Suðvestanátt í þrjá daga (hvað svo?)

Í dag (miðvikudaginn 5. mars) fór meðalvindátt á landinu loks vestur fyrir suður og hinni hreinu austanáttarsyrpu því lokið. Líklega verður meðalátt líka úr suðvestri eða vestri á morgun, fimmtudag, og sömuleiðis á föstudaginn. Þann dag verður kröpp lægð suður í hafi sem spurning er hvað gerir.

Eins og er gera spár ráð fyrir því að hún fari til norðausturs við Suðausturland á laugardaginn. Fyrir utan braut lægðarinnar er nokkur óvissa með úrkomutegund - það er að segja hvar rignir og hvar snjóar. Rétt að fylgjast með spám Veðurstofunnar varðandi slíkt - sem og auðvitað vindhraða.

En við bregðum upp spákorti evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 á föstudag.

w-blogg060314a 

Stóra lægðin er þarna um 963 hPa í miðju, dýpkar ört og hreyfist hratt til norðnorðausturs. Hún skefur upp dálítinn hæðarhrygg á undan sér - eins og hver önnur jarðýta og þá herðir tímabundið talsvert á suðvestanáttinni norðan við hrygginn þegar hann aftur stuggar við lægðinni vestan við land. Þessu fylgir eitthvað leiðindaéljakóf um landið vestanvert. - En svo slaknar á áður en djúpa lægðin tekur völdin.

Í framhaldi af hlýindafréttunum frá Svalbarða sem voru hér upp á borðinu í gær má geta þess að einnig var mjög hlýtt á Norðaustur-Grænlandi, hiti var 6,9 stigum ofan meðallags við Scoresbysund og 5,6 stig ofan þess á Station Nord. Einnig var óvenjuhlýtt í Syðri-Straumfirði (+4,9) og norður við Thule (+2,6 stig). Í Nuuk og þar sunnan við var hiti hins vegar nærri meðallagi - enda náði kuldinn að vestan stundum þangað. Einnig má koma fram að (alþjóða-) veturinn var sá hlýjasti í Björgvin í Noregi frá því að samfelldar mælingar hófust þar 1861. Kuldafréttir úr fjarlægum heimsálfum virðast oftast sjá um að birta sig sjálfar á athugasemdum hungurdiska án aðkomu ritstjórans.


Bloggfærslur 6. mars 2014

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg170725a
  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.7.): 198
  • Sl. sólarhring: 205
  • Sl. viku: 1846
  • Frá upphafi: 2485503

Annað

  • Innlit í dag: 181
  • Innlit sl. viku: 1637
  • Gestir í dag: 170
  • IP-tölur í dag: 167

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband