Óvenjudjúp lægð(?)

Óvenjueitthvað dag eftir dag? Já, þannig verður það víst að vera. Það verður að teljast óvenjulegt þegar reiknimiðstöðvar spá loftþrýstingi nærri lágmarksmeti júlímánaðar. En athugum samt að lægðin er ekki komin - og varla orðin til þegar þetta er skrifað (seint á sunnudagskvöldi 30. júní). - Stundum eru lægðir líka dýpri í spám heldur en þær verða í raun og veru. 

En það er samt þannig að þrýstingur hefur ekki nema 13 sinnum mælst lægri en 980 hPa hér á landi í júlímánuði (frá 1873) - svona á 10 ára fresti að meðaltali - en fjórum sinnum á síðustu tuttugu árum. Það hefur aðeins gerst þrisvar að þrýstingur hefur mælst lægri en 975 hPa hér á landi - á  40 til 50 ára fresti að meðaltali - en aldrei undir 972,4 hPa. Það met var reyndar sett fyrir aðeins tveimur árum, 22. júlí 2012, þegar loftvogin á Stórhöfða (leiðrétt til sjávarmáls) sýndi þessa tölu. Þrýstingur í lægðarmiðjunni þeirri var lægstur áður en hún rakst á landið, evrópureiknimiðstöðin sýndi 967,8 hPa - sjá kortið hér að neðan - það batnar við stækkun þannig að hægt er að lesa haustextann.

w-blogg300614b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

[Athugið vel að kortið er frá árinu 2012 - en á ekki við næstu daga]. Þótt landið sé stórt, 100 þúsund ferkílómetrar, er það aðeins lítill hluti lægðaleikvangs Atlantshafsins. Því eru líkur á því að 970 hPa lægð hitti á landið í júlí - einmitt þegar hún er dýpst - ekki svo miklar - jafnvel þótt þær séu margar á sveimi um leikvanginn. 

Þegar þetta er skrifað spáir evrópureiknimiðstöðin lægðinni nýju niður í 971 hPa á miðvikudagskvöld - og að þá verði hún við norðausturströndina. Bandaríska veðurstofan sýnir lægst 980 hPa á svipuðum tíma - ansi munar miklu. Kanadíska veðurstofan er þarna á milli - með 977 hPa og sú breska líka, með 975 hPa. 

En það er annað. Þessar miðstöðvar spá allar óvenjulágum 500 hPa-fleti á sama tíma. Lægsti 500 hPa flötur sem við höfum frétt af yfir Keflavíkurflugvelli í júlímánuði er 5240 metrar - og í endurgreiningum má finna tölur niður í 5210 metra.

Það gæti því verið að atlagan að 500 hPa-hæðarmetinu verði harðari heldur en sú sem beint er að loftþrýstingi til sjávarmál. E.t.v. á svipað við um aðra hæðarfleti, 300 hPa met eru t.d. líka í hættu, en eldri gögn eru lítt aðgengileg og þvæla málið. 

Eins og venjulega láta hungurdiskar Veðurstofuna um veðurspár næstu daga - en halda áfram að fylgjast með því óvenjulega. 

Svo er spurningin hversu langan tíma tekur að hreinsa upp eftir þessa lægð - kippir hún meiru en fjórum til fimm dögum út úr sumrinu hlýja? Tekst henni að ná í kalt loft norðan úr höfum? 

Hafi lesendur fyrirspurnir eða athugasemdir eru þeir vinsamlega beðnir um (sé þeim það unnt) að beina þeim frekar á fjasbókarsíðu hungurdiska [https://www.facebook.com/groups/hungurdiskar/] heldur en á þetta blogg. Fjasbókarfjendur geta þó reynt bloggið - en ekki er öllum athugasemdum hleypt þar samstundis að.


Bloggfærslur 30. júní 2014

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.7.): 97
  • Sl. sólarhring: 169
  • Sl. viku: 1879
  • Frá upphafi: 2485165

Annað

  • Innlit í dag: 86
  • Innlit sl. viku: 1664
  • Gestir í dag: 78
  • IP-tölur í dag: 78

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband