Kröftugar lægðir

Kuldapollurinn mikli sem sat allan fyrri hluta júnímánaðar yfir Norðuríshafi skipti sér í tvennt og tók vestari helmingurinn á skrið og fyrir helgina gekk hann til suðurs nokkuð vestan við Grænland og er á kortinu hér að neðan kominn nærri því að þeim stað sem góðkunningi aldinna veðurnörda, veðurskip Bravó sat á árum áður. Þetta er á milli Suður-Grænlands og austurstrandar Labrador.

Næst liggur leið pollsins til austurs og norðausturs í átt til Íslands og hann á síðan að halda áfram hraðferð sinni allt þar til hann er kominn á þann stað sem hringferðin hófst, yfir Norðuríshafi. En kortið sýnir stöðuna um hádegi á morgun, þriðjudag 25. júní. Öll kort pistilsins eru úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg250613aa

Eftir skiptinguna sat annar ámóta öflugur kuldapollur eftir yfir Norðuríshafinu og er á þessu korti við Ellesmereyju og á að verpa þar kuldaeggi sem fer til suðurs svipaða leið og sá fyrri. Í þessu tilviki eru allar þessar skiptingar hluti af rýrnunarferli kuldans á norðurslóðum, því enn eru nokkrar vikur í hásumar.

En eins og venjulega eru jafnhæðarlínur heildregnar en þykktin er sýnd með litaflötum. Blái liturinn sýnir svæði þar sem þykktin er minni en 5280 metrar - það er næturfrostaþykkt hér á landi á þessum árstíma. Dekkri blái liturinn er byrjar við 5220 metra en við svo lága þykkt getur gert slydduél á láglendi. Sjávarylur og sólskin sjá vonandi um að forða okkur frá slyddunni að þessu sinni - en enn telst óvíst með næturfrostið.

Þegar kuldapollurinn mætir hlýrra lofti úr suðri getur mikil lægðadýpkun átt sér stað á austurjaðri hans. Næsta mynd sýnir spá sem gildir kl. 6 á miðvikudagsmorgni (26. júní).

w-blogg250613a

Þarna er lægðin, á vestanverðu Grænlandshafi. Evrópureiknimiðstöðin telur hana verða um 977 hPa í miðju og hirlam-reiknilíkanið gerir hana enn dýpri. Þetta er óvenjulegt á þessum árstíma. Í lok síðustu viku gekk óvenjuöflug lægð beint til austurs fyrir sunnan land og kom ekki við sögu hér. Vestan við hana steig loftvog mest um 15 hPa á 3 klst sem er fáheyrt á þessum árstíma.

Við höfum séð dýpri lægðir en 977 hPa undir lok júnímánaðar og í júlí - en ekki mikið meira en svo. Í þessari lægð er miðjan svo köld að þessi lága þrýstitala felur enn dýpri háloftalægð sem sést á næsta korti.

w-blogg250613b

Hér eru jafnhæðarlínur enn heildregnar, litafletirnir sýna nú hita í 500 hPa og sömuleiðis má sjá vindörvar gefa styrk og stefnu. Það sem er merkilegast á kortinu er talan við háloftalægðina, 5140 metrar. Þetta er einhver lægsta tala sem sést hefur á 500 hPa-korti hér við land að sumarlagi. Varlegt er að fullyrða að um met sé að ræða en það er alla vega ekki fjarri því. Lægðin á að grynnast heldur áður en hún fer yfir landið á fimmtudagskvöld eða föstudag.

Það er erfitt að komast út úr svona kuldapollakraðaki. Það vill til að sól er hátt á lofti og hitar vel og vandlega þegar hún fær að skína, en ósköp er þetta aumt í bleytu og trekki.

En - verra gat það orðið. Fyrir tveimur dögum var spá fyrir þetta sama lægðakerfi enn verri. Þá átti ný og minni lægð að komast í tengsl við kuldapollinn og var vindi í 100 metra hæð sunnan við lægðarmiðjuna spáð 36 m/s. Ritstjórinn minnist þess varla að hafa séð svo mikinn vind við lægðarmiðju að sumarlagi - óstuddan af fjallgörðum eða landslagi. Við látum það spákort fylgja með sem viðhengi (jpg-skjal) svo lesendum hætti ekki til að rugla því saman við það sem nú er spáð. Lægðarmiðjan litla sem sést á viðhengiskortinu finnst ekki á spákortum dagsins í dag - vonandi rís hún ekki upp að nýju í þriðjudagsspánum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 25. júní 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 49
  • Sl. sólarhring: 165
  • Sl. viku: 1790
  • Frá upphafi: 2466911

Annað

  • Innlit í dag: 44
  • Innlit sl. viku: 1641
  • Gestir í dag: 44
  • IP-tölur í dag: 43

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband