Reykjavíkursumarúrkoma nálgast met

Þegar þetta er skrifað (mánudagskvöldið 21. júlí) hefur úrkoma í Reykjavík það sem af er júlí mælst 76,4 mm. Mesta úrkoma sem vitað er um í júlí mældist 126,9 mm. Það var 1885. Litlu minna mældist í júlí 1926 117,6 mm. Eins og málin standa nú er heldur á móti líkum að núverandi júlímánuði takist að komast upp fyrir þessa fyrri bleytu. 

Aftur á móti var júní sérlega úrkomusamur, sá næstblautasti sem vitað er um. Nú er ljóst að þessir tveir mánuðir saman eru komnir upp fyrir öll önnur júní- og júlípör - nema eitt, 192,2 mm hafa nú mælst síðan 1. júní. Júní og júlí 1899 skiluðu samtals 211,9 mm - það er metið. Nú vantar aðeins tæplega 20 mm upp á að það náist. Það getur varla talist ólíklegt að 20 mm skili sér fyrir mánaðamótin - en auðvitað er það engan veginn víst.

Við skulum líta á línurit sem sýnir samanlagða úrkomu í júní og júlí frá upphafi mælinga 1885.

w-blogg220714i

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lóðrétti ásinn sýnir úrkomumagn, en sá lárétti markar árin. Hafa verður í huga að á árunum 1908 til 1919 voru engar úrkomumælingar í Reykjavík - en aftur á móti var mælt á Vífilsstöðum. Þótt þær athuganir séu að sumu leyti ótrúverðugar látum við þær fylla upp í eyðuna eins og hægt er.

Hér sést glöggt hversu afbrigðilegir núlíðandi sumarmánuðir eru í langtímasamhenginu. Auk 1899 stinga 1923 og 1984 sér upp fyrir 180 mm.

Svo sjáum við líka hversu óvenjuleg sumrin sex, 2007 til 2012 eru í langtímasamhenginu. Úrkoman í júní og júlí var þá sérlega lítil - örfá ár eru samkeppnisfær - en aldrei neinir áraklasar í líkingu við þessa sex ára röð. - Kannski ekki að furða að raddir heyrðust um að veðurfar í Reykjavík hefði breyst endanlega til batnaðar. En - .

Þótt sagan segi okkur að líklegt sé að rigningatíð haldi áfram í ágúst er samt alls ekki hægt að ganga að því vísu. Sumrin 1899 og 1984 var engin miskunn í ágúst. Júní, júlí og ágúst þessi ár skiluðu yfir 300 mm alls, en ágúst 1923 var hins vegar í þurrara lagi. Annars eru kröfur um þurrk orðnar svo miklar að ágúst má verða í þurrasta lagi til að ekki verði kvartað undan úrkomunni hver sem hún verður. 

Lauslega er fylgst með stöðu hita- og úrkomumála á fjasbókarsíðu hungurdiska:

https://www.facebook.com/groups/hungurdiskar/


Bloggfærslur 22. júlí 2014

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.7.): 13
  • Sl. sólarhring: 136
  • Sl. viku: 1795
  • Frá upphafi: 2485081

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 1590
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband