Meira af úrkomunni

Úrkomumagn mánaðar er miklu tilviljanakenndara heldur en hitinn. Það þarf ekki nema einn dag með mikilli úrkomu til að koma mánuði upp undir topp á lista. Upplýsingar um úrkomudagafjölda bæta þó nokkru við - það tekur að minnsta kosti 20 daga að safna upp 20 úrkomudögum. 

En núlíðandi júnímánuður hefur verið ákaflega úrkomusamur í Reykjavík, og ekki bara það heldur hafa úrkomudagarnir líka verið óvenju margir. Við lítum á mynd sem á að sýna þetta - í einhverju langtímasamhengi.

w-blogg270614

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Við eigum til upplýsingar um úrkomu í Reykjavík frá 1885 - ekki alveg samfellt að vísu - og úrkoma fáeinna eldri ára er líka til. Lárétti ásinn sýnir tímann, eyða byrjar árið 1908 og stendur til 1919 - en á því tímabili var lengst af mælt á Vífilsstöðum (sjást innan rammans á myndinni). Vífilsstaðamælingarnar eru vafasamari - t.d. er ekki með góðu móti hægt að telja úrkomudagafjölda.

Lóðréttu ásarnir eru tveir. Sá til vinstri sýnir heildarúrkomu í júní í millimetrum - sá til hægri aftur á móti úrkomudagafjölda í mánuðinum. Þar er miðað við að úrkoma hafi verið 1,0 mm eða meiri. Í slíkri úrkomu gerir meira en að bleyta á steini.

Gráu súlurnar sýna úrkomumagn einstakra mánaða - en þær brúnu úrkomudagafjöldann. Ef rýnt er í myndina kemur í ljós að ferlarnir fylgjast býsna vel að. Það þýðir að sé úrkoma í Reykjavík mikil er líka líklegt að úrkomudagar séu margir.

Síðustu súlurnar - lengst til hægri - eiga við núlíðandi júnímánuð, fram til þess 26. Enn geta þær því hækkað. Mest mældist úrkoman í júní 1887, 129,0 mm en er komin upp í 107,6 mm (til kvölds þann 26.) Úrkomumælingamánuðum lýkur með mælingu kl. 9 síðasta dag mánaðarins. Það sem fellur síðar sama dag telst með næsta mánuði á eftir. Spár gera ekki ráð fyrir þurrki fram til þess tíma - en ekki er ljóst hvort úrkoman verður meiri en þeir 23 mm sem vantar upp á met.

Þrátt fyrir að fjórir dagar séu eftir er úrkomudagafjöldinn (nú 17) að komast upp fyrir þá 18 sem nokkrir fyrri júnímánuðir skarta. Skýjahulan það sem af er er sú mesta síðan í hryllingsmánuðinum júní 1988 og sólskinsstundafjöldinn líka sá minnsti síðan þá - en svo lágt leggjumst við ekki að þessu sinni. 

Er lát á þessu tíðarfari? Nei, segja reiknimiðstöðvar - síður en svo. En spár eru nú stundum rangar.

Dagurinn, 27. júní, nefnist sjösofendadagur (flettið nafninu upp). Í heimasveit ritstjórans fylgdust sumir sérstaklega með veðri þann dag. Sagt var að heyskapartíð færi eftir veðri sjösofenda - rigndi yrðu óþurrkar - væri þurrt, fengist góður þurrkur. [En lítt er að marka veðurspárdaga].


Smávegis um rigningasumur

Eins og flestir muna endaði sumarið í fyrra harla ofarlega á lista mestu rigningasumra - en í hvaða sæti var það á landshlutavísu? Við lítum nú á það. 

Línuritið sýnir úrkomumælitölu sem ritstjórinn hefur soðið saman. Hún byggir annars vegar á því hversu margir úrkomudagar hafa verið í mánuðunum júní, júlí og ágúst en hins vegar á úrkomumagni í sömu mánuðum. Það sem hér er sýnt á við Vesturland - frá Faxaflóa vestur og norður um til Norðurlands vestra. Tölur frá Suðurlandi (frá Breiðdal vestur til Keflavíkurflugvallar) eru nærri því eins (þó ekki alveg).

Mánuðum (hverjum fyrir sig) er nú raðað eftir úrkomudagafjölda og úrkomumagni á þessum landsvæðum á tímabilinu 1924 til 2013 (90 ár). Sá júnímánuður þegar úrkomudagar voru flestir fær einkunnina 89, sá næsti 88 og svo koll af kolli - þar til komið er að þeim mánuði þegar úrkomudagar voru fæstir og fær sá einkunnina núll. Úrkomumagnið er afgreitt á sama hátt. 

Hver mánuður fær því tvær einkunnir og séu þær lagðar saman verður til heildareinkunn viðkomandi mánaðar. Að lokum fær sumarið (júní til ágúst) heildareinkunn - summu einkunna mánaðanna hvers fyrir sig. Hæst getur einkunn hvers mánaðar orðið 2x89=178 - en lægsta núll.

Júnímánuður 2006 er með toppeinkunn, 178 stig - þá var úrkoma bæði þrálát og mikil. Svo vildi hins vegar til það sumar að júlí og ágúst voru nokkru þurrari og komu í veg fyrir að sumarið yrði eiginlegt rigningasumar. Næstmest var úrkoman í júní 1992. Lægstu einkunnina (þurrastur) var júní 2012 síðan koma júní 1991 og 1971 - nördin kannast við þessa mánuði. 

En lítum á sumarmyndina:

w-blogg160614a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Rigningasumratoppurinn er svona:  1983 er það mesta (eða versta), síðan koma í þessari röð: 1969, 1976, 1955, 1984 og 2013. Á hinum endanum telst 1931 það þurrasta og 1928 það næstþurrasta, en síðan kemur sumarið 2012. Sveiflan milli 2012 og 2013 er því sérlega mikil. Auk þess var sumarið 2012 það fjórða í röð þurrkasumra og það sjötta í röð undir meðaltalinu. 

Engin fylgni er frá ári til árs - næstu sumur á undan segja ekkert um það sem á eftir kemur.

Suðurlandsmyndin er mjög lík, 2013 er þar reyndar í 8. sæti en ekki því sjötta. Sömu þrjú sumur eru efst: 1983, 1969 og 1976. Þurrkar tímabilsins 2007 til 2012 eru ekki alveg jafn áberandi og á myndinni hér að ofan, 1931 er þurrast, en 1958 næstþurrast. 

Norðanlands er myndin önnur og toppröðin þar kemur á óvart, sumarið 1972 telst úrkomusamast og síðan 1969 - en hvort tveggja sumarið var einnig rigningasamt syðra. Þurrast var 1925, 2012 og 1948. Síðastliðið sumar 2013 er í 34 sæti. 


Slæmt kuldakast í Norður-Noregi

Nú (mánudaginn 16. júní) gengur slæmt kuldakast yfir nyrstu fylki Noregs. Þess gætir líka í Svíþjóð, Finnlandi og Rússlandi. Kuldinn sést vel á kortinu hér að neðan. Það sýnir hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) og þykktina (litakvarði) á hádegi í dag (16. júní). Þykktin er mælikvarði á hita í neðri hluta veðrahvolfs.

w-blogg160614-2a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Miðja kuldapollsins er á myndinni rétt að komast inn á strönd Finnmerkur. Þar sem blái liturinn er dekkstur er þykktin minni en 5160 metrar. Þetta er minni þykkt en mælst hefur í júní yfir Keflavíkurflugvelli [5181m þann 10. júní 1973] og álíka og það minnsta sem finnst við ísland í amerísku endurgreiningunni [1. júní 1896]. 

Þessi kuldapollur hefur að undanförnu sveimað um Norðuríshafið undan ströndum Síberíu - en hæðarhryggurinn við Norður-Grænland og þar vestur af hefur stuggað við honum þannig að hann tók strikið suður á bóginn. Mjög kalt verður á þessum slóðum næstu daga þótt það versta sé hér með gengið yfir. Þetta eru sérstaklega mikil viðbrigði eftir methita á sömu slóðum að undanförnu - hiti legið milli 20 og 30 stig inni í sveitum. 


Bloggfærslur 26. júní 2014

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.7.): 96
  • Sl. sólarhring: 168
  • Sl. viku: 1878
  • Frá upphafi: 2485164

Annað

  • Innlit í dag: 85
  • Innlit sl. viku: 1663
  • Gestir í dag: 77
  • IP-tölur í dag: 77

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband