Óvenjuleg hlýindi - fjúka hjá

Óvenju hlýtt hefur verið víða um land í dag (þriðjudag 26. nóvember) og í gær. Sérlega hlýtt hefur verið á Austfjörðum og komst hiti í 20,2 stig á Dalatanga. Sjaldgæft er að hiti nái 20 stigum í nóvember og aðeins er vitað til þess að það hafi gerst í tveimur fyrri nóvembermánuðum, 1999 og 2011. Í nóvember 1999 fór hiti raunar í 20 stig tvisvar með nokkurra daga millibili.

Hámarkshitamet mánaðarins var sett í fyrri hrinunni 1999, 23,2 stig mældust þá á sjálfvirku stöðinni á Dalatanga og 22,7 á mönnuðu stöðinni á sama stað.

Hitinn í dag er sá hæsti sem mælst hefur svo seint á árinu og var dægurmet dagsins slegið svo um munaði, fyrra metið var sett á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði 1994 og var 14,5 stig. Met dagsins var sum sé 5,7 stigum hærra.

Mikil hrúga af dægurmetum stöðva féll eins og vera ber, flest á sjálfvirkum stöðvum sem ekki hafa athugað lengi, en dægurmet féllu reyndar á mönnuðu stöðinni á Akureyri þar sem nokkuð öruggur dægurhámarkalisti nær aftur til 1938 (13,9 stig) - og á mönnuðu stöðinni á Dalatanga en þar er dægurmetalistinn 64 ár (65 með nýju færslunni).

Tafla sem sýnir ný met fyrir nóvember allan á veðurstöðvunum er hins vegar heldur rýr. Hitahrinurnar 1999 og 2011 eiga enn flestöll mánaðametin. Þeim var ekki haggað í dag.

Hvasst var á landinu í dag og á hvassviðrið sinn þátt í hinum háa hita. Það er óvenjulegt að hiti á veðurstöð nái mættishita í 850 hPa. Yfirleitt blandast hlýindin í háloftunum við kalt loft neðar þannig að munur sé á þessu tvennu - jafnvel fljóti hlýja loftið alveg yfir. Evrópureiknimiðstöðin sagði mættishitann við Austurland hafa komist í rúm 20 stig. Þykktin var meiri en 5540 metrar - það er eins og á góðum sumardegi.

En þetta er væntanlega það hlýjasta í bili, við vonum auðvitað það besta en ekki er víst að 20 stigunum verði náð aftur fyrr en í maí næsta vor - eða enn síðar. Veðrið hefur samt lag á að koma okkur sífellt á óvart. Umhleypingarnir eiga samt að halda áfram en með venjubundnari hita. Svo er alltaf eitthvað kuldakast lengra framundan ef trúa má spánum. Við vonum að slíkt rætist ekki.

Vegna flókinna átaka á alþingi hungurdiska um framtíðarritstjórnarstefnu miðilsins verður minna um pistla á næstunni en verið hefur að jafnaði undanfarin ár. Leitað er pólitískra lausna.


Bloggfærslur 27. nóvember 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg170725
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.7.): 6
  • Sl. sólarhring: 140
  • Sl. viku: 1214
  • Frá upphafi: 2486123

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1072
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband