Frekar óvenjulegt (en ekki út úr korti)

Síðdegis í dag (föstudag 12. apríl) gat að líta óvenjulegt skýjafar við Faxaflóa. Háreistir éljaklakkar fóru um sviðið. Þeir óðu upp - varla búnir að myndast þegar öll úrkoman var fallin úr þeim - harla rýr að vöxtum enda var rakastig í Reykjavík á sama tíma innan við 40%. Sól skein á milli klakkanna og í gegnum éljadrögin - í norðanáttinni. Vont að geta ekki sýnt myndir af þessu en það er varla hægt að mynda allt - mikið vantar upp á heildaráhrifin.

En hvað um það. Kortið hér að neðan má minna á þetta ástand. Ekki er þó beinlínis hægt að sjá það af kortinu einu saman. Það gilti klukkan 15 í dag (þegar klakkarnir voru upp á sitt besta).

w-blogg130413a

Tvennt er kunnuglegt á kortinu, þarna eru venjulegar vindörvar og sýna vind í 10 metra hæð og sömuleiðis má sjá hefðbundnar jafnþrýstilínur taka sinn venjulega norðaustanáttarsveig yfir landinu. Litafletirnir sýna hins vegar hæð efra borðs jaðarlagsins svonefnda. Lítillega er um það fjallað í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar. Þar segir m.a.: Jaðarlagið er skilgreint sem sá hluti veðrahvolfsins sem er undir svo nánum áhrifum frá yfirborði jarðar að fréttir af breytingum þar geti borist á klukkustund eða minna í gegnum allt lagið.

Bláu litirnir sýna þunnt jaðarlag - efra borðið er ekki nema í um 200 metra hæð yfir sýndarVatnajökli líkansins. Rauði liturinn við vesturströnd Íslands táknar þykkara jaðarlag, hæst er í það í punkti rétt við Reykjavík, 2742 metrar (nákvæmt skal það vera). Á svona korti sýna rauðu svæðin sérlega óstöðugt loft - í dag var hrært svo ört að varla var hægt að fylgjast með.

En það er fleira óvenjulegt á ferðinni. Þar er sérlega djúp lægð  - langt vestur af Írlandi. Öllu lægri tölur sjást ekki í apríl. Kortið að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hádegi á laugardag. Táknmál þess er kunnuglegt, jafnþrýstilínur, úrkoma og hiti í 850 hPa-fletinum (strikalínur).

w-blogg130413b

Lægðin hefur áhrif á mjög stóru svæði og þar á meðal á Íslandi en ekki fyrr en á sunnudag - þá farin að grynnast (en leiðindi samt). Við sjáum tvær smálægðir á kortinu við Ísland, önnur er fyrir suðaustan land var nokkuð öflug í dag (föstudag) en farin að grynnast um hádegi á morgun - kannski kemur hún aftur til vesturs með Suðurlandi. Hin lægðin er við Vestfirði - býsna kröpp og er þarna á leið til suðvesturs.

Þótt lægðin suður í hafi sé óvenjuleg er ástandið í 500 hPa jafnvel enn óvenjulegra. Þetta er spá bandarísku veðurstofunnar (fyrir fljótfærni ritstjórans).

w-blogg130413c

Hér eru jafnhæðarlínur heildregnar, en rauðar strikalínur sýna þykktina. Því meiri sem hún er því hlýrra er í neðri hluta veðrahvolfs. Miðja kuldapollsins sem valdið hefur köldu veðri undanfarna daga er þarna rétt undan Vesturlandi. Það er 5100 metra jafnþykktarlínan sem kemur inn á land. Þessi þykkt er dæmigerð fyrir kaldan útsynning að vetrarlagi - suðvestanátt er reyndar við Suðvesturland í þessari hæð - en hún nær ekki niður orðin að veikri norðvestanátt við jörð (sjá efra kort).

En 500 hPa-hæðin í lægðarmiðjunni suður í hafi er 4980 metrar (ösmár hringur) - það er óvenjulegt svo sunnarlega undir miðjan apríl. Aðeins hálfur mánuður tæpur í sumardaginn fyrsta.


Bloggfærslur 13. apríl 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 158
  • Sl. sólarhring: 165
  • Sl. viku: 2167
  • Frá upphafi: 2466856

Annað

  • Innlit í dag: 144
  • Innlit sl. viku: 2003
  • Gestir í dag: 136
  • IP-tölur í dag: 131

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband