Öfugt

Eitt þeirra veðurorða sem sjá má á gömlum bókum og dagbókarfærslum er „hornriði“ - og er eitt þeirra orða sem skýrir sig að miklu leyti sjálft - eftir að búið er að skýra það. Sveinn Pálson læknir og náttúrufræðingur skilgreindi hornriða svo: „Það er, að skýin dregur upp frá vestri, og þó blæs á austan eða norðaustan“. Margir fara þó mun frjálslegar með hugtakið heldur en Sveinn. Ritstjóri hungurdiska vill gjarnan koma því inn í nútímaveðurmál - en vill samt ekki trampa um of á hinni hreinu skilgreiningu Sveins á skítugum skónum.

Hann kallar samt ástand þegar vindur blæs úr mismundandi áttum í misjöfnum hæðum „riðið“. Önnur ástæða fyrir því að segja að loft eða ástand sé riðið er sú að þá mynda jafnhæðarlínur og jafnþykktarlínur horn á milli sín þannig að úr verður net - og má þá sjá riða (möskva) - eins og í hefðbundnum netum. 

Sértilvik er þegar vindur blæs úr öfugum áttum uppi og niðri - það kallar ritstjórinn öfugsniða - sem er hrá þýðing á alþjóðaorðinu „reverse shear“. 

Eftir þennan langa (og illskiljanlega) inngang er komið að dæmi dagsins. Við sjáum fyrst spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um vindhraða í 100 metra hæð föstudaginn 13. febrúar kl. 6. Munum að töluverðu getur munað á vindhraða í 100 metra hæð og í hefðbundnum 10 metrum mælimastranna. 

w-blogg120215a

Lægð er suður af landinu og mikill vindstrengur af austnorðaustri á milli hennar og lands - og nær alveg upp að landi. Þetta eru að nokkru leyti hefðbundin hitaskil, sunnan við þau er suðaustanstrekkingur. Oftast er hægt að ganga út frá því að vindur í hlýjum geirum - sé af svipaðri átt niðri og í háloftunum. Það er hann líka í þessu tilviki. 

Við gætum búist við því að háloftavindur yfir austnorðaustanstrengnum sé líka suðaustlægur - en það er hann ekki í þessu tilviki (ekki enn) heldur er hann af suðvestri. Þetta sést vel á 500 hPa-kortinu hér að neðan sem gildir á sama tíma og sýnir sama svæði.

w-blogg120215b

Ef við rýnum í kortið má sjá að þar er nærri því allstaðar hlýtt aðstreymi - vindur ber hlýrra loft með sér bæði að sunnan og vestan. Lendi hlýtt aðstreymi eins og það sem þarna kemur að sunnan á móts við kalt skerpir á suðvestanáttinni uppi - og norðaustanáttinni niðri - þá yrði norðaustanhríð á Suðurlandi. Slíkt veðurlag er alltaf illt og athyglisvert. Þegar suðaustanáttin nær landi hlánar. 

Reyndar er það svo að þessu sinni að við virðumst eiga að sleppa við hríðina því hlýja aðstreymið að (suð)vestan valtar yfir allt skömmu síðar en þetta kort gildir og færir okkur hláku í stað hríðar. 

En það er raunveruleg óvissa um það hversu langt austnorðaustanhríðin nær - kannski sleppur landið allt? 

En látið þetta ritstjórahjal ekki rugla ykkur - fylgist heldur með spám Veðurstofunnar.


Bloggfærslur 12. febrúar 2015

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 40
  • Sl. sólarhring: 209
  • Sl. viku: 1836
  • Frá upphafi: 2484716

Annað

  • Innlit í dag: 36
  • Innlit sl. viku: 1649
  • Gestir í dag: 36
  • IP-tölur í dag: 36

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband