Heldur kólnandi

Lægðardragið sem hefur verið yfir landinu undanfarna daga þokast nú austur af. Norðanáttin sem ætti að vera rétt vestan við það er þó ekki alveg tilbúin að taka við af alvöru. Fyrst þarf hún að bíða eftir því að háloftalægð úr vestri fari yfir landið.

w-blogg031013a

Kortið (evrópureiknimiðstöðin) gildir kl. 18 á fimmtudag (3. október) Jafnþrýstilínur eru heildregnar. Úrkoma er sýnd með grænum lit og einnig má sjá vindörvar og strikalínur segja frá hita í 850 hPa fletinum. Rauð ör sýnir hlýja sunnanáttina fyrir austan þrýstiflatneskjuna yfir Íslandi. Það er einna helst við Suðausturland að má finna lægðarmiðju - þær eru trúlega fleiri.

En úti af Vestfjörðum liggur norðaustanstrengur, nægilega kaldur til þess að líkanið telur úrkomuna vera snjó (krossar í litaflötum). Í strengnum er vindur á bilinu 15 til 20 m/s. Aðalveðurkerfi svæðisins sést þó ekki á þessu korti. Þetta er myndarleg háloftalægð og ræður öllu kortinu hér að neðan. En það gildir á sama tíma og kortið að ofan.

w-blogg031013b

Hér eru jafnhæðarlínur 500 hPa flatarins heildregnar en hiti sýndur með lit. Stækka má þetta kort sem hið fyrra og það verður mun skýrara. Háloftalægðarinnar gætir lítt sem ekki við jörð vegna þess að kalda loftið fyllir nokkurn veginn nákvæmlega upp í hana. Lægðin blæs sunnanvindi á móti norðaustanáttinni neðan við og tefur framrás kuldans. Það breytist um leið og lægðin fer yfir landið.

Þá gerist líka það að nýju lífi slær í lægðaraumingjann við Suðausturströndina, sú lægð fer þá til norðurs og á að dýpka töluvert fyrir norðaustan land. Stormur af norðri og norðvestri verður þá úti fyrir Norður- og Norðausturlandi - en vonandi nær hann ekki svo mjög inn á landi.

Áhöld eru um það hvort snjóa muni á láglendi í norðanáttinni, það fer m.a. eftir úrkomumagninu. Við látum Veðurstofuna og aðra til þess bæra aðila fylgjast með því - lesendum til einhvers bjargræðis. 


Bloggfærslur 3. október 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg170725
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.7.): 117
  • Sl. sólarhring: 169
  • Sl. viku: 1325
  • Frá upphafi: 2486234

Annað

  • Innlit í dag: 98
  • Innlit sl. viku: 1164
  • Gestir í dag: 85
  • IP-tölur í dag: 84

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband