Opin staða í nokkra daga

Lægðasvæðið djúpa suður í hafi (sérlega djúpt miðað við árstíma) sendir nú úrkomukerfi í átt til landsins. Þegar þetta er skrifað (seint á laugardagskvöldi) eru lægðarmiðjurnar orðnar tvær og eiga að snúast í kringum hvora aðra næstu daga jafnframt því að hreyfast til norðausturs fyrir suðaustan land. Norðanáttin heldur því áfram - verður þó eitthvað austlægari meðan kerfið er sunnan við land.

Það er þónokkur ruðningur í þessu og ekki ljóst hvað úr verður síðar í vikunni. Við lítum á norðurhvelskort sem sýnir hæð 500 hPa flatarins (heildregnar línur) og þykktina (litafletir) eins og evrópureiknimiðstöðin ætlar hana verða um hádegi á mánudag (15. apríl).

w-blogg140413a

Ísland er rétt neðan við miðja mynd en hún sýnir norðurhvel jarðar suður fyrir 30. breiddarbaug. Við sjáum gríðarbreitt lægðardrag ná vestan frá Kanada alveg til Evrópu. Sú breyting hefur orðið frá stöðunni að undanförnu er að heimskautaröstin sveigir nú til norðausturs um Bretlandseyjar og Skandinavíu. Mikill kuldapollur er við norðurskautið - en hefur grynnst áberandi mikið á undanförnum vikum. Rétt grillir nú í fjólubláa, kaldasta litinn - en hann mun næstu vikurnar koma og fara á víxl.

Lítill vindur er í háloftunum yfir Íslandi (jafnhæðarlínur mjög gisnar) en vanir kortalesendur sjá greinilega að þykktarbratti er töluverður (litir eru þéttir - það sést betur sé kortið stækkað) á þeim slóðum. Þykktarbratti án vinds í háloftum táknar að vindur er því meiri í neðstu lögum - hér úr norðaustri. Norðaustanáttin heldur því áfram.

Loftþrýstingur hefur verið óvenjuhár á annan mánuð - þessa vikuna verður hann hins vegar lágur. Einhver tilbreyting í því? Loftþrýstifallið er reyndar hluti af talsverðu losi á heildarhringrásinni og meðan breytingin gengur yfir er staðan opnari heldur en verið hefur. Um mánaðamótin mars-apríl í fyrra hrökk hringrásin milli gíra, eftir 14 mánaða sunnanátt skipti yfir í norður og austur. Skyldi breyting verða nú?

 


Bloggfærslur 14. apríl 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 8
  • Sl. sólarhring: 164
  • Sl. viku: 1749
  • Frá upphafi: 2466870

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 1605
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband