Óvenjulega hlýr júnímánuður - hingað til

Júnímánuður það sem af er  má heita hitabylgjulaus - en samt er hann meðal allra hlýjustu mánaða sem við þekkjum. Við eigum á lager daglegan meðalhita á nokkrum veðurstöðvum aftur til 1949 og því auðvelt að fylgjast með stöðunni frá degi til dags miðað við síðustu 65 árin.

Meðalhiti í Reykjavík fram til kl. 18, 23. júní í ár er 11,14 stig. Fyrstu 22 dagar júnímánaðar hafa aðeins einu sinni á þessu tímabili verið hlýrri í Reykjavík. Það var 2002 en þá var meðalhitinn 11,24 stig. Tvisvar að auki hefur hiti þessa hluta mánaðarins verið hærri en 11 stig. Það var 2003 og 2010. 

Topp-tíu listi 22 fyrstu júnídagana er nær alveg einokaður af árum á þessari öld, aðeins einn eldri júníhluti er á þeim lista, 1954.

Samræmdur mánaðarmeðalhiti er til í Reykjavík samfellt aftur til 1871. Á því tímabili eru fjórir júnímánuðir (allt til þess mánaðarloka) með meðalhita yfir 11 stigum, júní 2010 hlýjastur (11,43°C), 1871 (11,30°C), 2003 (11,26°C) og 1941 (11,08°C). 

Hægt er að slá á meðalhita sólarhringsins með því að reikna meðaltal hámarks- og lágmarkshita, útkoman er þó sjaldnast nákvæmlega sú sama og fæst sé meðaltalið reiknað á hefðbundinn hátt. Hámarks- og lágmarksmælingar hafa ekki verið samfelldar í Reykjavík allt mælitímabilið, en við getum samt notað meðaltöl reiknuð á þennan hátt til að búa til metingslista.

Meðaltal sólarhringshámarks- og lágmarkshita 1. til 23. júní 2014 er 11,32 stig. Á samanburðartímabilinu 1920 til 2013 reiknast fjórir eldri júnímánaðarhlutar hlýrri en þetta. Það eru [1. til 23.] júní 2010 (11,82°C), 2002 (11,58°C], 2003 (11,51°C) og 1941 (11,45°C]. 

Sé farið enn frekar í saumana á stöðunni kemur í ljós að árangur núlíðandi júnímánaðar er frekar hlýjum nóttum að þakka heldur en hlýjum dögum. Við lítum nánar á það þegar mánuðurinn er liðinn.

Á Akureyri er staðan í dag miðað við síðustu 65 ár þannig að aðeins einu sinni hefur verið hlýrra - það var í fyrra, 2013. Þar fyrir neðan er sami tími í júní 1988. Á Dalatanga er júní nú sem stendur í 5. sæti og því 4. eða 5. á Egilsstöðum. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum er það sem af er júní það hlýjasta í að minnsta kosti 65 ár. 

Hiti er nú ofan meðallags síðustu 10 ára (tímabils sérlegra hlýrra júnímánaða) á öllum veðurstöðvum landsins nema einni. Eyjabakkar þrjóskast enn við - hvor það stafar af bilun í stöðinni - eða sérstökum aðstæðum, t.d. óvenjulegri snjóþekju - vitum við ekki að svo stöddu.  

Þetta er allt harla óvenjulegt - en mánuðurinn er ekki búinn, athugum það. 


Af tuttugustigakomu snemmsumars

Fyrir 4 árum (tíminn líður hratt og allt það) var gerð grein fyrir því í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar hvenær hiti á vorin - eða snemmsumars næði 20 stigum í fyrsta sinn á árinu. Hér er reynt að uppfæra þær upplýsingar.  

Það þvælist nokkuð fyrir að stöðvum hefur fjölgað mikið á landinu og líkur á að hitta á snemmbæra tuttugustigabletti hafa því aukist að mun. Ekki hefur fjölgunin þó verið jafnhröð síðustu 10 árin og áratuginn næstan á undan því mönnuðum stöðvum hefur fækkað á móts við fjölgun þeirra sjálfvirku.

En við skulum búa til meðaltöl fyrir báðar stöðvargerðir og bera þær þar með saman. Lítum þá á árin frá 1997 til 2014. Á því tímabili náði hitinn einu sinni 20 stigum í mars á sjálfvirkri stöð, það var í Kvískerjum þann 29. árið 2012.  Á sama tímabili (1997 til 2013) náði hitinn fyrst 20 stigum á mannaðri stöð þann 9. apríl 2011. 

Lengst var biðin á sjálfvirku stöðvunum 2009 - þá þurfti að bíða til 26. júní - þetta er miklu lengri bið en annars hefur verið á tímabilinu. Eins var á mönnuðu stöðvunum - formlega stóð biðin 2009 þó einum degi lengur - til 27. júní, því hámarkshiti þess 26. var hæstur eftir mælinguna kl. 18 og kom ekki fram á hámarksmæli fyrr en kl. 9 daginn eftir. Á mönnuðu stöðvunum er lesið er af hámarks- og lágmarksmælum tvisvar á dag, kl. 9 og 18.

Meðaldagsetning fyrstu 20. stiga á sjálfvirku stöðvanna á þessu tímabili er 14. maí, en 24. maí á þeim mönnuðu. Hér munar töluverðu - tíu dögum. Í pistlinum frá 2010 sem vitað var til í upphafi pistilsins voru þessi meðaltöl 23. maí (sjálfvirkar) og 29. maí (mannaðar). Hin sérlega snemmbæru tuttugu stig 2011 og 2012 röskuðu meðaltalinu. Þetta bendir til þess að tímabilið 1997 til 2014 sé of stutt til þess að einhvers stöðugleika sé von. 

En nú höfum við sambærilegar upplýsingar frá mönnuðum stöðvum allt aftur til 1961. Meðaltal tímabilsins alls (1961 til 2013) er 1. júní. Við vitum ekki hvert meðaltal sjálfvirku stöðvanna hefði orðið hefðu þær jafnmargar athugað allan tímann. 

Við skulum líka minnast á hitt meðaltalið - svonefndan miðgildisdag. Það er sá dagur þegar þegar 50 prósent áranna hefur náð tuttugu stigum - en hinn helmingurinn ekki.

Á sjálfvirku stöðvunum 1997 til 2014 er það 17. maí, en 28. maí á þeim mönnuðu á sama tímabili. Frá 1961 til 2013 er það 3. júní. 

Einu sinni á tímabilinu 1961 til 2013 þurfti að bíða eftir 20 stigum á landinu fram til 21. júlí. Það var árið kalda 1979. Tuttugustigadagarnir urðu ekki nema tveir það árið. Flestir voru þeir 1984, 51.  


Bloggfærslur 23. júní 2014

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.7.): 90
  • Sl. sólarhring: 162
  • Sl. viku: 1872
  • Frá upphafi: 2485158

Annað

  • Innlit í dag: 79
  • Innlit sl. viku: 1657
  • Gestir í dag: 72
  • IP-tölur í dag: 72

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband