Sjöundi maí

Þar sem fjasbókarfærsla hungurdiska var óvenju ítarleg að þessu sinni telur ritstjórinn rétt að hleypa henni líka yfir í bloggdeildina. Flest er í bústnum símskeytastíl. 

Fimmtudagurinn 7. maí varð kaldasti dagur mánaðarins til þessa, landsmeðalhiti í byggð (lhb) reiknaðist -1,63 stig og er það -6,7 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára, kaldasti 7. maí frá upphafi sjálfvirka kerfisins (1996). Við vitum um nokkra kaldari almanaksbræður í fortíðinni, kaldastur síðustu 67 ára var sami dagur 1980 með meðaltalið -2,64 stig. Lágmarksdægurmetin urðu 117 í dag á sjálfvirku stöðvunum og sjö á þeim mönnuðu - sem er óvenjumikið.

Eins og í gær var sólarhringslágmarkshitinn neðan frostmarks á öllum stöðvum nema einni og frost var allan sólarhringinn á 30 stöðvum í byggð - og hafa ekki verið fleiri sama sólarhringinn í mánuðinum.

Svo sýnist sem að landsdægurlágmörk hafi nú verið slegin tvisvar í mánuðinum, þann 3. og 6., í Veiðivatnahrauni í báðum tilvikum - en tölurnar bíða staðfestingar.

Á lista yfir vik frá meðallagi síðustu tíu ára má sjá að „hlýjast“ að tiltölu á landinu er nú á Gjögurflugvelli þar sem hitinn er -3,52 stigum undir meðallaginu, en kaldast að tiltölu hefur verið í Veiðivatnahrauni og hitinn -8,24 stig undir meðallagi. Það er áberandi hversu kalt (að tiltölu) hefur verið á hálendinu - lengst frá hinum mildandi áhrifum hafsins.

Nú er svo komið að aðeins fjórir maímánuðir hafa byrjað kaldari síðustu 67 árin í Reykjavík og þrír á Akureyri og Dalatanga, og á langa listanum í Stykkishólmi eru það 25 (af 169)sem hafa byrjað kaldari.

Ritstjórinn reiknar (til gamans) alltaf út stöðu meðaltals hámarks- og lágmarkshita í Reykjavík og ber saman við meðaltal sömu stika allt aftur til 1870 - því miður vantar nokkur ár í samanburðinn. Stundum munar töluverðu á þessari gerð meðaltala og þeirri hefðbundnu - en dagurinn í dag var í 123. hlýjasta sæti af 139 sætum almanaksbræðra og mánuðurinn í 122. sæti af 139.

Meðalvindhraði í byggðum landsins var 6,7 m/s - sá mesti í mánuðinum til þessa.

Nú má fara að gefa þurrkum gaum - alla vega er gróðureldahætta orðin veruleg. Úrkoma hefur hvergi verið að ráði nema allra austast á landinu, Hánefsstaðir við Seyðisfjörð sitja með mesta úrkomu, síðan Dalatangi og Neskaupstaður.

Sólskinsstundirnar mældust 16,0 í Reykjavík í dag - rétt við dægurmetið - það er 16,1 og sólskinsstundir mánaðarins eru nú orðnar 106,4, nærri tíu fleiri en mest hefur verið sömu daga í maí áður (1924, 1931 og 1958).


Bloggfærslur 8. maí 2015

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 90
  • Sl. sólarhring: 298
  • Sl. viku: 2016
  • Frá upphafi: 2484555

Annað

  • Innlit í dag: 69
  • Innlit sl. viku: 1806
  • Gestir í dag: 68
  • IP-tölur í dag: 68

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband