Önnur lægð fer yfir Grænland

Nefnt var fyrir nokkrum dögum að vikan færi í að koma tveimur lægðum yfir Grænland og áfram austur. Fyrri lægðin fór til hjá í dag (þriðjudag) en sú síðari fer yfir Grænland aðra nótt. Mikið illviðri af suðri hefur fylgt þessum lægðum við vesturströnd Grænlands. Í Nuuk hefur vindur legið í 20 til 30 m/s í sunnanáttinni á undan lægðunum. Vill til að þar eru menn ýmsu vanir. Þegar síðast fréttist (um kl. 23 að íslenskum tíma) voru þar enn 25 m/s af suðri. Sennilega lægir í nótt.

En talsverð hlýindi berast nú á undan síðari lægðinni til austurs um Grænland og síðan Ísland. Kortið hér að neðan sýnir þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 6 á fimmtudagsmorgni (21. nóvember).

w-blogg201113a 

Jafnþykktarlínur eru svartar og heildregnar en litir sýna hita í 850 hPa. Að hluta til er loftið komið úr suðri - en að hluta til stafa hlýindin af niðurstreymi austan Grænlandsjökuls. Suðvestan og sunnan Íslands er þykktin vel yfir 5400 metrum.

Venjulega liggja litir og jafnþykktarlínur nokkuð samsíða á kortum af þessu tagi en hér bregður talsvert út af yfir Íslandi. Þar liggur kalt loft yfir landinu þótt mjög hlýtt sé ofar. Frostlaust er í um 2900 metra hæð yfir landinu sunnanverðu - en -2 til -4 stiga frost er í 1400 metrum og jafnvel meira neðar. Staðbundnar hitaspár eru mjög erfiðar í stöðu sem þessari.

Ef trúa má líkaninu mun hlýja loftið þó slá sér niður síðar um daginn - og þá austanlands. Mættishiti í 850 hPa fer þá yfir 20 stig (já, plús) - en - æ - þess gætir varla niður undir sjávarmáli. Helst að möguleiki sé á skammvinnum hitatoppi á sunnanverðum Austfjörðum - það er þó móti líkum að einhver sérstök tíðindi verði.

Í efra vinstra horni myndarinnar er mjög kalt loft - algjör kuldaboli. Þykktin ekki nema 4940 metrar. Þetta loft virðist vera nægilega vel blandað til þess að eiga greiða leið yfir jökulinn. Alla vega gerir reiknilíkanið ráð fyrir því - en það gerist norðan við 70. breiddarstig.

Þetta sést vel á síðara kortinu en það sýnir þykktina rúmum sólarhring síðar en það fyrra, um hádegi á föstudag.

w-blogg201113b 

Á fyrra kortinu var hæsta þykktin sem sást 5480 metrar en sú lægsta 4940 metrar. Það hefur ekki breyst á því síðara. Það sem hefur breyst er að hlýja loftið hefur hörfað austur til Noregs og til Skotlands en yfir Íslandi er gríðarlegur þykktarbratti, 180 til 200 metrar. Hitamunur á milli Norður- og Suðurlands er um 18 til 20 stig í 850 hPa.

Þykktarbratti af þessu tagi er óþægilegur - en hefur oft komið við sögu á þessum vettvangi áður. Man einhver eftir því? Taka skal fram að ekki er ætlast til að lesendur muni eitt eða neitt. Við fjöllum bara enn og aftur um málið síðar í von um að tveir til fjórir fari að muna.


Bloggfærslur 20. nóvember 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg170725
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.7.): 6
  • Sl. sólarhring: 140
  • Sl. viku: 1214
  • Frá upphafi: 2486123

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1072
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband