Fyrstu tíu dagar maímánaðar 2014

Fyrsti þriðjungur maímánaðar hefur verið mjög hlýr, hiti meir en þremur stigum umfram meðallagið 1961 til 1990 á sunnan- og vestanverðu landinu. Austanlands hefur verið ívið kaldara að tiltölu, vik innan við tvö stig. Keppnin við meðaltal síðustu tíu ára er heldur harðari, taflan að neðan sýnir stöðuna í þeirri keppni.

Meðaltöl fyrstu tíu daga maímánaðar 2014 
mhitivikúrksumúrkvik stöð
8,152,0816,2-1,6 Reykjavík
6,762,027,7-6,1 Stykkishólmur
5,321,706,5-11,8 Bolungarvík
6,161,424,1-6,1 Akureyri
3,640,01152,1120,8 Dalatangi

Hiti og hitavik eru í °C. Úrkomumagn er sýnt í mm og úrkomuvikin sömuleiðis. Í Stykkishólmi og Reykjavík er hitinn meir en 2 stig ofan við meðallagið, en hann er hins vegar nákvæmlega í meðallagi á Dalatanga.

Þessi fyrsti þriðjungur mánaðar er nú í fjórða hlýjasta sæti frá 1949 í Reykjavík og ekki er mjög langt í toppinn, en það eru 8,8 stig þessa sömu daga 1961 (já, 1961 - hitabylgjan mikla 1960 er rétt að koma inn í keppnina). Á Akureyri eru hlýindin í 16. sæti og því 21. á Dalatanga. Sé miðað við morgunhita í Stykkishólmi eru þessir dagar í 9. hlýjasta sæti, röðin sú nær alveg aftur til 1846.

Úrkoman er undir meðallagi á fjórum stöðvanna, mikið í Bolungarvík en er hins vegar langt umfram meðallag á Dalatanga. Þetta er langmesta úrkoma fyrsta þriðjungs maímánaðar á Dalatanga - að minnsta kosti frá 1949. Óvenjumikil úrkoma hefur líka mælst á Desjarmýri á Borgarfirði eystra - en aðrar stöðvar hafa ekki dregið upp úrkomumetaflögg.

Sólskinsstundir eru í meðalagi í Reykjavík - en loftþrýstingur er talsvert undir meðallagi, rétt eins og hefur verið það sem af er árinu.

Því miður er nú spáð kólnandi veðri og líklegt að mánuðurinn lækki heldur á metalistanum.

Rétt að taka fram að þessi færsla er skrifuð 11. maí 2014 - en birt síðar. Enn er slatti af eldri færslum óbirtur - það tekur tíma. Á meðan er bent á fjasbókarsíðu hungurdiska þar sem frem kemur ýmis konar smáfróðleikur á líðandi stund. Einnig skal ítrekað að athugasemdir þar sem nafna einstaklinga er getið eru ekki birtar - ekki heldur þær sem innihalda nafn ritstjórans.


IP25 - hvað er það? Íslandssöguslef 8

Hér verður farið aðeins útfyrir venjubundið umfjöllunarsvið hungurdiska. Ritstjórinn er ekki alveg rólegur á þessum slóðum - lesendur beðnir forláts.

IP25 er nýframkomið veðurvitni - óbeint eins og mörg slík og varla fullkomlega ljóst hvað það er að segja. Skammstöfunin er einföld, á ensku: Ice Proxy with 25 carbon atoms, ísvísir 25 kolefnisfrumeinda, jarðefnalipíð af lífrænum uppruna (biomarker, lífvísir). Magn þess í sjávarseti er talið sýna blóma ákveðinna þörunga (diatom) að vorlagi á hafísslóðum. Þörungurinn heldur til í saltvatnsrásum neðan á hafís.

IP25 er aðeins einn af fjölmörgum lipíðlífvísum. Margt er óljóst um líf, eðli og útbreiðslu þörunganna og ekki hefur verið endanlega neglt um hvaða tegundir er að ræða - en nokkrar liggja undir sterkum grun.

Menn mæla nú magn IP25 með reglubundum hætti í sjávarkjörnum og benda mælingarnar sterklega til þess að magnið tengist hafísútbreiðslu að vorlagi, á blómatíma þörunganna. Þeir virðast ekki lifa í sama magni þar sem ís liggur allt árið og sömuleiðis ekki þar sem íslaust er allt árið.

Hér við land hagar einmitt þannig til að ísútbreiðsla er að jafnaði mest á vorin og mikill breytileiki er í ísmagni bæði frá ári til árs og á áratuga og aldakvarða.

Fyrsta greinin sem tengdi ísmagn og IP25 birtist 2007. Rannsókn sú var gerð á heimskautaslóðum Kanada. Árið 2009 birtist síðan fyrsta greinin sem fjallaði um IP25 við norðurströnd Íslands og breytileika þess frá landnámi. Stórfróðleg, en e.t.v. ekki alveg skotheld grein sem hungurdiskar munu vonandi fjalla um fljótlega (fer eftir því hvernig atlagan að aðalskýringarmyndinni gengur).

En þeir sem áhuga hafa á IP25-vísinum og notkun hans sem veðurvitnis verður að benda á grein Simon T. Belt og Julianne Müller í tímaritinu Quarternary Science Reviews 79, 1. nóvember 2013, s 9–25. Greinin leitast við að skýra út flest það sem máli skiptir - ekki síst veikleika aðferðarinnar og þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru á næstunni vegna nýtingar vísisins. Greinin er opin í gegnum landsaðgang. Í lok hennar er langur listi tilvitnana - náma fróðleiks um veðurfar fyrri alda.

Belt og Müller (2013): The Arctic sea ice biomarker IP25: a review of current understanding, recommendations for future research and applications in palaeo sea ice reconstructions. 


Bloggfærslur 15. júní 2014

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.7.): 74
  • Sl. sólarhring: 147
  • Sl. viku: 1856
  • Frá upphafi: 2485142

Annað

  • Innlit í dag: 65
  • Innlit sl. viku: 1643
  • Gestir í dag: 58
  • IP-tölur í dag: 58

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband