Af háloftahringrásinni 25. júní

Við lítum á ástandið í háloftunum um þessar mundir. Myndin sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á miðvikudag, 25. júní - ekki þann 24. eins og hefur misritast í texta myndarinnar.

w-blogg250614a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ísland er rétt neðan við miðja mynd. Ítalía ekki fjarri neðra hægra horni og norðurhluti Bandaríkjanna lengst til vinstri. Heildregnar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam=10 metrar). Því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn sem blæs samsíða jafnhæðarlínunum. Þykktin er sýnd í lit. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mörkin milli grænu og gulu litanna eru við 5460 metra, en síðan er skipt um lit á 60 metra bilum. 

Þar sem liturinn er blár er þykktin minni en 5280 metrar - við viljum ekki sjá neitt þannig á þessum tíma árs. Blái liturinn er nú fyrirferðarminni heldur en yfirleitt er um jónsmessuna - en hann getur aukið útbreiðslu sína aftur. 

Ísland er nú í mjög hagstæðum hæðarhrygg - ekkert kalt loft er nærri. Aftur á móti verður ekkert sérlega létt að hreinsa skýin burt - vindur er úr suðri og verður það víst áfram. Þaðan kemur oftast nægur raki - helst að sólin láti sjá sig fyrir norðan og austan.

Við sjáum að frekar kalt er víðast hvar í Evrópu, hún er hulin grænum lit suður undir miðju. Á þessum árstíma fylgja miklar skúrir gjarnan svölu lofti á þeim slóðum (og öðrum). Aðalhlýindin eru austur í Síberíu og sömuleiðis er mjög hlýtt í norðvestanverðu Kanada.

Aðalkuldapollarnir eru yfir kanadísku heimskautaeyjunum. Sá við Baffinsland er skæður - í sumum spám fáum við afleggjara hingað til lands eftir helgina. Við getum þó enn vonað að við sleppum við það.

Þótt loftið yfir landinu teljist hlýtt virðist engin meiriháttar hitabylgja vera í uppsiglingu.  


Sýndarsnjórinn horfinn úr Esjunni og Skarðsheiði

Snjór bæði fellur og bráðnar í harmonie-líkaninu - það er reyndar afkimi í því sem kallast surfex sem sér um snjóinn. Við köllum þetta sýndarsnjó - til aðgreiningar frá þeim raunverulega. Nú er allur sýndarsnjór vetrarins horfinn úr Esju og Skarðsheiði og nærri því farinn úr Botnssúlum. Þetta er rúmum hálfum mánuði fyrr en í fyrrasumar. 

Raunverulega liggur snjórinn hins vegar í fönnum, stórum og smáum. Þær hafa svo vitað sé aldrei horfið alveg í Skarðsheiðinni norðanverðri og alltaf er spennandi síðsumars hvort suðurhlíð Esjunnar nær að hreinsa sig. 


Fjöldi tuttugustigadaga

Í síðustu færslu litum við á þær dagsetningar vor (eða sumar) þar sem hámarkshiti á landinu náði fyrst 20 stigum á árinu. Nú teljum við fjölda tuttugustigadaga á hverju ári. Munum að tuttugu stiga hiti hefur mælst í öllum mánuðum ársins nema desember, janúar og febrúar. En langflestir eru þeir í júlí.

Í síðustu færslu var minnst á fjölgun sjálfvirkra stöðva og fækkun þeirra mönnuðu. Þetta hefur reyndar oft borið á góma á hungurdiskum áður. Nú er það um það bil að gerast að mannaðar hitamælingar fara að leggjast af - vonandi þó enn um sinn hægt og bítandi frekar en allt í einu. Nú er svo komið að mannaða stöðvakerfið getur ekki eitt séð um að halda tuttugustigatalningunni úti. Það sjáum við á mynd.

w-blogg070614

  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér má sjá fjölda tuttugustigadaga á hverju ári frá 1949 að telja. Reyndar eru ekki allar stöðvar með fyrr en 1961 þannig að við tökum ekki mikið mark á fyrstu 12 árunum. Vonandi verður hægt að bæta þeim við á heiðarlegan hátt síðar (á hungurdiskum eða afkomendum þeirra). Stöðvum fjölgaði hægt fram á miðjan áttunda áratuginn - en breyttist síðan lítið þar til rétt upp úr aldamótum. Árið 2004 fækkaði stöðvunum snögglega og síðan hefur fækkunin haldið áfram - en sjálfvirkar stöðvar hafa meir en bætt það upp.

Af einhverjum ástæðum verður breyting á línuritinu frá og með 1984 - eftir það fjölgar árum með fleiri en þrjátíu tuggugustiga daga talsvert - en lélegu árin eru áfram til staðar.

Svo koma sjálfvirku stöðvarnar hér inn 1996 - og eru nánast alveg sammála mönnuðu stöðvunum um fjöldann fyrstu árin - en síðan fer tuttugustigadögum á mönnuðum stöðvum fækkandi - miðað við það sem sjálfvirku stöðvarnar eru að mæla. 

Trúlega hefur tuttugustigadögum fjölgað í raun og veru (ekki bara í stöðvakerfinu) - eitthvað í takt við hlýnunina miklu um og upp úr aldamótum. En við skulum ekki velta okkur upp úr því í bili. 


Bloggfærslur 24. júní 2014

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.7.): 101
  • Sl. sólarhring: 169
  • Sl. viku: 1883
  • Frá upphafi: 2485169

Annað

  • Innlit í dag: 90
  • Innlit sl. viku: 1668
  • Gestir í dag: 82
  • IP-tölur í dag: 82

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband