Landsynningur

Á sunnudag (18. janúar) kemur öflug lægð inn á Grænlandshaf. Því er spáð að henni fylgi nokkuð öflugur landsynningur. Landsuður er gamalt nafn á suðaustri. Orðið landsynningur vísar því til suðaustanáttar - en oftast ekki hvaða suðaustanáttar sem er, heldur til þeirrar sem ber með sér bæði hvassviðri og úrkomu - sem oftast er rigning. 

Lægðin þessi er af mjög algengri gerð - landsynningur hennar er „alvöru“ (eins og menn vilja oftast orða það í dag) - en útsynningurinn (suðvestanátt með éljum) sem oft fylgir í kjölfarið skilar sér ekki nema mjög stutta stund - eða alls ekki. Lægðin fer í hring aftur fyrir sig (kannski má segja að hún stolli) og hrapar svo skyndilega út úr myndinni og brotnar - brotin fara svo til Bretlandseyja. 

Tölvuspár undanfarinnar viku hafa verið mjög óljósar um þetta lægðarbrot - meira að segja var um tíma útlit fyrir að landsynningurinn næði aldrei til okkar (suðaustanátt kannski - en ekki landsynningur). 

Nú er samkomulag orðið betra. Kortið hér að neðan sýnir spá harmonie-líkans Veðurstofunnar um vind í 100 metra hæð (yfir líkanlandinu) kl. 10 á mánudagsmorgunn. Þá á hvassviðrið að vera í hámarki (að sögn). Á kortinu stendur 2014 en á að vera 2015.

w-blogg180115a

Örvar gefa stefnu til kynna, en litir sýna vindhraða. Rauðbrúnu litirnir sýna vind yfir 24 m/s. Hér má sjá að fjöll hafa mikil áhrif á vindhraðann - hlémegin (auðvitað öfugmæli hið versta) er vindur miklu meiri en áveðurs. Hæstu hámörkin eru við Langjökul, þar sem vindur á að vera yfir 40 m/s. Tölur í litlum gulum kössum sýna líklegar hviður (sem geta náð til jarðar). 

Landsynningsstormurinn hreyfist til norðausturs - en minnkar jafnframt. Öllu hægari suðaustanátt fylgir í kjölfarið. Spáin gerir ráð fyrir talsverðri úrkomu - aðallega slyddu og rigningu í byggð en hríð á fjöllum. Það er alltaf spurning hvers konar úrkoma fylgir í kjölfarið - hér má sjá að vindstefna virðist ekki breytast mikið í þann mund sem draga fer úr vindi. Það bendir til þess að hiti breytist ekki mjög - og þar með er snjókoma ólíklegri. Ef snögglega lygnir alveg í lok landsynningsveðra að vetri er viðbúið að hann fari strax að snjóa. 

En þetta er vindur í 100 metra hæð. Kortið hér að neðan sýnir vind í hæð vindhraðamæla - 10 metrum á sama tíma, kl. 10 á mánudag 19. janúar. Núningur sér til þess að hann er öllu minni heldur en 100 metravindurinn. Á kortinu stendur 2014 en á að vera 2015.

w-blogg180115b

Hér hafa rauðleitu svæðin dregist mjög saman - en samt eru þarna flákar, t.d. einn á Kjalarnesi. Nú er varla hægt að ætlast til þess að líkanið nái öllum smáatriðum. Þannig geta verið stakir blettir þar sem vindur er meiri en þetta kort sýnir og gott að eiga bæði kortin þegar ráða á í líklegan vindhraða á þeim stað sem við höfum áhuga á hverju sinni. 


Bloggfærslur 18. janúar 2015

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 98
  • Sl. sólarhring: 183
  • Sl. viku: 1894
  • Frá upphafi: 2484774

Annað

  • Innlit í dag: 86
  • Innlit sl. viku: 1699
  • Gestir í dag: 81
  • IP-tölur í dag: 81

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband