Tveir kuldapollar og hæðarhryggur á milli

Nú og næstu daga blasa tveir stórir kuldapollar við á norðurhvelskortum. Annar yfir Atlantshafi en hinn yfir Norðuríshafi. Á milli þeirra er hæðarhryggur sem við njótum góðs af. Kortið að neðan sýnir þetta vel. Það gildir kl. 12 á sunnudaginn (9. júní). Kortið er frá evrópureiknimiðstöðinni.

w-blogg080613

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því hvassari er vindurinn. Hann blæs nokkurn veginn samsíða línunum. Litafletir sýna þykktina. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin á milli grænu og gulu litanna er við 5460 metra og milli blárra og grænna við 5280 metra. Ísland er rétt neðan við miðja mynd.

Kuldapollurinn stóri suðvestur í hafi er öflugur, hann geymir enn bláan blett. Þar er loft mjög óstöðugt. Takist hlýju lofti að brjótast inn í pollinn myndast djúp lægð. Allt undir 970 hPa telst til tíðinda. Til að búa til svoleiðis þarf rúmlega 5500 metra þykkt að ná inn í miðju hringrásarinnar. Spár undanfarna daga hafa ekki verið sammála um hvort það gerist og ekki heldur hvort eða hvenær pollurinn færist alveg austur til Bretlandseyja. Ólíklegt er að við sleppum alveg við úrkomusvæði, skil eða lægðir tengd þessu stóra kerfi.

En á sunnudaginn má sjá að Ísland er í námunda við hæðarhrygg sem rauða strikalínan markar og við erum sömuleiðis á mörkum grænna og gulra lita. Svo virðist sem gulu litirnir sæki heldur á. Mánudagsveðrið fer síðan eftir því hvort ræður, lægðarbeygja kuldapollsins eða hæðarbeygja hryggjarins. Verður það vonbrigðadagur eða nær hitinn vestanlands sér verulega á strik í einn til tvo daga? Nágrenni Esjunnar getur verið býsna gæft á hita í til þess að gera lágri þykkt í réttri gerð af austanátt og blikuhnoðraskotnu lofti. Sömuleiðis Borgarfjörður í austræningi.

Hér mega flestir hætta að lesa því afgangurinn er tyrfinn.  

Kuldapollurinn yfir Norðuríshafinu er öflugur. Hæð 500 hPa-flatarins er rétt rúmir 5 km (= 5000 metrar). Ef hann næði inn í sig hlýju lofti með þykktina 5320 metra yrði úr því sambandi 960 hPa lægð. Hér væri ekki verið að minnast á þetta nema fyrir þá sök að þannig spám hefur brugðið fyrir á stangli í reiknilíkönunum undanfarna daga. Á kortinu má sjá að þykktin í miðjunni er nú tæplega 5160 metrar. Sé sú þykkt og hæðin í miðju bornar saman fæst út að lægðarmiðjan er á bilinu 980 til 985 hPa við sjávarmál.

Spár sýna ekkert lát á norðurskautspollinum næstu viku til tíu daga en hann skýtur afkvæmum í ýmsar áttir - vonandi fáum við ekkert af þeim í hausinn. Sjá má eitt afkvæmanna við norðausturhorn Grænlands - heldur illilegt þótt lítið sé. Evrópureiknimiðstöðin segir það fara til Norður-Noregs - tilbreyting frá hitunum upp á síðkastið. Ekkert er þó víst um það því ameríska spáin fer mildari höndum um norðmenn.

En við vonum að við njótum hryggarins sem lengst - jafnvel þótt við lendum í suðurjaðri hans og inni í úrkomunni suðurundan. Allt frekar en enn einn skammt af kalsa.


Bloggfærslur 8. júní 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 74
  • Sl. sólarhring: 164
  • Sl. viku: 1815
  • Frá upphafi: 2466936

Annað

  • Innlit í dag: 65
  • Innlit sl. viku: 1662
  • Gestir í dag: 62
  • IP-tölur í dag: 61

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband