Fyrsti vorboðinn?

Eitt fyrsta merki um að vetri fari að halla er þegar sól hækkar svo á lofti að hún nær að hita land nægilega mikið til þess að (skyn-)varmi streymi frá því til lofts en ekki öfugt. Í upphafi gerist þetta aðeins rétt um og upp úr hádegi. Þetta er langgreinilegast yfir auðri jörð en getur líka gerst yfir snjó ef sólinni tekst að hita yfirborð hans þannig að það verði hlýrra heldur en loftið.

Nauðsynlegt er að halda utan um varmabúskap allan í veðurlíkönum - mikil orka fer m.a. í það að bræða snjó, miklu meiri heldur en að hita þurrt yfirborð lands um fáein stig þannig að það verði hlýrra heldur en loftið. Á svipuðum tíma í fyrra fórum við að fylgjast með snjóalögum á landinu í harmonie-veðurlíkaninu. Við notum orðið sýndarsnjór (eða sýndarsnjóalög) um snjóinn í líkaninu til aðgreiningar frá þeim raunverulega sem hylur landið.

Líkanið er látið mæla snjómagnið í kílóum á fermetra - en ekki í sentímetrum. Lítum á sýndarsnjóinn eins og hann var um hádegi í dag (föstudaginn 14. febrúar).

w-blogg150214a 

Kortið skýrist talsvert sé það stækkað (opnið myndina tvisvar). Snjórinn er mestur á Öræfajökli, um 6,7 tonn á fermetra, en síðan koma Mýrdalsjökull með 5,1 tonn á fermetra og Drangajökull með 4,9 tonn. Aðrir jöklar og fjöll eru hulin talsvert minna magni. Líkanið segir um 450 kg á fermetra þar sem mest er á Esjunni. Láglendi um allt sunnan og vestanvert landið er alautt og margir dalir nyrðra og eystra líka. Að sögn líkansins er lítill snjór á Þjórsár- og Tungnársvæðinu og sömuleiðis á stórum svæðum á Kili.

Nú verður að minna á að enn eru tveir og hálfur mánuður eftir af vetri og líklegri viðbótarsnjósöfnun á hálendinu og í snjóþungum sveitum. Sömuleiðis er rúm fyrir töluverðan og jafnvel þaulsetinn snjó á svæðunum sem eru auð á kortinu áður en vetri linnir. Það hefur gerst 12 sinnum á síðustu 93 árum að mars hefur átt flesta alhvíta daga vetrarmánaðanna í Reykjavík. Því sæti verður að vísu erfitt að ná í ár vegna þess að alhvítir dagar voru 22 í desember síðastliðnum og svo margir eða fleiri hafa alhvítu dagarnir aðeins orðið þrisvar á árunum 93. - En hver veit?

Lítum þvínæst á skynvarmaflæðisspá líkansins um kl.15 á morgun (laugardag 15. febrúar).

w-blogg150214b 

Grænir litir sýna þau svæði þar sem varmi streymir úr lofti til jarðar - loft er hlýrra heldur en yfirborðið. Landið er mjög grænt, en við sjáum að allmörg þeirra svæða sem auð eru á snjóalagakortinu að ofan eru lituð rauðbrún - þar er land hlýrra heldur en loft - í líkaninu. Tölur og litir sýna Wött á fermetra.

Sjórinn kringum landið er alls staðar hlýrri heldur en loftið eins og vera ber í norðanátt (sjá vindörvarnar). Sjá má að skynvarmaflæðið fer mjög eftir vindhraða - loftið blandast betur eftir því sem vindhraði er meiri og kalt loft nær greiðara sambandi við yfirborðið. Kunnuglegir vindstrengir koma vel fram - og einnig stífla úti fyrir Norðurlandi þar sem loft hægir á sér - áður en komið er inn á land.

Ef kortið er skoðað í smáatriðum má sjá að líkanið telur að helstu vötn landsins séu íslaus - þar á meðal er Öskjuvatn. Ekki veit ritstjórinn hvort það er rétt - en í líkaninu er sérstakt undirforrit sem segir því hvað það á að gera við loft yfir stöðuvötnum. Þar á líkanið að búa til ís sé tilefni til þess - en einhver vandamál hafa verið með slíkt. Sömuleiðis eru ákveðin vandamál uppi þar sem líkanið rekst á (forskrifaðar) mýrar- eins og virðist vera uppi á teningnum yfir Arnavatnsheiði - þar er alhvítt - en samt er þar sérstakt hámark varmaflæðisins, rétt eins og öll vötnin óteljandi smyrjist út yfir alla heiðina.

Já, við líkansmíði er að mörgu að hyggja.

Í dag endaði frostleysutímabilið langa á Vattarnesi, lágmarkshiti á miðnætti var -0,1 stig. Ekki verður febrúar frostlaus þar í ár. Febrúar hefur fram að þessu verið mjög hátt á hitalistum, en mun hrapa eitthvað næstu daga. Fyrstu 14 dagarnir eru í 10. sæti í Reykjavík af síðustu 66 árum og meðalmorgunhitinn í Stykkishólmi er í 22. sæti af 169 - langt ofan við miðja töflu.


Bloggfærslur 15. febrúar 2014

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg170725
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 29
  • Sl. sólarhring: 194
  • Sl. viku: 1247
  • Frá upphafi: 2485712

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 1082
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 28

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband