Af ástandinu í heiðhvolfinu snemma í febrúar

Það er um það bil mánuður síðan fjallað var um ástandið í heiðhvolfinu hér á hungurdiskum. Rétt er að líta á stöðuna nú, viku af febrúar.

Nú verður að játa að ritstjórinn hefur ekki verið nógu duglegur við að fletta daglegum háloftakortum sem háskólinn í Berlín gaf út á árum áður. Þetta hefur þær afleiðingar að hann á erfitt með að meta hversu óvenjuleg staðan á 30 hPa-korti dagsins er í langtímasamhengi. En hún er alla vega ekki sú algengasta í janúar og febrúar.

w-blogg080214a

Hér má sjá mestallt norðurhvel - skautið er rétt ofan við miðja mynd. Við erum í 30 hPa-fletinum sem er nú í 22 til 24 km hæð (merkingar eru í dekametrum). Litafletir sýna hitann, fjólublái liturinn markar -82 stig, en sá brúnasti markar um -50 til -46 stiga frost. Kortið batnar mjög við stækkun.

Hringrásin er mjög aflöng og lægðarmiðjur tvær (gleraugnalægðir). Auk þess eru tvö myndarleg háþrýstisvæði á kortinu. Þessi staða er búin að vera svipuð í nærri því mánuð. Eiginlega svipaðan tíma og mesta hringrásarröskunin á norðurhveli hefur staðið. Það er mjög líklegt að tengsl séu á milli - en ekki gott að segja í hverju þau nákvæmlega felast.

Einhvern veginn hefur maður búist við því að hringrásin skiptist alveg í tvennt og eyðileggist síðan svipað og gerðist snemma í janúar í fyrra - en sú skipting hefur látið á sér standa. Svona kauðaleg getur leti ritstjórans verið - að koma sér ekki í það að fletta þessum tíuþúsund kortum. En langtímatölur segja að ólíklegt sé að algjört hringrásarniðurbrot með skyndihlýnun eigi sér stað tvö ár í röð - sú reynsla liggur alla vega fyrir.

En þótt þetta gleraugnaástand heiðhvolfsins sé skrýtið er það samt allt öðru vísi (og mun eðlilegra) heldur en var á sama tíma í fyrra - við skulum rifja það upp á korti til að geta rétt tilfinningalega slagsíðu ástandsmatsins af.

w-blogg080214b 

Staðan í fyrra gæti nærri því verið á annarri plánetu - svo ólíkt er hún stöðunni nú. Lægðin er þarna aðeins að ná sér eftir algjört niðurbrot janúarmánaðar - en hún náði sér aldrei alveg það sem eftir lifði vetrar.

En hvað svo? Nú bregður svo við að spár segja að hæðin yfir Austur-Síberíu eigi að slakna - en jafnframt á lægðaraugað til vinstri að vaxa töluvert á kostnað þess til hægri (sem er öflugra í dag). Hvort þetta eru einhver merki um að sú óvenjulega staða sem við erum í niðri í veðrahvolfinu sé að breytast vitum við ekki. En eðlilegt ástand í febrúar felst annað hvort í lægðagangi yfir Ísland - eða kaldri norðanátt en ekki eilífri Bretlandseyjalægð og hlýindum í norðurhöfum eins og nú.


Bloggfærslur 8. febrúar 2014

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg170725
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 29
  • Sl. sólarhring: 194
  • Sl. viku: 1247
  • Frá upphafi: 2485712

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 1082
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 28

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband