Vorströggl

Vorinu hefur nokkuð miðað undanfarna daga og líkur til að næsta norðankast verði nokkru hlýrra heldur en þau sem á undan hafa gengið. - Hvað sem svo verður.

w-blogg100513a

Kortið gildir um hádegi á sunnudag. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar en litir sýna þykktina. Hún segir frá hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin á milli bláu og grænu litanna er við 5280 metra. Skipt er um lit á 60 metra bili. Allt blátt við Ísland er undir meðalhita þannig að sunnudagurinn verður ekki hlýr. En kalda loftið er að þessu sinni komið úr suðri - bítur varla.

Þegar háloftalægðin fyrir suðvestan land fer til austurs snýst vindur til norðausturs og norðurs eins og vera ber. Kalda loftið hringast loks um lægðina. Efnið í norðanáttinni verður þá að minnsta kosti til að byrja með komið sunnan fyrir lægðina, austur fyrir og loks til suðurs fyrir vestan hana. Von er til þess að bylgjan mikla yfir Ameríku loki fyrir loft sem annars kæmi til suðurs fyrir austan Grænland.

Það er nokkur kraftur í kuldapollinum mikla og má ef vel er að gáð sjá fjólubláan blett í honum miðjum. Þar er þykktin minni en 4920 metrar. Pollur þessi ógnar okkur ekki svo langt sem sést.

Lægðardragið í ameríkubylgjunni er öflugt og við sjáum að blái liturinn nær alveg suður um vötnin miklu. Vel má vera að það snjói og frjósi á þeim slóðum á sunnudag-mánudag. Miklar hitasveiflur eru þessa dagana vestra og hiti nærri metum sums staðar í norðvesturríkjunum á föstudag/laugardag.

Svo virðist sem hækkandi sól sé að takast að valda umskiptum í austanverðri Evrópu. Það er vorboði um norðanverða álfuna þegar loft úr austri hættir að vera kalt og verður þess í stað hlýtt.

Spár meir en 5 til 7 daga fram í tímann eru langoftast vitlausar á einhvern hátt. Þær breytast gjarnan hratt og mikið frá einu spárennsli til annars. Spá um öfgar langt fram í tímann eru nærri því alltaf rangar. En það er samt ekki leiðinlegt að fylgjast með þeim - og svo kemur fyrir að þær rætast.

Rennsli reiknimiðstöðvarinnar miðvikudaginn 8. maí kl. 12 lét hlýja loftið úr austri ná alveg til Íslands. Rennslið í dag, fimmtudaginn 9. maí kl. 12 sýndi allt annað ástand. Við sjáum þykktarspárnar á kortinu hér að neðan. Þær eiga við sama tíma í framtíðinni. Í fyrra rennslinu er þykktin yfir Íslandi meiri en 5480 metrar. Það dugir í hátt í 20 stiga hámarkshita á landinu. Síðara rennslið sýnir ekki nema 5280 metra þykkt. Dugir varla í 10 stiga landshámarkshita. Heldur leiðinlegt þegar búið er að veifa hlýindum framan í mann.

w-blogg100513b

En kalda rennslið (kalt hjá okkur) er hlýtt annars staðar því það segir að 5640 metra línan komist vestur á Mæri í Noregi við enda spátímabilsins. Það dugir í hátt í 27 til 30 stig ef heppni er með. Það væri nærri hlýindameti í Suður-Noregi í maí. Öfgar í enda spátímans - eru nærri því alltaf rangar. Skemmtiefni samt.


Bloggfærslur 10. maí 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 15
  • Sl. sólarhring: 169
  • Sl. viku: 1756
  • Frá upphafi: 2466877

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 1611
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband