Óþægilega kalt áfram

Það er ekkert lát að sjá á kuldanum - jú, sólin gerir sitt - og svo eru stöku dagar betri en aðrir. Vestanhryðjan sem gekk yfir landið í gær (8. júní) var með snarpara móti um landið norðanvert - vindhraðamet júnímánaðar féllu á fjölmörgum stöðvum - en mæliraðirnar eru ekki mjög langar og því ekki rétt að gera allt of mikið úr.

En á eftir vestanátt snýst vindur oft til norðurs, hækkar á, eins og sagt var. Til allrar hamingju gerist það ekki með neinum látum að þessu sinni - því loftið sem kemur að norðan er kalt - svo kalt að það nægði í hríð niður í sveitir - væri vindur og úrkomuákefð meiri en raunin virðist ætla að verða. Þannig að vonandi sleppur það - en næturfrost er yfirvofandi víða inn til landsins. 

w-blogg100615a

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina síðdegis á fimmtudag, 11. júní. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og gefur einnig góðar vísbendingar um hita í mannheimum. 

Meðalþykkt í júní yfir landinu er um 5440 metrar. Á bláa svæðinu sem snertir norðurströndina er hún hins vegar aðeins 5280 metrar, 160 metrum undir meðallagi - það reiknast sem 8 stig - sem hiti í neðri hluta veðrahvolfs er undir meðallagi. Ekki fáum við það högg af fullum þunga - en 4 til 5 stig undir meðallagi gæti verið nærri sanni. 

Þetta er að vísu kaldasti dagurinn í sjónmáli - það á að hlýna verulega strax eftir helgi - þau hlýindi eiga þó að standa stutt við - en færa okkur þó rigningu og leysingu til fjalla. 

Kortið hér að neðan sýnir stöðuna um hádegi á þriðjudag - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg100615b

Þetta er miklu hlýrra. Þykktin yfir miðju landi er um 5530 metrar - 90 metrum yfir meðallagi júnímánaðar og hlýja tungan gefur möguleika á fyrsta 20 stiga hita ársins - þá um landið norðan- eða austanvert. En - eins og áður sagði stendur þetta stutt við. Lægðin er á hraðferð - og við sjáum líka í næstu bylgju á eftir. 

Gömul fræði segja von á viðvarandi umhleypingum svo lengi sem vindur gengur um vestur til norðurs á eftir lægðunum. Hins vegar var meiri von um breytingu „gengi hann öfugur upp í“ - eins og sagt var - úr suðri um austur til landnorðurs eða norðurs. Slík hegðan bendir til þess að háloftabylgjurnar fari fyrir sunnan land - heimskautaröstin og umhleypingar hennar fjarlægist. Það er mikið að marka þessa gömlu reynslureglu - sem og margar fleiri. 


Bloggfærslur 10. júní 2015

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 16
  • Sl. sólarhring: 428
  • Sl. viku: 1942
  • Frá upphafi: 2484481

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 1749
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband