25.6.2014 | 22:59
Og úrkoman líka
Úrkoma í Reykjavík það sem af er júní (fram á kvöld þann 25.) hefur mælst 102,4 mm. Það er meira en áður hefur mælst í júní öllum síðan 1887 en á sama tíma þá var úrkoman í Reykjavík samtals 113,2 mm - og endaði í 129,0 mm í mánaðarlok. Varla náum við því nú, en það er samt hugsanlegt - verði úrkoman sem nú er spáð að kvöldi mánudagsins þ. 30. meir en hálfum sólarhring fyrr á ferðinni - eða eitthvað óþekkt úrkomusvæði sýni sig. Meðalúrkoma í júní 1971 til 2000 er 45 mm í Reykjavík.
Í fljótu bragði sýnist úrkomudagafjöldinn (sólarhringsúrkoma 0,1 mm eða meiri) í Reykjavík í júní vera kominn upp í 20 og fjöldi daga með úrkomu 1,0 mm eða meira er 16. Síðarnefndu dagarnir eru að meðaltali 11 í júní og ljóst að júní nú er langt fyrir ofan það, en flestir hafa dagarnir hins vegar verið 22 (1,0 mm eða meir) og ljóst að núlíðandi júní nær ekki þeim fjölda (það var líka 1887). Þess má geta að samkvæmt bókum mældist úrkoman í júní 1887 aldrei minni en 1 mm á dag - sem bendir til þess að athugunarmanni hafi ekki þótt taka því að geta minni úrkomu. Heildarúrkomudagafjöldinn gæti því hafa verið meiri - miðað við núverandi athugunarhætti.
En Reykjavík er sá staður á landinu þar sem úrkoma er mest umfram meðallag að þessu sinni, en hún er komin yfir meðallag á mörgum stöðvum á Suður- og Vesturlandi. Austanlands hefur úrkoma það sem af er mánuðinum verið undir meðallagi - en ekki svo að afbrigðilegt teljist.
Í Reykjavík munar mikið um úrkomuna að kvöldi 17. júní (sjá sérstakan pistil) og sömuleiðis úrkomu síðustu tveggja daga - samtals 45 mm (nærri helmingur heildarinnar).
En - varðandi júní 1887. Þá var meðalhitinn aðeins 8,7 stig er er yfir 11 nú. Í textahnotskurn segir: Veðrátta í júní 1887 var kalsa- og vætusöm, alhvítt varð í Reykjavík snemma morguns þann 14.
Vísindi og fræði | Breytt 26.6.2014 kl. 01:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2014 | 22:59
Smávegis um rigninguna 17. júní
Eins og fram hefur komið hefur aldrei rignt jafnmikið í Reykjavík á þjóðhátíðardaginn og nú. Heildar úrkoma var 22 mm.
Tölvuspár náðu góðu taki á rigningunni með að minnsta kosti 4 daga fyrirvara. Við lítum á nokkur spákort. Það fyrsta er úr runu evrópureiknimiðstöðvarinnar frá hádegi 15. júní - 57 klst áður en rigningin náði hámarki.

Hér má sjá úkomuákefð (litir), sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur) og vindátt og vindstyrk (hefðbundnar vindörvar). Blái liturinn sem liggur inn yfir landið suðvestanvert segir að rignt hafi 5 til 10 mm á þremur klst áður en spátíminn rennur upp, eða 1,7 til 3,3 mm að jafnaði á klukkustund. Ólíklegt er að sú úrkoma falli jafn á klukkustundirnar þrjár og líklegt að mesta klukkustundarákefðin á tímabilinu sé jafnvel meiri. Rétt svar fyrir Reykjavík var 9,9 mm frá kl. 18 til 21.
Ekki var farið að rigna um hádegi þann 17. en næsta kort sýnir sama tímabil og kortið að ofan - en að þessu sinni úr spárununni sem byrjaði kl. 12 (kom reyndar ekki í hús fyrr en eftir kl. 18).

Þetta kort er mjög svipað því fyrra. Enn er 3 klst. úrkoma sögð 5 til 10 mm á 3 klst milli kl. 18 og 21. Engin tíðindi hér umfram fyrri spá.
Síðasta kortið sýnir spá harmonie-líkansins um úrkomu milli kl. 19 og 20 þetta sama kvöld. Takið eftir því að hér er ákefðin miðuð við klukkustundina.

Hér sýnir grænblái liturinn 5 til 10 mm á klukkustund. Reykjavík er ekki langt frá mörkum 3 til 5 mm/klst og 5 til 10 mm/klst. Þessa klukkustund mældist úrkoman í raun og veru 3,0 mm.
Mest varð ákefðin í Reykjavík 5,3 mm (og 5,8 mm á búveðurstöðinni nokkra metra í burtu) milli kl. 21 og 22. Þetta eru háar tölur í Reykjavík og með mestu klukkustundarákefð sem vitað er um á stöðvunum tveimur í júnímánuði.
Á harmonie-kortinu kemur vel fram að úrkoma var einnig mikil inn til landsins á Vesturlandi sem og víða á í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum þar sem úrkoman mældist á bilinu 20 til 30 mm. Það telst mikið. Úrkoma hefur verið mæld á Stafni í Svartárdal í Húnavatnssýslu í 16 ár og hefur aðeins einu sinni með vissu mælst meiri sólarhringsúrkoma heldur en nú. Það eru 39,1 mm sem mældust 24. október í haust. Nú mældust 32,7 mm.
Nú mældust 22,0 mm á Litlu-Hlíð í Skagafirði. Það er meira á sólarhring en áður hefur mælst þar í júní, en athuganir eru samfelldar frá 1991.
Lægðin var grunn - en þó býsna regluleg, rétt eins og stærri náskyldar systur hennar. Það sést vel á þrýstiritinu hér að neðan. Það sýnir loftþrýsting á klukkustundarfresti í Reykjavík 16. til 18. júní.

Lægðin fór skammt fyrir austan Reykjavík og var þar 10 hPa djúp. Vindur var ekki mikill víðast hvar - en náði þó stormstyrk á Stórhöfða (21,1 m/s og 26,4 m/s í hviðu). Býsna fallegt allt saman (þótt margir hafi væntanlega blotnað).
Vísindi og fræði | Breytt 19.6.2014 kl. 01:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2014 | 22:59
Hár lágmarkshiti
Hlýjar nætur hafa að undanförnu (skrifað 14. júní) vakið athygli veðurnörda. Hér lítum við lauslega á það mál. Við eigum reiknaðan meðallágmarkshita í byggðum landsins á lager aftur til 1949 - en sjálfvirku byggðarstöðvarnar aftur til 1995. Nú hefur mönnuðum stöðvum fækkað svo mjög að erfitt er að gera könnun á stöðu þeirra nú og í fortíðinni án þess að athuga fyrst hvort fækkunin hafi haft einhver áhrif. Það verður ekki gert hér. Þess vegna látum við okkur nægja að líta á sjálfvirku stöðvarnar.
Myndin að neðan er ekki alveg einföld - en ætti samt að vera lesanleg.

Lárétti ásinn sýnir daga frá 1. maí. Þegar þetta er skrifað er 14. júní að kvöldi kominn - en kvarðinn nær út júnímánuð. Lóðrétti kvarðinn sýnir hita í °C.
Blástrikaða línan (ferillinn um það bil í miðjunni) sýnir meðallágmarkshita hvers dags maí- og júnímánaðar í byggð í 19 ár (frá 1995 til 2013). Hann er rétt ofan frostmarks í byrjun maí - en er kominn yfir 6 stig í lok júní. Grænstrikaða línan sýnir lægsta meðallágmark hvers dags á sama tímabili. Sá ferill byrjar neðan við -6 stiga frost en endar nærri 4 stigum. Rauðstrikaða línan sýnir hæsta meðallágmark hvers dags (á sama tíma). Hún byrjar nærri 4 stigum en endar í tæpum tíu.
Svarta línan sýnir ástandið nú í vor og það sem af er júnímánuði. Þessi lína hefur verið ofan meðallags allt frá allmiklu kuldakasti í kringum 20. maí.
Ef við nú berum hana saman við meðaltalið (blástrikuðu línuna) sjáum við að lágmarkshitinn hefur lengst af verið 3 til 4 vikum á undan meðaltalinu, náði t.d. 6. stigum 24. maí en nær ekki 6 stigum fyrr en um 25. júní í meðalári. Meðaltöl einstakra daga hafa sleikt hámarkslínuna og í dag (laugardaginn 14. júní) fór hann upp fyrir það hæsta sem mælst hefur áður síðustu 19 árin. Við skulum þó ekki endilega tala um met í því sambandi - óvissa reikninganna er talsverð.
Gróður dafnar vel - og er það sennilega ekki síst hlýjum nóttum að þakka.
En nú er að sjá hvað verður áfram. Kalda loftið er ekkert óskaplega langt undan - það væri með nokkrum ólíkindum ef júní sleppur kuldakastslaus.
Viðbót 26. júní 2014: Ekki er lát á háum lágmarkshita. Þann 25. var meðallágmarkshiti sjálfvirkra stöðva í byggð 10,32 stig sem er hærra en áður hefur mælst í júní (á sjálfvirku stöðvunum). Röðin nær aftur til 1997. Þetta er þó ekki alveg endanlegt uppgjör.
Vísindi og fræði | Breytt 26.6.2014 kl. 01:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2014 | 01:51
Rýfur meðaljúníhitinn á Akureyri 12 stiga múrinn?
Farið er að gæla við þann möguleika að meðalhiti júnímánaðar á Akureyri nái 12 stigum. Þegar þetta er skrifað - um miðnætti aðfaranótt þess 25. liggur meðaltalið í 11,78 stigum. Meðalhiti í júní hefur aðeins einu sinni komist yfir 12 stig á Akureyri, það var 1933 þegar meðaltalið telst vera 12,28 stig (tveimur aukastöfum haldið af metingsástæðum einum).
Það er hins vegar dálítið óþægilegt að einmitt þetta sumar, 1933, var hitasíriti staðarins í ólagi og þetta meðaltal er því öðruvísi reiknað heldur en næstu sumur á undan og eftir. Það verður e.t.v. að fara í saumana á því.
Júní í fyrra, 2013 var sérlega hlýr á Akureyri, sá hlýjasti síðan 1953. Einmitt núna er júní í ár kominn upp fyrir bæði 1953 og júní í fyrra. Þá er bara spurning um úthaldið.
En listi yfir hlýjustu júnímánuði á Akureyri til þessa er svona:
Ak | júní | meðalh |
1 | 1933 | 12,28 |
2 | 1909 | 11,84 |
3 | 1953 | 11,70 |
4 | 1925 | 11,58 |
5 | 1894 | 11,49 |
6 | 2013 | 11,44 |
Mánuðurinn í ár er alveg við toppinn.
Við Mývatn hefur líka verið sérlega hlýtt - sennilega methlýtt. Þar flækist málið af því að sjálfvirka stöðin er ekki á sama stað og sú mannaða var. Nýja stöðin (Neslandatangi) er kerfisbundið um 0,5 stigum kaldari í júní heldur en mannaða stöðin í Reykjahlíð var. Meðalhiti það sem af er þessum mánuði er 11,33 stig á Neslandatanga - gæti því verið um 11,8 í Reykjahlíð.
Reykjahlíðarlistinn nær með réttu aðeins aftur til 1936. Júní 1953 er efstur á þeim lista með 11,40 stig. Ekki var athugað við Mývatn sumarið 1933. Þá var hins vegar athugað á Grímsstöðum á Fjöllum. Þar var byrjað 1907. Ef giskað er á hita við Mývatn í júní 1933 eftir hitamun við Grímsstaði gæti hann hafa verið um 11,6 stig.
Þar er topplistinn svona:
Grímst | júní | meðalh |
1 | 1953 | 10,80 |
2 | 1909 | 10,72 |
3 | 1933 | 10,54 |
4 | 1934 | 10,54 |
5 | 1941 | 10,30 |
Við fáum meðaltal júnímánaðar í ár ekki fyrr en eftir mánaðamótin, en hitinn á sjálfvirku stöðinni þar er 10,69 stig. Mælt var bæði á sjálfvirku- og mönnuðu stöðinni í fyrra (2013) og þá munaði nær engu á mánaðameðaltali stöðvanna tveggja.
Hér er staðan núna ofan við mánaðarmeðaltalið 1933 - rétt undir 1909 og vantar aðeins 0,1 stig upp á það hlýjasta sem vitað er um. Við sjáum að júní 1909 hefur verið drjúghlýr - mælingar á Grímsstöðum og Akureyri eru alveg óháðar. Júlí og ágúst 1909 voru hins vegar ekki sérlega spennandi.
Mönnuð stöð var á Húsavík frá 1925 til 1994 og þar hefur verið sjálfvirk stöð frá 2003. Ekki hefur verið gerð tilraun til þess að tengja stöðvaraðirnar saman. En meðalhitinn á Húsavík er nú 11,32 stig. Það er hærra heldur hæsta eldra meðaltal sjálfvirku stöðvarinnar - en lægra en hæstu tvö júnímeðaltöl mönnuðu stöðvarinnar (1933 og 1953 - en síðarnefndi júnímánuðurinn er sá hlýjasti á Húsavík - grunsamlega hlýr).
Miðað við meðaltal síðustu tíu ára eru vikin nú (að kvöldi 24. júní) stærst við Mývatn og í Svartárkoti, +2,89 stig á báðum stöðvum - og +3,13 stig á vegagerðarstöðinni á Mývatnsöræfum. Þarna er hjarta hlýindanna nú.
Nú - Reykjavík á enn möguleika á meti og fleiri stöðvar þar sem athugað hefur verið í hundrað ár eða meir. Við reynum að fylgjast með því.
Bloggfærslur 25. júní 2014
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.7.): 76
- Sl. sólarhring: 148
- Sl. viku: 1858
- Frá upphafi: 2485144
Annað
- Innlit í dag: 67
- Innlit sl. viku: 1645
- Gestir í dag: 60
- IP-tölur í dag: 60
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010