sigtinu - sé að marka spár - en þeir gætu þó orðið einhverjir. - Hin köldu meðaltöl segja að eftir séu um það bil þrír á árinu. - En erum við ekki á hlýskeiði? Meðaltal þess segir að tíu tuttugustigadagar séu eftir á árinu. - Þessi leikur er ekki á „lengjunni“ er það?

Myndin sýnir „rétthugsanlegantuttugustigadag“ - miðvikudaginn 12. ágúst - í boði þykktarkorts evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-ecm0125_millikort_t850_gh1000-500_2015081000_066

En - lægðin er djúp - mikið af skýjum og brælu í lofti.


Hitinn fyrstu sjö mánuði ársins 2015 - er hann lágur?

Veðurstofan birti á dögunum yfirlit um hita í Reykjavík og á Akureyri fyrstu sjö mánuði ársins 2015. Þar kom fram að hitinn í Reykjavík er -0,3 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990, en +0,2 stig ofan við það á Akureyri. Þetta er auðvitað enginn óskahiti en í langtímasamhengi ekkert sérstaklega lágur.

Rétt er að taka fram að hér er ekki verið að fjalla um sumarhitann fyrir norðan og austan - hann hefur verið óvenjulágur í raun og veru. 

Lítum á mynd sem sýnir meðalhita fyrstu sjö mánaða ársins í Reykjavík 1871 til 2014.

w-blogg100815a

Jú, hitinn í ár er miklu lægri en verið hefur að undanförnu - þess vegna finnst flestum hafa verið kalt - en aðeins fyrir 13 árum hefðu þessir sjö mánuðir verið taldir alveg eðlilegir hvað hita varðar. - Það eru undanfarin 12 ár sem hafa verið allsendis óvenjuleg. 

Meira að segja á hlýskeiðinu 1925 til 1965 (og maklega er rómað) voru sjö fyrstu mánuðir ársins hvað eftir annað ámóta og nú - og 1949 og 1951 töluvert kaldari. Var hlýskeiðið 1925 til 1965 búið með „kuldanum“ fyrstu sjö mánuði ársins 1931? Það var ekki heldur búið 1949 eða 1951. Það stóð í 40 ár.

Núverandi hlýskeið sýnist á þessari mynd hafa staðið í aðeins 12 ár - ríki einhver regla í „hlýskeiðasveiflum“ ætti það þá ekki að standa 28 ár til viðbótar? Nei - það er engin þannig regla - því miður (eða til allrar hamingju). Núverandi hlýskeið gæti þess vegna verið búið - það er engin fortíðarregla sem verndar það - það er heldur engin regla sem segir - að sé það búið - hljóti kuldi þess vegna að standa í áratugi - síður en svo. 

En ljóst er að árið verður ekki sérlega hlýtt. Fyrstu sjö mánuðir ársins segja mikið um meðalhita þess í heild. Það sést vel á myndinni hér að neðan.

w-blogg100815b

Lárétti ásinn sýnir meðalhita fyrstu 7 mánaða ársins í Reykjavík - en sá lóðrétti meðalhita ársins alls. Mikil fylgni er á milli. Lóðrétta strikalínan sýnir hita það sem af er ári 2015, hún sker rauðu aðfallslínuna við 4,3 stig. Svo kalt ár hefur ekki komið í Reykjavík síðan 1995 - en þá var meðalhitinn hins vegar talsvert lægri eða 3,8 stig.

Við sjáum að eitt ár - kaldara er þetta - náði að hala sig upp í fimm stig áður en því var lokið. Það var 1958.

Það má líka taka eftir því að árin sem voru áberandi hæst á efri myndinni (1964 og 1929) sprungu á limminu - stóðu ekki alveg undir væntingum. Það gerðu hins vegar 2003, 2014, 2010, 1941 og 1939.

Við lékum sama leik fyrir mánuði - þá gaf aðfallsspáin ársmeðalhitann 4,2 stig - en gefur 4,3 stig nú - júlímánuður hefur dregið ársspána upp um 0,06 stig. - En nú eru aðeins fjórir og hálfur mánuður til að vinna árið upp í 5 stig - eins og árið 1958 gerði - það er harla ólíklegt að slíkt takist. 

Eitt ár hlýskeiðsins gamla lenti að lokum undir fjórum stigum. Við eigum meiri möguleika á því heldur en að ná fimmu. Keppnismenn: Hvoru liðinu fylgið þið? Því hlýja eða því kalda? 


Bloggfærslur 10. ágúst 2015

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.7.): 332
  • Sl. sólarhring: 504
  • Sl. viku: 2041
  • Frá upphafi: 2484303

Annað

  • Innlit í dag: 309
  • Innlit sl. viku: 1834
  • Gestir í dag: 299
  • IP-tölur í dag: 292

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband