Lagðar niður (ekki þó alveg)

Þessa dagana eru þrjár mannaðar veðurskeytastöðvar að hverfa af kortunum. Þetta eru Lambavatn (byrjaði 1922), Kirkjubæjarklaustur (byrjaði 1926) og Stórhöfði í Vestmannaeyjum (byrjaði 1921). Auðvitað er mikil eftirsjá að þeim öllum. En úrkomumælingar halda vonandi áfram og á öllum stöðunum halda sjálfvirkar stöðvar mælingum áfram.

Sú spurning kemur upp hvers megi vænta varðandi samfellu hitamælinga á þessum stöðum. Í öllum tilvikum hafa samhliða mælingar verið gerðar í nokkur ár. Tilefni er til samanburðar en hann er gerður á ýmsan hátt. Sá einfaldasti er að bera saman mánaðarmeðalhita stöðvagerðanna tveggja og leita árstíðasveifluna uppi.

Línuritin eru ekki falleg og myndrænt dálítið úr jafnvægi en hér var ákveðið að hafa þetta svona til þess að hitakvarðarnir yrðu nákvæmlega eins. Lítum fyrst á Stórhöfða.

w-blogg010513a

Lárétti ásinn sýnir mánuði ársins en sá lóðrétti meðalmun mönnuðu og sjálfvirku stöðvanna. Sé munurinn jákvæður hefur verið hlýrra á mönnuðu stöðinni. Sjá má að munur á mælingum stöðvanna beggja er 0,1 stig eða minni í öllum mánuðum. Meðalmunur fyrir árið í heild er aðeins 0,07 stig. Það þýðir að hægt er að nota hitamælingar sjálfvirku stöðvarinnar í beinu framhaldi af mælingum þeirrar mönnuðu.

Veðurathuganir á Stórhöfða hafa verið gerðar á 3 klukkustunda fresti í meir en 60 ár. Það þýðir að dægursveifla á stöðinni er vel skilgreind og stöðvarnar samanburðarhæfar hvað þetta snertir.

Sama á við um Kirkjubæjarklaustur. Þar hefur líka verið athugað á 3 klukkustunda fresti í meir en 60 ár. Dægursveiflan þar er því heldur ekki til vandræða við meðaltalsreikninga. Samanburðurinn á mönnuðu og sjálfvirku stöðinni sýnir hins vegar nokkurn mun.

w-blogg010513c

Myndin sýnir að hlýrra hefur verið á mönnuðu stöðinni heldur en þeirri sjálfvirku í öllum mánuðum ársins. Enda þó nokkur vegalengd milli stöðvanna. Sú mannaða hefur lengst af verið í góðu skjóli inni í þéttbýlinu - en hin er austar, á svonefndum Stjórnarsandi. Ástæður munarins eru fleiri en ein. Alla vega er ítarlegri samanburðar þörf, þar á meðal á dægursveiflu einstakra mánaða.

Meðalmunur yfir árið er 0,27 stig. Hann er mun meiri að vetrarlagi heldur en á sumrum. Minnstur er munurinn í september. Í framhaldinu þarf greinilega smáleiðréttinga við, æskilegast er að þær séu sem einfaldastar.

Myndin á Lambavatni er enn önnur.

w-blogg010513b

Þar er hlýrra á sjálfvirku stöðinni í júní, júlí og desember. Meðalmunur yfir árið er nærri því enginn, eða mínus 0,05 stig. Á mönnuðu stöðinni voru aldrei gerðar athuganir að nóttu. Meðalhita hefur því þurft að reikna með aðstoð svokallaðra hitastuðla. Á stöðvum án næturathugana fæst aldrei trygging fyrir því að stuðlarnir hafi verið rétt áætlaðir nema með ítarlegri mælingum. Leiðréttingarstuðlarnir eru misstórir eftir mánuðum en hafa samt verulega árstíðasveiflu.

Útlit myndarinnar gæti bent til þess að taka þurfi stuðla Lambavatns til athugunar. Reynist þeir hafa verið ónákvæmir þarf að endurreikna öll eldri meðaltöl staðarins - eigi að framlengja mæliröðina með því að nota sjálfvirku stöðina.

Það er almennt séð mikið óráð að leggja niður athuganir á stöðvum þar sem athugað hefur verið lengi án þess að hægt sé að bera mannaðar og sjálfvirkar athuganir saman um nokkurra ára skeið. Í þessum tilvikum hafa samanburðarmælingar verið gerðar og ætti með tiltölulega lítilli fyrirhöfn að vera hægt að halda mæliröðunum óslitnum í framtíðinni.


Bloggfærslur 1. maí 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 11
  • Sl. sólarhring: 166
  • Sl. viku: 1752
  • Frá upphafi: 2466873

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 1607
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband