Þrálát suðvestanátt næstu daga?

Með miðvikudegi (25. mars) snýst vindur enn og aftur til suðvestanáttar. Hún virðist ætla að verða ríkjandi, alla vega viðloðandi, meira og minna fram yfir helgi og e.t.v. lengur. Lægð situr á Grænlandshafi - stundum vestur undir Grænlandi - stundum nær okkur eða  þá á Grænlandssundi. Hraðfara lægðir ganga til austurs fyrir sunnan land - og slá á suðvestanáttina meðan þær ganga hjá - en reiknimiðstöðvar telja að hún taki sig alltaf upp aftur. 

Kortið sýnir stöðuna um hádegi á fimmtudag (26. mars) - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg250315

Hér kúrir lægðin í skjólinu við Grænlandsströnd - og nær alveg upp í háloftin. Hún beinir köldu lofti frá Kanada austur á Atlantshaf og í átt til okkar. Við sjáum að hún liggur nokkuð þvert á jafnhitalínurnar (bláar og strikaðar) í 850 hPa (um 1200 m hæð yfir sjávarmáli). Það er -10 stiga línan sem nær að Íslandi - hún táknar að frost er ríkjandi - þótt sólin nái nokkuð góðum tökum síðdegis á milli élja og norðaustanlands ætti í raun að vera besta veður lengst af. 

En þótt kalda aðstreymið sé eindregið liggur leið loftsins yfir hlýrri sjó og það gengur ekkert að koma -15 og -20 stiga jafnhitalínunum áleiðis til okkar - vindurinn er einfaldlega ekki nógu mikill. Kannski að hiti við sjávarsíðuna verði ekki nema svosem einu stigi undir meðallagi? 

Úrkoman er sýnd með gulum, grænum og bláum litum á kortinu. Á leið kalda loftsins virðast ekki vera neinir sérstakir garðar eða skilasvæði heldur dreifð él. En þótt líkan reiknimiðstöðvarinnar sé öflugt verðum við samt að gera ráð fyrir einhver skipulegur hroði lendi á okkur þessa næstu daga. 

Útsynningurinn virðist eiga að verða hvað öflugastur á föstudaginn - en það er í raun of snemmt að fjölyrða um það. 

En verra gæti það verið - miklu verra. 


Bloggfærslur 25. mars 2015

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 6
  • Sl. sólarhring: 203
  • Sl. viku: 1802
  • Frá upphafi: 2484682

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1619
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband