Óróleg vika á Atlantshafi

Eins og oftast á þessum tíma árs. Ekki tók nema einn dag (og tæplega það) að hreinsa megnið af köldu jóladagsloftinu af landinu.

Hiti hækkaði víða um meir en 20 stig á fáeinum klukkustundum - án nokkurra sérstakra átaka - kalda kápan var mjög þunn - þó þykkari en nýju fötin keisarans - og reyndar er frostið fljótt niður aftur þar sem bjart er og lygnt. Á Reykjum í Fnjóskadal - til dæmis - var frostið rétt eftir miðnætti -22,5 stig, milli klukkan 17 og 18 síðdegis komst hitinn upp í +1,1 stig - en var svo aftur kominn í -9,1 fyrir miðnætti - það er þó líka þunn kápa - ekki nema -3,7 stig í 580 metra hæð á Vaðlaheiði. 

Svo kemur alvörusunnanátt í einn dag (sunnudag) - og blæs kápunni aftur burt - en hversu hlýindin að ofan slá sér til jarðar er óvíst - kostar mikinn varma að bræða snjó og ís, en mættishita í 850 hPa (þrýstileiðréttum hita) er spáð upp í +19 stig yfir Norðausturlandi aðfaranótt mánudags. 

Kortið hér að neðan gildir kl.18 síðdegis á mánudag - þá er hlýja loftið komið alveg austur af landinu.

w-blogg271215a

Loftið sem fylgir á eftir er þó ekki sérlega kalt - en úrkoma þó frekar slydda, él eða snjór heldur en hrein rigning. Á kortinu sést vel hversu gríðarmikil sunnanáttin er og stefnir norður til Norður-Íshafs og mun gera usla á þeim slóðum næstu daga - verða að mikilli hlýrri hæð sem snúast mun þar í nokkra daga - og reiknimiðstöðvar ekki sammála um örlögin - kannski endar hún yfir Síberíu? 

Að vestan er gríðarköld stroka á leið austur á Atlantshaf - eins og oft - og leitar stefnumóts við nýja sunnanátt sem sjá má neðst á kortinu. Þar er lægð - foráttulægð auðvitað - sem ekki er vitað hvað gerir - hittir hún í kalda loftið? - eða fær hún það í hausinn - barin niður í ekkert? 

Evrópureiknimiðstöðin sendir lægðina til norðurs rétt fyrir austan land á aðfaranótt miðvikudags (30.des.) - í kringum 940 hPa í miðju. Í síðdegisspárunu bandarísku Veðurstofunnar fer hún yfir Austurland þá um nóttina - líka í kringum 940 hPa í miðju.

En spár eru sérlega óstöðugar þessa dagana - miklar hræringar. Auðvitað fínar fyrir unga snarpa veðurspámenn - en þeir útbrunnu (eins og ritstjórinn) fyllast ákveðinni mæðu og þakka bara fyrir að þurfa ekki að skrifa spárnar.  


Bloggfærslur 27. desember 2015

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg060725a
  • w-blogg040725a
  • w-blogg020725c
  • w-blogg020725b
  • w-blogg020725a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 104
  • Sl. sólarhring: 125
  • Sl. viku: 1761
  • Frá upphafi: 2482984

Annað

  • Innlit í dag: 89
  • Innlit sl. viku: 1584
  • Gestir í dag: 83
  • IP-tölur í dag: 80

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband